Jafnrétti á okkar lífsleið

In Fréttir, UAK-dagurinn, Uncategorized by Aðalheiður Júlírós

Þann 22. apríl var sjötta ráðstefna UAK haldin sem bar yfirheitið Jafnrétti á okkar lífsleið. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að vekja athygli á alvarlegri afturför í jafnréttismálum samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Loftlagsbreytingar, heimsfaraldur COVID-19 og stríð í Úkraínu eiga það sameiginlegt ásamt öðrum þáttum að hafa verið áhrifavaldar þess efnis. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna var að ná kynjajafnrétti fyrir árið 2030 en nýjar tölur sýna að það verði ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir þrjú hundruð ár.

Á ráðstefnunni var leitast við að svara spurningum líkt og hvar Ísland stendur á heimsvísu og hvernig við getum haft áhrif á einstaklingsgrundvelli og sem samfélag. Ráðstefnupoki UAK árið 2023 var hannaður af Elínu Maríu grafískum hönnuði og var hugmyndafræðin á bakvið hönnunina sú að þegar við fæðumst fáum við ákveðin spil á hendi og er það okkar að spila vel með þau. Einnig má finna vísun í glerþakið en drottningin á spilinu hefur brotið sig í gegnum spilið.

Kristín Sverrisdóttir ráðstefnustýra UAK setti ráðstefnuna með því að vitna í Sima Bahús, forstjóra Sameinuðu þjóðanna sem segir þörfina vera brýna að við fylkjum liði og fjárfestum í konum og stúlkum til þess að hraða árangri í jafnréttisbaráttunni. Því lengur sem við bíðum því meira mun það kosta okkur. Einnig rifjaði Kristín upp þegar Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseta Íslands opnaði ráðstefnu UAK árið 2019. Þar talaði hún um að sýnilegar sprungur væru komnar í glerþakið á Íslandi og að þeir brestir heyrast út í heim. Það eru því vonbrigði að nýjustu spár séu eins svartsýnar og þær eru. Þá benti Kristín einnig á að jafnréttið sem við viljum finna viljum við finna fyrir á okkar lífsleið. UAK finnur fyrir miklum meðbyr og benti Kristín á að aðsókn í félagið hefur aukist og hefur fjöldi félagsmeðlima aldrei verið fleiri eða yfir fjögur hundruð meðlimir.

Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann, varaformaður og markaðssstjóri UAK var ráðstefnustýra og sá um utanumhald um dagskránna yfir daginn.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra var með opnunarávarp þar sem hún rifjaði upp frá því þegar hún var yngri og var með það á tilfinninguni að við værum korter í jafnrétti. Katrín benti á að ekki sé um að ræða forréttindamál heldur jöfnum mannréttindum fyrir helminginn af mannkyninu. Þá ítrekaði hún að við þurfum alltaf að vera á vaktinni og tala opinskátt um hlutina, m.a. við börn en Katrín benti á mikilvægi þess að börn fái fræðslu um kynbundið ofbeldi.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi flutti erindið Bakslagið í jafnréttismálum: Eitt skref áfram og 300 ár tilbaka. Í erindinu sínu benti Stella á að konur eru 14 sinnum líklegri til að farast í hamförum en karlmenn vegna aðgengi að upplýsingum og aldrei hafa fleiri konur verið á flótta. Einnig benti hún á að karlmenn verði að hætta að líta á jafnrétti sem ógn, við þurfum þá til liðs við okkur. „Jafnrétti er ekki bara framfarir kvenna, heldur allra“ Ísland er eina þjóðin í heiminum sem hefur náð 90% af jafnréttis markmiðinu en önnur lönd standa í 68%. Þessi 10% sem við eigum eftir stafa helst af kynbundnum launamismun og kynbundnu ofbeldi. Stella var með ákall til ráðstefnugesta og óskaði eftir því að við myndum láta í okkur heyra, að við notum jafnréttisgleraugun „Við megum ekki gleyma systrum okkar úti í heimi, þær þurfa okkar stuðning, við erum ekki jafnar fyrr en við erum allar orðnar jafnar“.

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis var með erindið Fyrst, síðust, skiptir það máli? þar sem hún velti fyrir sér hvort konur ætli alltaf að vera fullkomnar og betri en karlmenn. Þegar Ragna var ráðin í starf skrifstofustjóra Alþingis var hún fyrsta konan til þess að gegna því starfi. Þegar hún byrjaði þar velti hún fyrir sér hvort hún mætti ekki gera mistök sem fyrsta konan og hún tók ákvörðun „Já, ég ætla bara að leyfa mér að gera mistök“. Ef Ragna ætti að gefa sjálfri sér eitthvað ráð væri það „Láttu bara vaða, stígðu út fyrir rammann!“. Mikilvægt er að muna að ein kona er byrjunin, það þarf alltaf einhver að vera fyrst.

