Konur eiga ekki að bera ábyrgð á að drífa karlmennina með

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

Seinni panelumræða dagsins hafði yfirskriftina „Jafnrétti á tímum loftslagsbreytinga”. Jóna Pétursdóttir, forseti stúdentaráðs, stýrði panelnum en í honum sátu Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdarstjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra, Snjólaug Ólafsdóttir, stofnandi Andrýmis sjálfbærniseturs og Sævar Helgi dagskrárgerðarmaður hjá Rúv.

Mjúku málin

Panelgestir ræddu hvers vegna loftslagsmálin hafa gjarnarn verið álitin kvennamál. Þau voru sammála um að konur sýni almennt meiri áhuga á loftslagsmálum. Snjólaug sagðist þurfa að taka fram skyldumæting sé á sjálfbærninámskeið sín, annars myndu bara konur mæta. Konur eigi ekki að þurfa að bera ábyrgð á að drífa karlmennina með og „troða upplýsingum ofan í kokið á þeim”. Birna sagði að „í gegnum tíðina hafi konur verið settar í að sinna umhverfismálum fyrirtækja, oft til að tikka í eitthvað box og starfið væri það fyrsta sem færi í niðurskurði.” Hún tæki hins vegar eftir að nú þegar samfélagsábyrgð er orðið stærra viðfangsefni hefðu fleiri karlmenn áhyggjur af umhverfismálum. 

Þegar spurður út í óvenju hátt hlutfall kven- umhverfisráðherra miðað við önnur ráðuneyti sagðist Guðmundur telja að umhverfisráðuneytið hafi lengi mætt afgangi. Því hafi verið úthlutað þeim sem var aftast í goggunarröðinni sem yfirleitt var kona. Hann tók fram að í sjálfu sér sé jákvætt að konur gegni embættinu þar sem “ungar konur eru þær sem leiða mótmælin.”

Svipan og gulrótin

Þegar talið barst að loftslagsaðgerðum benti Sævar Helgi á að „einstaklingsaðgerðir dugi skammt ef ekki eru gerðar kerfisbreytingar í leiðinni”. Spurður út í þátt stjórnvalda taldi Guðmundir Ingi að bæði þyrfti að vera með svipuna og gulrótina að lofti og vísaði þar í þörf á að bönnum samhliða hvötum. Hann tók dæmi um fyrirhugað bann á innflutningi bensín- og díselknúinna bíla 2030 samtímis afslætti á VSK rafbifreiða. Hann sagði að stjórnvöld myndu einnig hafa áhrif með því að styðja hringrásarhagkerfið. Birna var sammála að fyrirtæki þyrftu skýran ramma en hélt að hvatar virkuðu betur en bönn. Snjólaug taldi skort á umbunum fyrir árangur í umhverfismálum eiga þátt í að konur fari frekar í umhverfismál en karlar, því þeir sæki frekar í bónusana. „Fyrirtæki vilji oft bara að drífa þetta áfram á ástríðunni í stað þess að ákveða bara að taka þetta alla leið. En passion nær bara ákveðið langt, það verður þreyta og kulnun.” Vinnustaðir þurfi að gefa fólki tækifæri á sinna loftslagsmálum í vinnunni því það er fáránlegt álag að ætla að sinna fjölskyldu, heimili og heilsu meðfram fullri vinnu og svo ofan á það bjarga heiminum.

Ábyrgð hvítu miðaldra karlanna

Sævar Helgi benti á að ríkir hvítir miðaldra karlar tali stundum um að vandamálið sé bara fólksfjölgun, „já, ef að allir myndu lifa eins og þeir er það heldur betur vandamál því kolefnissporið er risavaxið ef þú ert að fara í nokkrar golfferðir á ári, átt risastóran jeppa og stórt hús.” Jóna spurði hvort að nefna fólksfjölgun í tengslum við loftslagsvandann væri ekki enn ein leið til að varpa ábyrgð á konur, sérstaklega þær fátækustu sem hafa ekki aðgang að fóstureyðingum, getnaðarvörnum og menntun? Snjólaug tók undir það og hvatti þá miðaldra hvítu karlmenn sem segi að vandamálið sé fólksfjölgun til að gera þá eitthvað í því eins og að styrkja menntun kvenna. 

Umhverfismálin sæta ekki lengur afgangi

Í lok panels var tekið við spurningum úr sal. Sævar Helgi var spurður út í hvernig best væri að tala við afneitunarsinna. Hann mælti með að byrja á því að spyrja “Hvað veistu um loftslagsmál?” því oft kæmi vanþekking eða misskilningur í ljós. Að lokum barst talið að málefni sem er flestum Íslendinum ofarlega í huga, Covid-19 veirunni. Panelgestir veltu fyrir sér hvort vægi umhverfismála minnkaði þegar stórar áskoranir eins og Covid veiran kæmi upp. Birna og Guðmundur voru sammála um að þó tilhneiging væri til að láta umhverfismál sæta afgangi þegar erfiðleikar dyndu yfir hefði umræðan þroskast mikið og umhverfismálin væru komin í meiri forgang. Sævar vakti athygli á mögulegum jákvæðum áhrifum vegna færri ferða og minni losunar og að fólk noti fjarfundarbúnað oftar. Snjólaug taldi að ástandið gæti hjálpað okkur að skilja hvað krísur geta haft gífurlega slæm áhrif. Hún átti lokaorðin: „Nú er vitað að loftslagsmálin munu leiða af sér ýmsar krísur og það er skýrt að við þurfum að vera undirbúin undir það og bregðast við strax!”.