Konur í karlastörfum

In Pistlar by Dagný Engilbertsdóttir

Fyrr á tímum var hlutverk kvenna fyrst og fremst að hugsa um heimilin og börnin meðan karlmennirnir voru fyrirvinnur heimilisins. Í kjölfar aukinnar jafnréttisvitundar og jafnréttisbaráttu síðastliðinna áratuga hefur jákvæð þróun átt sér stað á heimsvísu og konum varð t.d. mögulegt að stíga inn á vinnumarkaðinn.

Störf hafa löngum verið flokkuð í svokölluð karla – og kvennastörf eftir því hvort kynið er meira ríkjandi innan starfsgreinanna. Konur hafa reynst velja mannúðlegri störf líkt og umönnunar- og kennslustörf meðan karlmenn sóttu frekar í verk- og iðngreinar svo dæmi séu tekin. Þó hafa verið dæmi þess að einstaklingar velji sér starf innan greina sem teljast óhefðbundnar fyrir kyn þeirra. Reynst getur erfitt að stíga inn á vinnumarkað þar sem viðkomandi er í minnihlutahópi. Óhefðbundið starfsval kynjanna hefur að einhverju leyti verið rannsakað hérlendis en þó ekki mikið. Þegar undirrituð stóð frammi fyrir því að velja viðfangsefni meistararitgerðar innan mannauðsstjórnunarnámsins þótti mér áhugavert að skoða konur hér á landi sem starfa í svokölluðum karlastörfum. Hlutskipti kynjanna, almennt og á vinnumarkaði, hafa ætíð verið mér hugleikin og hafði ég áður gert svipaða rannsókn (með minna sniði þó) í aðferðafræðiáfanga, nema þá þar sem hinn póllinn var skoðaður, þ.e. karlar innan leikskólakennarastéttarinnar. Var það kveikjan að rannsókn þessari sem unnin var fyrri hluta árs 2014.

Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða upplifun kvenna innan hefðbundinna karlastarfa, skoða reynslu þeirra í svokölluðum „karlaheimi“ og hvað varð þess valdandi að þær völdu að stíga inn á þessa braut sem er eins óhefðbundin og raun ber vitni fyrir konur. Framkvæmd var rannsókn með eigindlegri aðferðafræði og tekin voru viðtöl við sex konur sem starfa innan hinna ýmsu greina sem teljast til karlastarfa. Niðurstöðurnar sýndu fram á að upplifun kvenna í karlastörfum á Íslandi væri nokkuð jákvæð, þó þær yrðu fyrir fordómum og áreitni sem drægi úr jákvæða hluta upplifunarinnar. Það kom undirritaðri frekar furðulega fyrir sjónir að allir viðmælendur sögðust hamingjusamir í starfi en samt höfðu flestar þeirra neikvæðar reynslusögur úr starfsumhverfi sínu. Einna helst fundu þær fyrir fordómum frá samfélaginu gagnvart konum í þeirra störfum. Einnig hafði meirihluti viðmælenda orðið fyrir fordómum inni á vinnustaðnum þó það hefði frekar átt sér stað í upphafi starfsferils en væri ekki lengur upplifun þeirra eftir því sem leið á starfsaldur innan vinnustaðarins. Einnig vakti það athygli að það hafði reynst viðmælendum erfitt að taka þá ákvörðun að fylgja hjartanu og taka skrefið inn á óhefðbundinn starfsvettvang og upplifðu þær mikinn kvíða og streitu því fylgjandi. Vildu sumar túlka það sem eigin fordóma sem væru sprottnir frá þessum fyrrnefndu samfélagsfordómum. Þær þurftu að trúa á sjálfar sig og þora að stíga inn á braut sem hræddi þær, líka vegna þess hve óhefðbundin sú braut væri fyrir kyn þeirra. Slík hræðsla við að stíga inn á braut vegna þess að karlar eru þar ríkjandi og trúin á að konur eigi ekki erindi þangað inn, getur fælt konur frá því að starfa við það sem þær raunverulega langar. Að auki höfðu viðmælendur, allir utan eins, reynslu af áreitni á vinnustað. Viðbrögð þeirra við þeirri áreitni höfðu þó öll verið á svipaðan máta, að aðhafast ekkert. Viðhorf þeirra til áreitis á vinnustað virtist vera nokkuð vonlaust; það væri bara fylgifiskur þess að starfa á vettvangi þar sem karlar væru í meirihluta og að maður ætti að láta slíkt yfir sig ganga. Slík hugsun vakti áhyggjur undirritaðrar, þ.e. að konur ættu ekki að fá að vinna við það sem þær kjósa sér án þess að þurfa að verða fyrir áreitni.

Þrátt fyrir að finna fyrir fordómum í starfi og hafa orðið fyrir áreitni töldu viðmælendur allir sig hamingjusamar og ánægðar í starfi. Allar kváðust þær sjá sig fyrir sér starfandi í starfsgreinum sínum til framtíðar. Töldu þær konur eiga rétt á að vinna við það sem þær vilja, óháð kyni sínu og að störfin væru allt störf sem konur geta auðveldlega unnið. Það væri ekki alltaf svona mikill munur á kynjunum eins og oft er einblínt á. Þær voru sammála um, að mikilvægt væri að kynna starfsgreinarnar betur fyrir stúlkum og almennt fyrir fólki. Konur í karlagreinum þyrftu að stíga fram og verða sýnilegri og gera þannig kvenkyns fyrirmyndir sýnilegar ungu kynslóðinni til að sýna, að allir geta starfað við það sem þá langar til óháð kyni. Helstu áhrifaþættir á starfsval þeirra reyndust vera karlfyrirmyndir frá unga aldri (t.d. feður eða bræður), áhugi á greininni frá táningsárum og fjölbreytileiki starfsins.

Tekið skal tillit til þess að erfitt er að alhæfa út frá rannsókn þessari sökum smæðar hennar, en einungis var rætt við sex viðmælendur. Reynt var að ná til fleiri viðmælenda en ákveðin mettun reyndist vera á markaðnum og fengust ekki fleiri til þátttöku. Velti undirrituð fyrir sér hvort það mætti rekja til hræðslu kvenna innan karlastétta við að stíga fram og tjá sig um reynslu sína.
Mikilvægt er að þáttum eins og fordómum og áreitni sé útrýmt og breyta þarf hugarfari almennings og opna augu hans fyrir möguleikum kvenna innan karlastarfa. Konur sem starfa í karlastörfum þurfa að stíga fram og kynna störf sín og sýna fram á, að þau séu aðgengileg konum jafnt sem körlum. Skapa þarf sýnilegar kvenfyrirmyndir innan karlastarfa til að auka megi hlutfall kvenna í starfsgreinunum.

Rannsókn þessi var, líkt og fyrr segir, framkvæmd á fyrri hluta árs 2014 og er það von undirritaðrar að jákvæð þróun hafi orðið innan vinnumarkaðarins á þessum tæpu þremur árum sem liðin eru frá þeim tíma.

Höfundur: Aldís Guðmundsdóttir (Meistararitgerð: Konur í karlastörfum; Upplifun þeirra og starfshvatar)