Þriðji opni viðburður vetrarins fór fram í gærkvöldi, fimmtudaginn 4. maí, undir yfirskriftinni karllægar atvinnugreinar. Fundurinn fór fram á Center Hotel Plaza í Aðalstræti og hófst kl. 20. Rúmlega 100 manns sóttu fundinn og var kynjahlutfall gesta mjög jafnt. Framsögumenn fundarins áttu það sameiginlegt að starfa í og stýra fyrirtækjum í karllægum atvinnugreinum. Þetta voru Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða hjá GAMMA, Árna Sigurjónsson hdl. varaformaður Samtaka iðnaðarins og yfirlögfræðingur Marel, Elín Helga Sveinbjörnsdóttir, formaður Samtaka íslenskra auglýsingastofa og einn eigenda og framkvæmdastjóra Hvíta hússins og síðast en ekki síst Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri CCP á Íslandi.
Margrét Berg Sverrisdóttir, formaður félagsins og lögfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, opnaði fundinn með stuttu erindi og síðan tók Dagný Engilbertsdóttir, stjórnarkona í UAK og gjaldeyrismiðlari hjá Íslandsbanka við sem fundarstjóri umræðanna. Viðmælendurnir fjórir kynntu sig öll stuttlega áður en umræður hófust og sögðu frá því hvernig þau hefðu fengið áhuga á þeim greinum sem þau starfa í og hvernig þau hefðu komist á þá staði sem þau eru á í dag. Það kom á óvart að allir viðmælendur sögðust hafa fengið áhuga á sínu starfi fyrst og fremst af tilviljun. Misjafnt var hvort þeim hefði boðist spennandi tækifæri eða hvort þau hefðu þurft að sækja fast eftir tækifærum í starfi.
Viðmælendur voru beðnir um að reyna að svara því á hnitmiðaðan og hreinskilin hátt hvers vegna þeir töldu sína atvinnugrein vera jafn karllæga og raunin er enn þann dag í dag:
Árni minntist á að margir erlendir mótaðilar, birgjar og viðskiptavinir Marel væru karlkyns og taldi það hafa áhrif á samsetningu starfsmannanna hérlendis. Hvort það sé raunveruleg ástæða eða ekki er erfitt að segja til um en það er þó nokkuð ljóst að þar sem svo fáar konur útskrifast með þá iðnmenntun sem nauðsynleg er í mörg þeirra starfa, þá dregur það verulega úr möguleikum þeirra á að jafna hlutföllin. Hann vonast til að kvennastarfsátakið sem nú er í gangi eigi eftir að opna augu fleiri kvenna fyrir iðngreinum og tæknistörfum. Það kom flestum á óvart að heyra að kynjahlutföllin hjá Marel væru algjörlega sambærileg hjá samstæðunni í heild og svo hér á Íslandi, þ.e. 85% karlar hjá samstæðunni en 83% karlar hjá Marel á Íslandi.
Stefanía taldi að í leikjabransanum væri vandinn tengdur því að tölvuleikir eru framleiddir nánast einungis fyrir karlmenn og oft með kynferðislega eða niðrandi framsetningu á kvenfólki. Konur tengi því oft lítið við leikina og sækist þá síður eftir störfum hjá þeim fyrirtækjum sem framleiða þá. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að 60% af unglingsstúlkum spila tölvuleiki en þær auglýsa ekki notkun sína út á við. Konur eru stærsti vaxandi markhópurinn í tölvuleikjabransanum og hafa verið það í talsverðan tíma. Hér er viðskiptatækifæri sem ekki er verið að stökkva á.
Agnar minntist á að kynjamunurinn væri mis mikill eftir störfum í fjármálageiranum. Þótt konur séu lítið áberandi á fjármálamarkaði þá hafa þó nokkrar verið á skuldabréfamarkaði en nánast engar á hlutabréfamarkaði. Hægt er að hafa áhrif á rekstur fyrirtækja í gegnum hlutabréf og taldi hann mögulegt að karlarnir vildu frekar vera nær völdunum en konurnar. Einnig var komið inn á það að miðlarastarfið felur í sér talsverða sölumennsku og sem er mögulega eitthvað sem á minna við konur. Hann telur hins vegar mikla þörf fyrir konur inn á þennan markað og heldur að það séu að fara að opnast frekari tækifæri fyrir konur. Nýliðun hefur verið lítil og það dregur auðvitað úr endurnýjun. Spurður út í það hvers vegna engar konur hafa nokkurn tímann starfað í fjármálamarkaðstengdum störfum hjá GAMMA viðurkenndi Agnar að það hefði mögulega haft áhrif að þeir hafa sjaldan auglýst störf heldur frekar nýtt tengslanet til að finna aðila í störfin. Hann sagði að í þeim tilfellum sem störfin hefðu verið auglýst hefðu þó áberandi færri konur sótt um en karlar en viðurkenndi þó að eflaust hefðu þeir getað gert betur í þessum málum. Hann segir karlmenn hafa verið mun duglegri en konur að sækjast eftir því að fá starf og gat glatt salinn með þeim fréttur að þrír kvenmenn hefðu á dögunum verið ráðnir inn sem sumarstarfsmenn. Hugsanlega var fundurinn þarna strax að hafa jákvæð áhrif á karllægan vinnustað!
