Hrefna Björg Gylfadóttir hefur, eins og svo margir, fundið fyrir miklum loftslagskvíða og vissi ekki hvernig hún átti að hafa áhrif, en í erindi sínu á UAK-deginum fjallaði hún um það hvernig hún fór frá því að vinna einstaklingsbundnar aðgerðir og til þess að vinna verkefni í kringum kerfisbreytingar.
Hrefna sagði Íslendinga vera mikla neysluþjóð, en hún ákvað að gera tilraun til þess að ganga alla leið í rusllausum (e. zero-waste) lífsstíl í 30 daga til þess að gjörbreyta eigin neysluhegðun. Á þessum 30 dögum lærði Hrefna að ekki væri mögulegt að vera fullkomlega rusllaus í kerfinu sem við lifum við í dag, en sagði mikilvægt að minna sig á það að við þurfum ekki á að halda einni manneskju sem lifir slíkum lífsstíl fullkomlega, heldur þurfum við margar sem gera það ófullkomlega.
Annað sem Hrefna lærði á áskoruninni var hversu erfitt það er að endurvinna, en jafnframt tók hún eftir miklum þorsta innan zero-waste samfélagsins fyrir því að deila og leita upplýsinga. Það sem Hrefnu fannst pirrandi við zero-waste netsamfélagið sem hún var hluti af var að 90% meðlima þess voru konur, auk þess sem að í leiðtoganáminu hennar varð hún vör við, aðallega frá karlkyns samnemendum sínum, að lítið var gert úr einstaklingsframtaki hennar, en hún segir þessa karlkyns samnemendur hennar hafa sagt mikilvægara að gera kerfisbreytingar, breyta kapítalismanum og pólitíkinni. En hvernig eigum við að breyta kerfinu ef við breytum okkur sjálfum, spurði Hrefna. Þá sagði hún augljóst að það væru karlmennirnir sem fengju að taka þessar stóru ákvarðanir á meðan konur einbeittu sér frekar að því að breyta sjálfum sér.
Hrefna lifir ekki alveg rusllausum lífsstíl í dag en segist mjög meðvituð um sig sem neytanda, auk þess sem hún leggur áherslu á aðgerðir sem valda litlu álagi en hafa mikil áhrif, eins og að kaupa aðeins notuð föt í stað nýrra, fremur en aðgerðir sem valda miklu álagi en hafi lítil áhrif í stóra samhenginu, eins og að neita sér alveg um að nota einnota kaffimál.
En þó að Hrefna sé búin að breyta neyslumynstrinu sínu er loftslagsvandinn, ótrúlegt en satt, ennþá til staðar. Þá sagði Hrefna það jafnframt einmanalegt til lengdar að einblína aðeins á eigin neyslu, og ákvað hún því að gerast sjálfboðaliði í umbúðalausri verslun þar sem hún kynntist 20 öðrum sjálfboðaliðum, allt stelpum, með sama áhuga á umhverfismálum, og loks varð hún hluti af Extinction Rebellion, hreyfingu sem mótmælir aðgerðaleysi stjórnvalda með borgaralegri óhlýðni, svo sem með því að loka umferðargötum.
Hrefna sagðist finna fyrir mikilli reiði vegna umhverfismála, ekki síst í ljósi þess hve alvarlegar afleiðingar loftslagsbreytingar koma til með að hafa, en samkvæmt tölum Extinction Rebellion eru nú 42.450 dýrategundir í útrýmingarhættu um þessar mundir, samanborið við 26.000 árið 2018. Þá horfir mannkynið fram á 3°C hlýnun fyrir árið 2100 ef ekkert verður að gert, og verði það að veruleika verða loftslagsflóttamenn 2 milljarðar, en til samanburðar eru um 5 milljónir manna á flótta vegna Sýrlandsstríðsins.
Hrefna sagði þó frelsandi að leyfa sér að vera reið, og að hún finni kraft frá því að vera reið. Í gegnum tíðina hafi hún fundið fyrir samviskubiti fyrir að tala um þetta og hafa hátt, enda hafi hún alist upp í feðraveldinu á Íslandi, en hún hefur ekki samviskubit lengur, enda hafi karlmenn “fokkað hlutunum upp í áraraðir”.
Í námi sínu í leiðtogahæfni hefur Hrefna lagt áherslu á skólaverkefni um umhverfismál sem hún segir að hafi gefið henni mikið, meðal annars tækifæri til að hafa áhrif á vettvangi kerfisbreytinga. Það helsta sem Hrefna hefur lært á þessu tímabili þar sem hún fór úr einstaklingsbundnum ákvörðunum og í kerfisbreytingar er að það er kraftur í samstöðunni, að við berum öll ábyrgð og getum lagt okkar af mörkum, að við höfum ekki tíma fyrir samviskubit eða skömm og að við eigum að vinna samkvæmt eigin sannfæringu, mikilvægi þess að nýta forréttindi okkar og innri sjálfbærni.