Nú á dögunum stóðu Ungar athafnakonur fyrir örfyrirlestrakvöldi um konur í iðngreinum. UAK fékk til liðs við sig fjórar kraftmiklar konur en hver og ein þeirra hélt stutt erindi um hvernig er að vera kona í iðngreinum á Íslandi eða starfa í karllægu umhverfi.
Svanborg Hilmarsdóttir, rafvirki og tæknistjóri götuljósa hjá ON, byrjaði kvöldið með erindi um konur í rafvirkjun. Hún talaði um að frá upphafi hafa bara 40 konur útskrifast úr rafvirkjun en í dag eru um 40 konur í námi sem þýðir að á næstu fjórum árum getur fjöldinn tvöfaldast. Á síðasta ári gerðist það stórmerkilega atvik að í fyrsta sinn í sögu Íslands útskrifaði kvennrafvirki konu rafvirka.
Næst í pontu steig Ásrún Mjöll Stefánsdóttir húsasmiður, hún fjallaði um hvernig það getur verið krefjandi að vera eina konan í verkefnum tengd húsasmíði, hvernig sjálf vinnumenningin breytist, aðstaðan verður betri og orðræðan verður öðruvísi. Ástæðan fyrir því hún fór í húsasmíði var draumur um sjálfbærni og gleðina sem er fólgin í skapandi hugsun. Hún talaði um að það væri gott að geta gert hlutina sjálf og að það hafi aukist með vaxandi þekkingu. Það getur verið maus að vera smiður og lítill tími og aðstæðurnar ekki góðar en að það væri mikil hamingja fólgin í vel unnu verki. Hún tók þátt í herferðinni #Kvennastarf og vonar að herferðin hafi verið valdeflandi og heldur áfram að hvetja fólk til þess að læra það sem þeim langar að læra.
,,Það væri vænlegast til vinnings fyrir alla ef fólk fær að fara sína eigin leið óháð því hvaða hugmyndir fólk hefur um getu þess, skyldu og hæfni. Væri ekki fallegt ef fólk fengi að fást við það sem það hefur virkilega áhuga á?”
Harpa Pétursdóttir lögfræðingur Orkustofnunar og stofnandi Konur í orkumálum fór yfir sögu félagsins og mikilvægi starfseminnar. Markmið Kvenna í orkumálum er að efla konur, styrkja tengsl þeirra og hvetja konur til náms tengdu orkugeiranum. Hún talaði um að konurnar í þessum geira væru ekki nógu sýnilegar, eru ekki í efstu stöðunum og tala sjaldnar því er mikilvægt að þær láta í sig heyra og taka pláss.
Fjórði og síðasti fyrirlesari kvöldsins var Ragna Árnadóttir en hún er fyrsta konan í 426 ár til þess að gegna stöðu skrifstofustjóra Alþingis. Ragna er einnig fyrirverandi aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Ragna fjallaði um reynslu sína af því að vera eina konan í framkvæmdastjórn Landsvirkjunar á sínum tíma og þá pressu sem hún upplifði.
,,Það verður að vera jafnrétti. Jafnrétti er ekki eitthvað sem þarf að vinna sér inn. Það á ekki að þurfa að vinna sér inn mannréttindi.”
Stjórn UAK þakkar gestum kærlega fyrir komuna og skemmtileg erindi.