„Hvernig er kynjahlutfallið hjá ykkur?” Í hverri einustu fyrirtækjaheimsókn á vegum HR eða í vísindaferð með nemendafélaginu spyr ég þessarar spurningar – og ansi margir í mínum árgangi í verkfræðinni orðnir hundleiðir á því. Sumir verða hissa. Sumir móðgast. Á meðan aðrir eru nógu útsjónarsamir til að hafa gert grein fyrir hlutfallinu að fyrra bragði.
Handan við hornið er sumarið og sumrinu fylgja útskriftir úr háskólum landsins. Með eftirvæntingu halda nýstúdentar háskólasamfélagsins út á vinnumarkaðinn með von í brjósti um velgengni og frama. En hvernig atvinnutækifæri eru í boði þegar horft er til kynja? Er munur á því hvaða störf, og þá laun, eru í boði eftir því hvaða kyni þú skilgreinir þig?
Tölurnar – svart á hvítu
Skýrslan Launamunur karla og kvenna byggist á rannsókn Hagstofu Íslands og aðgerðahóp stjórnvalda um launajafnrétti um kynbundinn launamun. Rannsóknin er byggð á geysi víðfeðmum gagnagrunni um laun og aðra margvíslega þætti um stöðu launamanna. Rannsóknin tekur tillit til áranna 2008 til 2013 og á hverju áranna eru tæplega 70 þúsund launamenn í gagnagrunninum. Gögnin sýna að fleiri konur en karlar eru með háskólapróf og þegar horft er til alls gagnatímabilsins kemur í ljós að kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild.
Sambærilega niðurstöðu var að finna í rannsóknarskýrslunni Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði, sem unnin var á vegum EDDU – öndvegisseturs við Háskóla Íslands. Þar má sjá að launamunur er undantekningarlaust konum í óhag. Einnig kemur fram í skýrslunni að vinnuveitendur séu tregari til að fjárfesta í starfsþróun kvenna og að körlum er oftar boðin hærri laun en konum. Þá eru enn stofnanir, sveitarfélög og fyrirtæki sem skila ekki jafnréttisáætlunum til Jafnréttisstofu þrátt fyrir að þau séu skyld til að gera það samkvæmt lögum.
Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja
Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja er þeirra leið til að stuðla að sjálfbærri þróun, því ábyrgð fyrirtækja er ekki eingöngu að skila fjárhagslegum hagnaði heldur jafnframt „hagnaði” fyrir samfélagið. Í þessu felst að gera eitthvað annað, meira og metnaðarfyllra en að fylgja lagabókstaf eða gefa til góðgerðamála. Það þarf með einhverjum leiðum að tryggja að starfsemi þess hafi jákvæð áhrif á nærsamfélagið og þar með starfsfólk. Undir þetta falla viðkvæm málefni, sbr. laun einstaklinga og áhrifastöður innan fyrirtækja og stofnana.
Lausnin eru stjórnendur
Jafnrétti er lykilatriði í sjálfbærri þróun og það byggist einna helst á virkri þátttöku stjórnenda og krefst skilvirkra leiða. Fyrirtæki sem er sérstaklega til fyrirmyndar er Íslandsbanki og hlaut hann á dögunum Hvatningarverðlaun jafnréttismála. Íslandsbanki hefur skilgreint jafnréttisstefnu þar sem skýrt er tekið fram að starfsmenn njóti sömu kjara fyrir sambærilega frammistöðu í störfum sem fela í sér sambærilega ábyrgð. Jafnframt á jafnréttisstefnan að tryggja að jafnræðis og hlutleysis sé gætt við ráðningar, val í nefndir, stjórnir og ráð á vegum fyrirtækisins. Þá er gagnsæi og upplýsingaflæði mikilvægt fyrir starfsfólk og viðskiptavini og hefur Íslandsbanki lagt áherslu á að kynna jafnréttisstefnuna fyrir nýjum starfsmönnum og stjórnendum til að tryggja þekkingu á áherslum fyrirtækisins strax í upphafi. Þá birtir bankinn mælanlegan árangur jafnréttisstefnunar opinberlega í útgefinni samfélagsskýrslu þeirra.
Það liggur því í augum uppi að hluti af lausninni er að stjórnendur sýni vilja í verki, í samstarfi við mannauð og annað starfsfólk, til að leita þessara skilvirku leiða. Þannig er hægt að ná góðum árangri í að jafna kjör og tækifæri starfsfólks.
Við erum forvitin
Undanfarið hefur verið mikil gróska í jafnréttismálum á Íslandi og augljóst er að yngri kynslóðir vilja taka þátt í umræðunni enda snertir jafnréttisbaráttan okkur öll. Það endurspeglar mína upplifun sem er sú að ungt fólk á Íslandi er forvitið um stöðu kynja innan fyrirtækja og hvað fyrirtæki athafast hvað varðar almenn jafnréttismál. Við, sem erum að stíga okkar fyrstu skref í atvinnulífinu, erum meðvituð um baráttuna um jöfn tækifæri óháð kyni eða uppruna. Þrátt fyrir það skiptir það höfuðmáli að fyrirtæki, sem ráða til sín starfsfólk, gefa tækifæri og ákvarða launakjör, séu meðvituð um stöðu einstaklinga í þeirra innanbúðum. Allra síst mega þau sofna á verðinum og gera einhverjum hærra undir höfði en öðrum.
Þessi pistill birtist upphaflega á www.romur.is.
Ljósmynd eftir Håkon Broder Lund.