Elín Helga var eini viðmælandinn sem sagðist ekki hafa neinar skýringar á því hvers vegna geirinn væri svo karllægur, ekki væri a.m.k. hægt að bera fyrir sig að viðskiptavinirnir og markhópurinn væru aðeins karlar þar! Hins vegar hefur raunin verið sú að karlmenn stofna frekar auglýsingastofur en konur og karlmenn eru líklegri til að ráða til sín aðra karlmenn heldur en konur. Hún benti á að fyrirtæki gætu haft áhrif á stöðuna með því að neita að eiga í viðskiptum við önnur fyrirtæki sem ekki væru með kynjahlutföllin í lagi líkt og forstjóri Hewlett Packard gerði á dögunum.
Það kom upp spurning, til bæði fulltrúa tölvuleikja- og auglýsingageirans, varðandi það hvort fyrirtæki í þessum geirum væru almennt að upplifa ábyrgð á þeim ímyndum kynjanna sem þau senda út í samfélagið. Steríótýpískar ímyndir og kynferðisleg framsetning á konum hefur bæði áhrif á það hvernig fólk upplifir sjálft sig og hvernig bæði kynin upplifa hitt kynið „eiga“ að vera. Framsetning á fólki í steríótýpískum hlutverkum kynjanna getur einnig þrengt sjóndeildarhring fólks almennt. Elín Helga telur að ef kynjahlutföllin myndu jafnast betur út í auglýsingafyrirtækjum að þá myndi þessi framsetning smám saman lagast en Stefanía taldi það alveg ljóst að tölvuleikjafyrirtæki telja sig ekki bera neina ábyrgð hér.
Það var nauðsynlegt að ræða fæðingarorlofið sem flestir eru sammála um að sé stórt atriði í jafnréttisumræðunni. Konur tala almennt um fæðingarorlof sem mikilvægan tíma fyrir sig og barnið og meta það mun frekar sem réttindi en kvöð, ólíkt því hversu metnaðarfullar þær eru í starfi. Getur verið að karlmenn horfi ekki á orlofið sömu augum? Ljóst er að lægri greiðslur úr fæðingarorlofssjóði hafa haft mikil áhrif á það að færri karlmenn taka orlof og þeir sem taka það fara í styttri tíma en áður, en er þetta ekki stundum líka spurning um forgangsröðun foreldra? Árni er sjálfur fjögurra barna faðir og segir þetta réttindi sem eigi að nýta. Hann hafi hins vegar ekki nýtt það nógu vel á sínum tíma og segist myndi skipuleggja sig betur ef hann fengi að gera þetta aftur og nýta orlofið betur. Agnar minntist á að áður fyrr á fjármálamarkaði var staðan sú að það var nánast keppni milli karlmanna hver tæki stysta orlofið en sem betur fer væri staðan ekki svoleiðis í dag. Fram kom ábending úr sal um að fyrst menn geta farið í 4-6 vikna sumarfrí að þá hljóti þeir að geta tekið a.m.k. 1-3 mánaða fæðingarorlof og vinnustaðurinn samt þraukað á meðan. Viðmælendur voru sammála um að stemning á vinnustað skipti miklu máli í þessu samhengi og hvernig yfirmenn tækju á móti karlmönnum sem segjast ætla í fæðingarorlof. Yfirmenn þurfa að átta sig á því að þeir eru fyrirmyndir fyrir sína undirmenn og ættu því sjálfir enn frekar að nýta sinn orlofsrétt. Stefanía sagðist hafa tekið sjálf fjögurra mánaða orlof og það hefði bara ekki verið neitt mál þótt hún hafi ekki verið lengur en svo, enda væru til mjaltavélar og ísskápar! Elín Helga bætti við að foreldrar þyrftu líka að átta sig á því að þeir væru fyrirmyndir fyrir sín börn og börnin þyrftu að sjá jafnrétti á heimilunum. Hún vitnaði í ummæli Birnu Einarsdóttur þar sem hún sagði að konur þyrftu líka að vera tilbúnar til að gefa upp framkvæmdastjórastólinn á heimilunum og hvað með það þótt börnin væru af og til örlítið púkó!
Undir lokin var komið inn á menntakerfið og hvort nýta ætti það til að beina börnum í ákveðnar áttir. Viðmælendur voru sammála um að á Íslandi væri mikil áhersla á bóknám frekar en iðnnám. Skapandi greinar hætta snemma á námsferlinum og það þarf að víkka sjóndeildarhring nemenda meira en gert er í dag. Allt of lítil endurnýjun er á aðalnámsskrá og þar af leiðandi ekki verið að kynna börnum fyrir mikilvægum greinum næstum því nógu snemma s.s. forritun og öðrum tæknigreinum. Í dag er þróun á gervigreind í fullum gangi og ef aðeins karlar taka þátt að móta hana mun karlmannshugurinn koma til með að vera alfarið að baki henni. Mun það líklegast hafa mun meiri áhrif fyrir konur en fólk áttar sig á í dag. Að sama skapi mega Íslendingar ekki dragast aftur úr á alheimsvísu en það mun gerast ef við förum ekki að kenna tæknifög fyrr á skólagöngunni en við gerum í dag líkt og aðrar þjóðir gera.
Upptöku af fundinum er að finna hér.