Hvar er frúin í Hamborg? Fjárfestum til framtíðar

In Almennt, Fréttir by Aðalheiður Júlírós

Þann 28. nóvember sl. stóð UAK (Ungar athafnakonur) fyrir viðburðinum Hvar er frúin í Hamborg? Fjárfestum til framtíðar í samstarfi við Nasdaq Iceland í höfuðstöðvum Arion banka. Yfir 100 konur skráðu sig á viðburðinn og var hann vel sóttur. Fjárhagslegt sjálfstæði er mikilvægur hlekkur í umræðunni um jafnrétti kynjanna og er augljóslega mikill áhugi hjá félagskonum um málefnið.

Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka opnaði viðburðinn þar sem hún fór yfir stöðuna á verðbréfamarkaðinum. Kynjahlutföll á verðbréfamarkaði í dag er 65/35 og það mun taka konur 70 ár að ná körlum í verðbréfaeign. Áhugavert er að sjá að sama hlutfall er hjá börnum undir 2 ára aldri og hefst því ójöfn þátttaka á hlutabréfamarkaði hjá ungabörnum. Benti hún einnig á að fjárfestingar eiga ekki að tengjast kyni og mikilvægt er að við veltum fyrir okkur hvað sé hægt að gera til þess að efla konur til fjárfestinga og hraða þróun kynja jafnvægis á þessu sviði

Iða Brá Benediktsdóttir / Ljósmynd: @SteinaMatt

Fyrr í vor stóð UAK fyrir viðburðinum, Fjármál 101, sem var einnig vel sóttur og mikil eftirspurn hefur verið eftir framhaldi meðal félagskvenna. UAK ákvað því að fá Snædísi Ögn Flosadóttir, forstöðumann sölu og þjónustu fjárfesta hjá Arion Banka til að mæta aftur og taka sérstaklega fyrir fjárfestingar og hlutabréfaviðskipti. Snædís líkti fjárfestingum við ferðalag en mikilvægt er að meta áhættur rétt eins og gera þarf þegar ferðast er á framandi slóðir þar sem huga þarf að bólusetningum. En því meiri sem áhættan er því meiri getur ávinningurinn orðið. Því er mikilvægt að vera vel undirbúinn og skoða ferðlagið vel fyrirfram. En hvernig fylgjumst við með og undirbúum við okkur? Snædís benti á ýmsar leiðir, til að mynda Keldan, greiningar, póstlisti Kauphallarinnar og rauntímaupplýsingar í heimabankaforriti Arion banka.

Snædís Ögn Flosadóttir / Ljósmynd: @SteinaMatt

Að því loknu settist María Kristín, formaður UAK niður með Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur, fjárfesti þar sem þær spjölluðu um hennar vegferð og reynslu í fjárfestingum. Guðbjörg Edda hefur seinustu áratugi lagt áherslu á að fjárfesta í fyrirtækjum þar sem konur hafa staðið í forsvari enda fá konur síður fjárfestingar eða lán fyrir rekstri. Snædís Ögn tók einnig þátt í samtalinu og svaraði spurningum úr sal.

María Kristín, Guðbjörg Edda og Snædís Ögn í sófaspjalli / Ljósmynd: @SteinaMatt

Aðalheiður Júlírós, samskiptastjóri UAK var með fundarstjórn á viðburðinum.

Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir, samskiptastjóri UAK / Ljósmynd: @SteinaMatt

Markmið viðburðarins var að fylla félagskonur innblæstri til að taka upplýstar ákvarðanir um sínar fjárfestingar og stuðla þannig að aukinni þekkingu og fjárhagslegu sjálfstæði ungs fólks.

Stjórn UAK þakkar Iðu Brá, Snædísi Ögn og Guðbjörgu Eddu fyrir komuna og einnig Nasdaq Iceland og Arion banka fyrir samstarf við félagið.

Stjórn UAK með Snædísi Ögn, Guðbjörgu Eddu og Iðu Brá / Ljósmynd: @SteinaMatt

Að loknum erindum gafst tækifæri til tengslamyndunar og léttar veitingar voru í boði Arion banka.