Lög Ungra athafnakvenna

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi 28.09.15. Breytt á aðalfundi 27.05.20.

 • 1. gr.

  Félagið það, er lög þessi varða, heitir Ungar athafnakonur. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

 • 2. gr.

  Tilgangur félagsins er að efla ungar konur, auka vitund um hlutverk kvenna og karla í atvinnulífinu ogstuðla að bættu samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðast sömu tækifæri.

 • 3. gr.

  Tilgangi sínum hyggst félagið ná með að skapa vettvang fyrir ungar konur sem virkir þær til að kynnast, fræðast og efla hvor aðra. Viðburðir á vegum félagsins endurspegla tilgang og markmið félagsins.

 • 4. gr.

  Aðild að félaginu geta átt allar þær konur sem hafa áhuga á atvinnulífinu, metnað fyrir starfsframa sínum og vilja skara framúr.

 • 5. gr.

  Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. júní ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Heimilt er að boða til aðalfundar með tölvupósti. Í fundarboði skal óska eftir framboðum til stjórnar. Í fundarboði skal þess jafnframt getið ef lagðar verða fram lagabreytingar.

  Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi félagsins. Allar félagskonur geta lagt fram tillögur til lagabreytinga og skal þeim skilað eigi síðar en fyrir miðnætti tveimur dögum fyrir aðalfund.

  Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagskvenna ræður úrslitum mála. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þær félagskonur sem hafa verið skráðar í félagið og greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund.

  Á aðalfundi skal m.a. taka fyrir eftirfarandi mál:
  1. Skýrsla stjórnar lögð fram
  2. Umræða um reikninga
  3. Lagabreytingar
  4. Önnur mál

 • 6. gr.

  Stjórn félagsins skal vera skipuð 7 konum kjörnum til tveggja ára í senn. 4 konur skulu kjörnar annað hvert ár og 3 árið á móti. Stjórn félagsins skal tilnefna eina stjórnarkonu til að annast undirbúning og framkvæmd stjórnarkosningar.

  Framboð til stjórnar skulu hafa borist eigi síðar en fyrir miðnætti þremur dögum fyrir aðalfund.

  Kosningar til stjórnar er heimilt að viðhafa með skriflegum eða rafrænum hætti. Sé kosning með skriflegum hætti skal hún framkvæmd á aðalfundi. Sé kosning með rafrænum hætti skal henni lokið kl. 23 daginn áður en aðalfundur hefst.

  Kjörgengar til stjórnar UAK eru allar þær félagskonur, 18 ára og eldri, sem skráðar hafa verið í félagið og greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund.

  Ef laus sæti í stjórn eru jafn mörg eða fleiri en frambjóðendur þarf hver frambjóðandi að hljóta meirihluta greiddra atkvæða til að nái kjöri.

 • 7. gr.

  Á aðalfundi skulu félagskonur kjósa um formann félagsins. Í framboðum til stjórnar skal því sérstaklega kveða á um ef frambjóðandi býður sig einnig fram í formann félagsins. Ef núverandi stjórnarkona hefur áhuga á að bjóða sig fram til formanns skal hún einnig skila inn framboði þess efnis fyrir aðalfund, innan sama tímafrests og aðrir frambjóðendur. Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda. Hún skal koma saman til fundar eftir því sem þörf krefur og formaður ákveður.

  Gangi stjórnarkona úr stjórn áður en kjörtímabili hennar lýkur skal boða til kosninga og kjósa nýja stjórnarkonu í hennar stað. Meðferð kjörfundar skal hljóta sömu meðferð og aðalfundur hvað varðar birtingarfrest og auglýsingu. Ef styttra en tveir mánuðir eru eftir af kjörtímabilinu er stjórn heimilt, án kosninga, að starfa áfram fram að aðalfundi.

  Stjórnarkona getur að hámarki setið samfellt í stjórn félagsins í tvö kjörtímabil í senn.

 • 8. gr.

  Stjórn félagsins setur reglur um árgjald félaga og leggur þær fyrir aðalfund til samþykktar. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.

 • 9. gr.

  Stjórn félagsins hefur heimild til að skipa tímabundnar nefndir. Samþykki meirihluta stjórnar þarf til að stofna slíka nefnd.

  Skal starfstími nefndar ákveðinn á stjórnarfundi. Verði ákveðið að starfstími hennar verði lengri en eitt starfsár skal stjórn félagsins leggja fram tillögur til breytinga á samþykktum félagsins sem innihalda nánari lýsingu á verkefnum og ábyrgð nefndar.

  Skal verkefni nefndar vera ákveðið á stjórnarfundi. Stjórn félagsins getur ákveðið hvort að stjórnin öll eða einstaka stjórnarkonur fari með ábyrgð á störfum hennar. Skal það ákveðið með tilliti til verkefna nefndar. Stjórn eða einstaka stjórnarkonur bera ábyrgð á því að auglýsa eftir aðilum til setu í slíkri nefnd.

 • 10. gr.

  Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í starfsemi næsta árs.

 • 11. gr.

  Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða.