Leitaðu betur!

In Pistlar by Kristjana Björk Barðdal

Finnur eitt tekur við af Finni tvö og karlkyns tvíburi eitt tekur við af karlkyns tvíbura tvö sem forstjórar stórra fyrirtækja og stofnanna. Ísland var í fyrra valið í ellefta skiptið í efsta sæti kynjajafnréttis af Alþjóðlegaefnahagsráðinu. Þrátt fyrir það eru engar konur forstjórar í fyrirtækjum sem skráð eru á markað, og einungis 23% konur framkvæmdastjórar samkvæmt mæliborði jafnréttisvogar FKA.

„Það sækja bara svo fáar konur um“ er klassísk klisja sem atvinnurekendur halda fast í sem afsökun fyrir því hversu fáar konur vinna hjá þeim. Ein lélegasta afsökun sem ég hef heyrt. Þessi setning tók við af „konur hafa bara ekki menntunina í starfið“ en sú afsökun er löngu orðin úrelt þar sem konur hafa verið í meirihluta útskrifaðra úr háskólanámi síðan um aldamótin. En eru það konurnar sem þurfa bara að vera duglegri við að sækja um, eða eru það í raun fyrirtæki og stjórnendur sem þurfa að líta inn á við og fara í naflaskoðun?

Er vinnustaðurinn móttækilegur fyrir konum? Af hverju ættu konur að vilja sækja um hjá fyrirtækinu? Hvernig er starfslýsingin, er hún kynhlutlaus eða talar meira til eins kyns frekar en hinna? En starfstitillinn? Íslenskan getur verið snúin því hún er svo kynjuð, þess vegna þarf enn frekar að passa hvernig við notum hana og ekki gleyma okkur í „menn þurfa bara að passa“, „þeir hjá Vegagerðinni“ og „allir sem vinna hjá okkur“. Eru fyrirmyndir innan fyrirtækisins áberandi út á við og hvers kyns eru þær? Hvernig birtist fyrirtækið, í viðtölum, auglýsingum, greinum og öðru?

Stjórnendur í fyrirtækjum þurfa að hugsa um þessi atriði út frá öllum hliðum.

Nauðsynlegt er að stjórnendur stígi út fyrir búbbluna sem þeir eru í og líti á fyrirtækið út frá sjónarhorni umsækjenda, kynni sér jafnréttismál fyrirtækisins og líti í eigin barm. Það er gott að stjórnendur láti til sín taka í umræðunni um jafnréttismál en þau verða þá að fylgja sínum eigin orðum. Það er ekki nóg að fjalla um málefnið og monta sig af jafnlaunavottunum, ef þeirra eigin fyrirtæki stenst ekki þau kynjahlutföll sem endurspegla samfélagið. Þá er betra að endurskoða nálgun fyrirtækisins á jafnrétti, fá utanaðkomandi aðila til þess að greina vinnustaðinn og finna lausnir. Ef stjórnendur hafa hvorki áhuga né metnað til þess að taka á þessum málefnum, þá eru þau ekki hæfir stjórnendur.

Ungt fólk í atvinnuleit skoðar í auknum mæli jafnréttismál og sjálfbærni fyrirtækja þegar þau sækja um störf og það hefur oft úrslitaáhrif á val þeirra á framtíðarvinnustað. Þessi ,,mjúku” mál skipta máli og eru í raun grjóthörð.

Það að engar konur séu að sækja um ákveðin störf er ekki lengur afsökun. Ef það eru engar konur sem sækja um er kominn tími til að sækja þær, þær eru þarna úti. Það getur ekki verið að engin kona á landinu uppfylli ekki þær kröfur sem starfið gerir, þú sem atvinnurekandi þarft bara að leita betur.

Höfundur er formaður Ungra athafnakvenna (UAK) og markaðsfulltrúi hjá 66° Norður.