Lærdómsrík framkomu- og ræðunámskeið

In Fréttir by Elísabet Erlendsdóttir

UAK stóð fyrir framkomu- og ræðunámskeiði dagana 2. og 3. nóvember sl. í húsakynnum Háskólans í Reykjavík. Samtals mættu um 40 félagskonur til að hlýða á Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur sem var fengin til að kenna námskeiðin en hún hefur mikla reynslu á þessu sviði. Á námskeiðinu lagði hún áherslu á flutning og uppbyggingu í praktískri- sem og tækifærisræðumennsku. Jafnframt fjallaði hún um samskipti og framkomu í fjölmiðlum.

Guðrún Sóley byrjaði á að fara yfir helstu atriðin sem hafa þarf í huga við ræðuhöld og þegar ræða er flutt fyrir framan stóran hóp af fólki. Að sögn Guðrúnar Sóleyjar er sjálfstraust mikilvægasta hráefnið þegar flytja á ræðu en ef sjálfstraustið er ekki til staðar má gera sér það upp og smá saman byggist það upp og verður ósvikið. Einnig er mikilvægt að brosa því mikil jákvæðni og vellíðan fylgir brosi ásamt því að það myndar tengingu við þá sem hlýða á ræðuna. Máli sínu til stuðnings sýndi Guðrún Sóley nokkur myndbönd af færum ræðumönnum, meðal annars af Michelle Obama sem þykir hafa einstaklega góða framkomu og sérstaklega þegar hún stígur í pontu.

Hvað varðar efni og uppbyggingu á ræðum þá þykja styttri og hnitmiðaðari ræður helst þær sem slá í gegn, en að vera fyndin við ræðuhöld getur verið vandasamt. Guðrún Sóley hefur velt því fyrir sér hvort konur hafi minna rými til að leyfa sér að vera fyndnar í pontu en karlar og mögulega kannast einhverjar félagskonur við það. Ef svo er teljum við tíma til að skora þeirri stöðu á hólm enda vitum við vel að konur eru í það minnsta jafn fyndnar – ef ekki fyndnari – en karlar! Óháð því er mikilvægt að laga sig að aðstæðum og láta málsniðið mótast í takt við það – það skiptir máli hvaða hóp sé verið að ávarpa.

Til þess að vera fær ræðumaður er mikilvægt að þekkja eigin styrkleika og nýta sér þá. Það er hægt að móta sinn eigin ræðustíl og auðvitað skapar æfingin meistarann. Enginn er svo flinkur ræðumaður að hann þurfi hvorki æfingu né gagnrýni svo í lok fyrirlesturs fengu mættar félagskonur tækifæri til að flytja stutta ræðu eða erindi og fá endurgjöf frá Guðrúnu Sóleyju (ef þær vildu). Ræðurnar voru jafn mismunandi og þær voru margar en þær fjölluðu ýmist um flytjandann sjálfan, vandræðalegar reynslusögur, mastersverkefni eða áhugaverð félagsstörf. Óhætt er að segja að námskeiðin tvö heppnuðust mjög vel, þau voru lærdómsrík og mjög áhugaverð. Guðrún Sóley fór á kostum og það hefði ekki verið hægt að óska sér betri og jákvæðari kennara fyrir námskeiðið. Hún hjálpaði okkur að læra að bera kennsl á eigin styrkleika frekar en veikleika enda er sjálfstraustið mikilvægasta vopnið í ræðumennsku líkt og áður sagði. Bestu þakkir til Guðrúnar Sóleyjar og til þeirra félagskvenna sem sáu sér fært að mæta, okkur fannst gaman að taka þátt í þessu með ykkur og kynnast ykkur betur. Við vonum að þið hafið notið góðs af!

Athugið að ef áhugi er fyrir hendi væri möguleiki á að halda annað ræðunámskeið eftir áramót, ekki vera feimnar við að senda okkur línu á uak@uak.is en það er líka hægt að hafa samband við okkur á Facebook.