„Hverskonar breyting verður það að hoppa 122 sæti í jafnræði kynjanna?”

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

Ásta Fjeldsted sagði frá upplifun sinni að vera kona í viðskiptaheiminum í Asíu en hún flutti aftur til Íslands árið 2017 þegar henni bauðst að taka við sem framkvæmdarstýra Viðskiptaráðs. Hún flutti þá frá Japan og var að eigin sögn í hálfgerðri gleðivímu við það að flytja til jafnréttisparadísarinnar Íslands, sem trónir á toppi lista Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) um kynjajafnrétti – en Japan er langt á eftir og vermir nú 122. sæti.  

„En svo fór ég að hlusta á þessar ofurkonur sem við eigum. Hvernig getum við t.d. verið númer eitt á þessum lista þegar forsætisráðherrann okkar, valdamesta kona Íslands, spyr 600 manns á  Viðskiptaþingi hvers vegna við séum að fagna því að 33,5% stjórnenda í fyrirtækjum þar sem eru 50 eða fleiri, séu konur? Þegar það eru lög í landinu frá 2012 sem segja að kvótinn af hvoru kyni megi ekki að vera minni en 40%?”

Ásta benti á athugasemdir nokkurra þekktra kvenna á Íslandi. Margrét Kristmannsdóttir í Pfaff og nýkjörinn varaformaður Viðskiptaráðs, skrifaði pistil um möguleikann að sekta við broti á þessum lögum líkt og gert er með nagladekkjalögin. Védís Hervör Árnadóttir, tónlistarkona og frumkvöðull spurði „Af hverju þurfum við alltaf að sanna það að það sé betra að hafa konur og fjölbreytileika? Hver er að sýna fram á að það sé betra að vera með fleiri karlmenn?” og Katrín Olga Jóhannesdóttir, fyrrum formaður Viðskiptaráðs, velti því fyrir sér af hverju það séu engar konur í Kauphöllinni. Aðspurð að því sama sagði Ásta; „Ég tel að tillaga hennar Agnesar Ingunnar Kro, lögfræðings og stjórnarkonu, um það að auglýsa forstjórastöður fyrirtækja í einkageiranum myndi hjálpa til. Ég hvet því allar konur sem sitja í stjórnum þessara fyrirtækja til þess að láta í sér heyra og taka raunverulegar ákvarðanir um þessi mál, þó að ég viti að þær gætu verið í minnihluta.”

Talandi um að fyrirtæki verði að sjá fjárhagslegan ávinning á því að fjárfesta í fjölbreytni þá bætti Ásta svo við; „Það er búið að margrannsaka þetta. Þau fyrirtæki sem eru í efsta fjórðungnum af fyrirtækjunum sem standa sig hvað best þegar kemur að kynjajafnrétti eru með 21% hærri arðsemi en þau sem eru í lægsta fjórðungnum. Það þarf ekkert að segja meira. Þetta er bara augljóst.”