,,Samfélagsgerðin í heild sinni hindrar framgang kvenna og handan glerþaksins er sannleikurinn sem við erum að bíða eftir,“ sagði Bergur Ebbi Benediktsson í erindi sínu á UAK deginum. Bergur Ebbi er sannkallaður athafnamaður enda heimspekingur, lögfræðingur, rithöfundur og vinsæll uppistandari. Í erindi sínu, sem nefndist Skjáskot, fór hann yfir hugtakið „Glerþakið“, hvaðan það kemur og hvað það hefur þýtt hverju sinni í mannkynssögunni.
,,Ég held að í allri baráttu og í byltingum að svona hugtök skipti máli. Við skulum aldrei hætta að nota hugtök heldur halda áfram að finna ný hugtök og nota hugtök til að lýsa ástandinu sem við búum við,“ sagði hann.
Bergur Ebbi fléttaði saman iðnbyltingunum sem þegar hafa orðið við byltingar sem hafa átt sér stað í jafnréttismálum, svo sem á samfélagsmiðlum.
,,Fjórða iðnbyltingin er tískuhugtak sem er notað til að lýsa því sem er að gerast í dag, aðallega í tækni. Það felur í sér innleiðingu gervigreindar í samfélagið. Að tala um byltingar er ein leið til að greina samfélagið en þetta eru ekki endilega byltingar. Þetta er ein samfelld þróun og munum að ein góð leið til að byltingar fái ekki bakslög er að halda þróuninni áfram og samfelldri,” sagði hann.
Bergur Ebbi sagðist ekki vita hvað við séum að búa til pláss fyrir, nú þegar þróun gervigreindar er árangursrík og hröð.
,,Við höfum frelsað heilann eins og þegar vöðvaaflið var frelsað í gegnum fyrstu til þriðju iðnbyltingu. Hvað er að fara að taka við og hvernig getum við ímyndað okkur hvað tekur við, í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar og glerþaksins? Hvernig getum við ímyndað okkur framtíðina? Við vitum ekki hvernig hlutirnir munu líta út. En ég hef trú að þetta tengist jafnréttismálum, þau gildi sem verði ofan á eru þau gildi sem nú þegar er byrjað að tala um í jafnréttisbaráttu,” sagði hann.
Í alþjóðlegu samhengi benti Bergur Ebbi á að í sumum ríkjum gætu félög eins og Ungar athafnakonur ekki starfað. Sér til stuðnings fór hann yfir 74. gr. Stjórnarskrá Íslands um félagafrelsi og lagði áherslu á að það mætti ekki horfa framhjá því hversu merkilegt slíkt frelsi er.
,,Við getum valdeflt fólk með því að setja það saman í hópa. #MeToo byltingin og fleiri taka saman einstakar sögur sem hafa ekki nógu mikinn slagkraft einar og sér, en í krafti fjöldans hafa gríðarleg áhrif. Konur hafa valdeflst gríðarlega með því að hópa sig saman, búa til slagkraft utan um málefni með félagafrelsinu,” benti hann á.
Samhliða þessu hafi ,,hin hversdagslega þekking kvenna“ vaxið ásmegin og að nú væri verið að virkja hana í fyrsta sinn, samkvæmt Bergi Ebba. Það sem hefur komið út úr byltingum á borð við #MeToo, #sexdagsleikinn, #FreeTheNipple falli undir þessa þekkingu, sem og upplýsingar sem koma fram hópum eins og Góða systir og Beauty Tips.
Bergur Ebbi benti líka á að konur hafi alltaf haft eitthvað að segja, þó það hafi ekki endilega skilað sér í sögubækurnar. ,,Allar litlu hversdagslegu sögurnar sem innihalda alveg jafn mikla þekkingu og alveg jafn miklar breytingar hafa ekki ratað í sögubækurnar,” sagði hann.
En þekking og byltingar á 20. öldinni, þegar karlar fengu að ráða, tengdust kjarnorku og tortímandi sprengjum, hafi hins vegar gert það.
Bergur Ebbi spáir annarri og breyttri stöðu á 21. öldinni: ,,Þeir sem hafa mýktina til að skilja nútíðina og framtíðina, og þeir sem hafa innsæið munu hafa völdin. Svo ekki verði fleiri bakslög en nú þegar hafa orðið“.