Hverjir stýra peningum?

In Uncategorized by AmnaHase

4. maí fór fram viðburðurinn ,,Hverjir stýra peningum?” í samstarfi við Fortuna Invest, en Fortuna Invest er fræðsluvettvangur á Instagram með það að markmiði að auka fjölbreytta þátttöku á fjármálamarkaði á Íslandi.

Viðburðinum var streymt frá Norræna húsinu bæði á Facebook og Vísir.is. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 2000 einstaklingar horft á viðburðinn en hann err ennþá aðgengilegur á Facebooksíðu UAK og Vísir.is.

Kristjana Björk Barðdal, samskiptastjóri UAK, opnaði viðburðinn og fór yfir dagskrá kvöldsins.

Rósa Kristinsdóttir, meðstofnandi Fortuna Invest, var með erindi þar sem hún fór yfir fjármálaumhverfið á Íslandi en mikill skortur er á kvenkynsfyrirmyndum í  geiranum. Hún fór einnig yfir hverjir það eru sem fara fyrir fjármagni á Íslandi og talaði þá sérstaklega um lífeyrissjóðina en þau fara fyrir um rúmum þriðungi heildarfjármagns á Íslandi. Hún varpaði einnig ljósi á hver staðan er á markaðnum og hvernig kynjahlutföll stjórnenda í fjármálageiranum eru. ,,Það má alveg leiða líkur að því að einsleitur hópur þeirra sem stýra fjármagninu sé líklegri til að taka einsleitar ákvarðanir“, sagði Rósa í erindi sínu.

Lilja Gylfadóttir, stofnandi UAK og formaður félags viðskipta og hagfræðinga, leiddi svo fróðlegar umræður þar sem rætt var hvernig hægt er að jafna út kynjahallann á fjármálamarkaði. Panelgestir voru þau Snædís Ösp Flosadóttir, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, Kjartan Smári Höskuldsson og Þórður Magnússon. Í panelumræðum kom fram að aukin umræða um fjármálageirann á Íslandi sem og fleiri kvenkynsfyrirmyndir í fjármálageiranum og sýnileiki þeirra getur haft jákvæð áhrif. Einnig var rætt að þrátt fyrir að kynjahlutföll á vísissjóðum á Íslandi séu jafnari en til dæmis hlutfall stjórnanda í skráðum fyrirtækjum á Íslandi þá er fjármagnið ekki að skila sér til fyrirtækja sem konur stýra. Panelgestir deildu einnig hvað það er sem þau ætluðu að gera ,,á morgun” til þess að stuðla að jafnrétti á fjármálamarkaðnum – en við erum öll hluti af breytingunni.

Panelgestir mældu með bókum og tímaritum sem tengjast meðal annars fjármálum. Þær voru: 

  • 2030: How Today’s Biggest Trends will Collide and Reshape the Future of Everything – Mauro F. Guillen
  • Thinking, Fast and Slow – Daniel Kahneman 
  • Að vera áskrifandi af alþjóðalegu blaði eins og Economist þar sem hægt er að fá stöðugar uppfærslur.
  • Hlutabréf og eignastýring frá Íslandsbanka
  • Random Walk Down Wall Street – Burton G. Malkeil

Viðburðurinn heppnaðist einstaklega vel og þakkar stjórn UAK fyrir áhorfið.