Mánudagskvöldið 14. desember stóð UAK fyrir panelumræðum um vinnustaðamenningu út frá jafnréttissjónarmiðum, undir yfirheitinu ,,Hvernig vinnuumhverfi vilt þú skapa?”. Markmið viðburðarins var að ræða um vinnuumhverfi og hvaða þættir skipta máli þegar kemur að því að tryggja jafnrétti á vinnustöðum.
Panelgestir voru Auður Albertsdóttir, ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL, Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður á starfsmannasviði Landsvirkjunar, og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og eigandi Empower. Panelstýra kvöldsins var Björgheiður Margrét Helgadóttir, fjármálastjóri UAK.
Panelistar veltu upp hlutverkum “þriðju vaktarinnar” á vinnustöðum og fóru yfir upplifanir sínar í gegnum tíðina, en þær könnuðust allar við að hafa fundið fyrir pressu til að haga sér ákveðin hátt innan þeirra fyrirtækja sem þær hafa starfað. Þessi þriðja vakt getur verið allt frá því að hlaupa upp og niður þrjár hæðir til þess að láta fólk kvitta á afmæliskort, ganga frá kaffibollum eftir aðra eða þurfa að passa tóninn í röddinni til að hljóma ekki of frek á fundi. Konur þurfa sjálfar að vera meðvitaðar um þessi hlutverk og hver á að sinna þeim, þar sem þær detta stundum í þau alveg óvart. Það er svo mikilvægt að vinna á stað þar sem þú ert metin að verðleikum, eins og Þórey sagði: ,,Þú gerir menninguna ríkari – þú þarft ekki að læra á menningu fyrirtækisins eða aðlagast.”
Selma fjallaði um mikilvægi þess að markaðssetja starfsauglýsingar rétt. Hún benti sérstaklega á að máli skiptir hvernig auglýsingar eru orðaðar þar sem íslenskan er ansi kynjuð. Einnig skiptir máli að nota orð sem höfða til fleiri kynja, en konur tengja frekar við orð eins og leiðandi, vöxtur og þróun, á meðan karlar tengja frekar við ábyrgð, stórt, stjórna eða kostnaður. ,,Nafnheiti á starfsheitum skiptir miklu mál”, sagði Selma en mörgum starfstitlum var breytt innan Landsvirkjunar þegar fyrirtækið byrjaði að vinna að jafnrétti innan fyrirtækisins. Miklu púðri var eytt í að breyta allri orðræðu til starfsfólks svo öll fyndu samsvörun, en sem dæmi var netfanginu allir@landsvirkjun.is breytt í oll@landsvirkjun.is.
En hvernig er hægt að breyta vinnumenningu og umhverfi? Það getur oft verið erfitt og þreytandi að vera í hlutverki þeirra fáu sem þurfa stanslaust að benda á hluti sem fara mættu betur, en Auður talaði um að það væri það sem hefði komið mestu breytingunum af stað á hennar vinnustöðum. “Dropinn holar steininn og við þurfum að halda áfram að pönkast í stjórnendum”. Þórey og Selma töluðu báðar um mikilvægi þess að fá óháðan aðila inn í fyrirtækið til þess að taka út stöðuna á hlutlausan hátt, því það þarf að vita raunverulegu stöðuna áður en ráðist er í breytingar. Þá er einnig lykilatriði að æðstu stjórnendur séu með og þau fái starfsfólk með sér í lið sem skapa jákvæð viðhorf hjá samstarfsfólki gagnvart breytingunum.
Í lok viðburðarins var opnað fyrir spurningar en félagskonur ræddu við panelista um þessa fínu línu að vinna eftir starfslýsingu og taka að sér önnur verkefni sem byðust, hvenær er eytt óþarfa púðri í verkefni sem gagnast ekki til framgangs í starfi? Heilt yfir, þá skiptir máli að hlusta á sjálfa sig, sinna þeim verkefnum sem áhugi er fyrir en taka reglulega stöðuna hvort sé farið fram yfir afkastagetu viðkomandi. Félagskonur voru hvattar til að móta sína eigin starfslýsingu og muna að oft er betra að framkvæma í stað þess að bíða eftir leyfi. Þá er einnig verðmætt að átta sig á því að sem ungar konur koma þær með mikið virði inn í fyrirtæki, á þeirra eigin forsendum.
UAK þakkar panelgestum kærlega fyrir skemmtilegar og fróðlegar umræður, sem og félagskonum fyrir að mæta og taka þátt í umræðunum.
Viðburðurinn var síðasti viðburður haustannar, en við viljum þakka félagskonum fyrir að vera virkar í starfinu í haust þrátt fyrir að viðburðir hafi nær allir verið stafrænir. Við höldum ótrauðar áfram og sjáum ykkur á spennandi vorönn sem hefst á opnunarviðburði 19. janúar 2021!