Seinasta erindið fyrir hádegismat var með Haraldi Þorleifssyni og Þorsteini V. Einarssyni sem bar heitið Trúnó með Halla. Haraldur kom inn á að þörf sé fyrir því að við aflærum ákveðin sjónarmið og hegðun „við erum öll alin upp heima hjá okkur og í samfélaginu, við erum karlrembur vegna þess að okkur er kennt það, ekki nema ef við ákveðum að vera það ekki“.

Fyrsta erindi eftir hádegismat var með Sæunni Gísladóttir, sérfræðingi hjá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri og þýðandi bókarinnar Ósýnilegar konur eftir Caroline Driado Perez. Erindið hennar bar yfirheitið Af hverju skiptir gagnahlutdrægni máli? þar sem hún varpaði ljósi á þá skekkju sem á sér stað með ýmsa hluti eins og hvernig iPhone símar eru hannaðir með karlmanns hönd í huga, að stöðluðu dúkkurnar sem notaðar eru við árekstrarprófanir líkja eftir karlmanni og að gögn á bakvið gervigreind eru byggð á gagnasöfnum sem er með gagnabilun. „Hvað getum við gert? Þegar við hönnum heim sem á að henta öllum sem í honum búa þurfa konur að vera í herberginu, það þarf fjölbreytni í hópi þeirra sem taka ákvarðanir. Við þurfum ólík sjónarhorn“.

Guðrún Ólafsdóttir, sviðsstjóri upplýsingatækniráðgjafar og meðeigandi hjá Deloitte flutti erindið Treystu tilfinningunni þar sem hún fór yfir sína vegferð í gegnum karllægan starfsvettvang. Guðrún var með hvetjandi orð fyrir ráðstefnugesti  og benti á að við „eigum að vera fyrstar og síðastar í því að trúa á okkur sjálfar“. Einnig benti Guðrún á mikilvægi þess að við tölum opinskátt um hlutina og að ef við bendum ekki á þá mun það taka okkur lengri tíma að ná kynjajafnrétti, jafnvel 500 ár.

Margrét Bjarnadóttir, dósent í aðgerðagreiningu og tölfræði og stofnandi PayAnalytics var með erindið Það er kominn tími til að klára þetta mál: Lokum jafnlaunabilinu með gagnadrifnum ákvörðunum. Margrét er á þeirri skoðun að ekkert fyrirtæki eða stofnun getur verið með afsökun fyrir því að vera ekki búið að loka jafnalunabilinu. Það eru komin tæki og tól til þess að klára þessi mál. Jafnlaunamál snúast ekki um að öll eigi að fá sömu laun heldur frekar að einn hópur fái meira borgað en annar sambærilegur hópur. Margrét benti á það að við erum föst í meðaltalinu og launabilið kemur til af því að það er skortur á hálaunuðum konum og að konur gefa meira vinnuna sína „við verðum að hætta að segja sjálfsagt og verði þér að góðu þegar við klárum auka verkefnin“.

Eftir erindin hjá Sæunni, Guðrúni og Margréti var komið að pallborðsumræðum með yfirskriftinni Við höfum ekki 300 ár með þeim þremur sem Andrea Gunnarsdóttir, fyrrum formaður UAK stýrði.

Helga Hlín Hákonardóttir eigandi og lögmaður hjá Strategía var með lokaerindið með yfirheitið I can buy myself flowers þar sem hún fór yfir sína vegferð og þeim hindrunum sem hún hefur mætt á leið sinni að þeim stað sem hún er á í dag. Í erindinu vitnaði Helga Hlín í texta úr lagi eftir Miley Cyrus, Flowers en með því vildi hún sýna fram á mikilvægi þess að öll taki sjálfstalið og vita hver við erum og hver við vijum vera og þekkja okkar gildi, að vita betur og meira en allir hinir og ekki fylgja bara straumnum, að það verður að vera gaman en það getur verið erfitt að fara á móti straumnum og því er mikilvægt að velja fólkið í kringum mann vel, og að lokum að það er enginn að fara vinna þess vinnu fyrir okkur og þurfum við að leiða okkur sjálf áfram. 

Það er augljóst að til þess að við getum náð klárað þessi 10% sem eftir eru svo við getum náð markmiðunum er mikilvægt að öll láti málefnið sig varða og verður umræðan að byrja snemma og halda áfram út í lífið hjá öllum. Það eru tækfæri fyrir okkur, bæði á einstaklings grundvelli og samfélagslega, til þess að leggja okkar af mörkum, hvort sem það er að laga hugsanavillu, uppfæra gögn sem gervigreind byggir á eða nýta okkur þá tækni sem til er nú þegar til þess að afnema launabil á milli kynjanna.

Stjórn UAK þakkar öllum fyrirlesurum kærlega fyrir þeirra framlag. Einnig vill stjórnin þakka öllum ráðstefnugestunum sem gerðu daginn frábæran en góður andi var yfir hópnum og góðar þátttökur voru í umræðum yfir daginn.