Líkaminn, musteri sálarinnar – Kvenheilsa

In Fréttir by Aðalheiður Júlírós

Þann 15. febrúar stóð UAK fyrir viðburðinum Líkaminn, musteri sálarinnar – Kvenheilsa í sal Icepharma. Markmið viðburðarins var að stuðla að vitundarvakningu um kvenheilsu og hvernig konur og samfélagið í heild getur stuðlað að góðri kvenheilsu. Einnig var sérstaklega tekin fyrir umræða um ófrjósemi en einn af hverjum sex einstaklingum glíma við ófrjósemisvanda. Þessi tala gefur tilkynna að um er að ræða gríðarlega stórt vandamál og mikilvægt er að halda umræðunni á lofti til þess að styðja við málefnið með því að fræða um ófrjósemi og benda á hvaða aðstoð er í boði.

Viðburðurinn var sjálfstætt framhald af Stýra hormónar starfsferlinum sem haldinn var 1. febrúar 2023 þar sem markmiðið var að opna á umræðuna um kvenheilsu og gera grein fyrir því hvernig málefnið snertir allt samfélagið með einum eða öðrum hætti.

Bryndís Rún Baldursdóttir, stjórnarkona UAK opnaði viðurðinn með kynningu á starfsemi Icepharma en hún starfar þar sem markaðsstjóri. Starfsemi Icepharma byggir á þjónustu, markaðssetningu og sölu á heilsueflandi vörum svo sem Muna, Natracare og Nike ásamt fjölda annarra vörumerkja.

Bryndís Rún Baldursdóttir, markaðsstjóri UAK
Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir, samskiptastjóri UAK var með fundarstjórn

Ásdís Ragna Einarsdóttir, grasalæknir og lýðheilsufræðingur var með heildræna nálgun á kvenheilsu og hormónajafnvægi og hvernig hreyfing og matarræði spilar stórt hlutverk í því samhengi. Það eru ýmsir þættir sem geta stuðlað að hormónaójafnvægi, svo sem óheilbrigður lífstíll, estrógenísk efni í umhverfinu, langvarandi streita og svefnleysi, ákveðin lyf og ýmsir sjúkdómar en Ásdís Ragna lagði áherslu á hversu stórt hlutverk streita getur spilað með hormónaójafnvægi.

Ásdís Ragna Einarsdóttir, grasalæknir og lýðheilsufræðingur

Ef stuðla á að góðu hormónajafnvægi er mikilvægt að huga að próteinþörf, auka inntöku á plöntumiðaðri fæðu, huga að góðum fitugjöfum og næra þarmaflóruna með trefjum. Rannsóknir gefa til kynna að Maca gæti hjálpað við að styðja við hormónastarfsemi hjá bæði konum og körlum. Einnig er mikilvægt að sniðganga gjörunnin matvæli, takmarka koffíninntöku og áfengi og halda blóðsykrinum í jafnvægi.

Ásdís Ragna lagði áherslu á að konur hreyfi sig í takt við tíðahringinn, sýni sér sjálfsmildi og mæti sér þar sem þær eru staddar hverju sinni. Tíðahringurinn skiptist í fjögur ólík tímabil og getur það skipt sköpum að þekkja sinn tíðahring.

Mikilvægt er að allt samfélagið taki þátt í umræðunni um heilsu og þar með talið atvinnulífið. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kara Connect mætti og sagði frá sinni vegferð, hvað varð til þess að hún stofnaði fyrirtækið og hvað það gerir í dag. Kara Connect er velferðartorg sem býður starfsfólki beinan aðgang að þjálfun, ráðgjöf, meðferð og annarri þjónustu í samræmi við þeirra kröfur og þarfir. Það eru ýmsar áskoranir sem konur mæta á atvinnumarkaðinum tengt heilsunni, svo sem blæðingar og tíðahvörf. Þorbjörg lagði áherslu á mikilvægi þess að tala um þessi málefni.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Karaconnect

Um 30% af tíma yfirmanna fer í að aðstoða starfsfólk við að takast á við streitu, kvíða o.s.frv. og að finna viðeigandi úrræði fyrir viðkomandi. Það getur því auðveldað og sparað tíma yfirmanna að vera með alla sérfræðiþjónustu á einum stað og þannig stuðlað að góðri heilsu starfsfólks. Þar með má segja að fjárfesting atvinnurekenda í fyrirbyggjandi aðstoð hafi jákvæð áhrif á arðsemi fyrirtækja.

Þar á eftir var komið að pallborði um ófrjósemi sem Sóley Björg Jóhannsdóttir, stjórnarkona UAK stýrði. Aldís Eva Friðriksdóttir, sálfræðingur og einn af eigendum sálfræðistofunnar Höfðabakka ásamt Maríu Rut Baldursdóttur, prestur og formaður Tilveru og Sigríði Steinunni Auðunsdóttur, deildarstjóra á leikskóla og gjaldkera Tilveru tóku þátt í pallborðinu. Aldís Eva hefur sérhæft sig í ófrjósemi og andlegri líðan og veitir stuðning þeim sem þurfa að takast á við það verkefni. Tilvera eru samtök um ófrjósemi sem stofnuð voru árið 1989 en helsta markmið félagsins er að vera málsvari þess fólks sem á við ófrjósemi að stríða út á við, gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og annars staðar þar sem þurfa þykir.

Sóley Björg Jóhannsdóttir, fjármála- og vefsíðustjóri UAK stýrir pallborðsumræðum

Á Íslandi má finna ágætt heilbrigðiskerfi miðað við mörg önnur lönd en þetta málefni virðist falla á milli hluta og lítill stuðningur er fyrir þá sem eiga við ófrjósemi að stríða. Tilvera berst fyrir niðurgreiðslu fyrir einstaklingana en miðað við nágrannaþjóðir er fjárhagsstyrkur lágur hér á landi.

Aðstandendur geta upplifað óöryggi í kringum umræðuna en það getur verið einstaklingsbundið hversu hver og einn er opinn um umræðuefnið. Aldís Eva benti á að gott getur verið að spyrja t.d. “Má ég spyrja” eða “Má ég ræða þetta við þig”.

Að dagskrá lokinni gafst tækifæri til tengslamyndunar með veitingum frá Icepharma. Stjórn UAK þakkar þeim Ásdísi Rögnu, Þorbjörgu Helgu, Aldísi Evu, Maríu Rut og Sigríði Steinunni kærlega fyrir þeirra framlag í umræðuna. Einnig vill félagið þakka Icepharma fyrir stuðninginn og styrkinn til að halda viðburðinn.