Meðvirkni á vinnustaðnum

In Almennt, Fréttir, Uncategorized by valarun1

Þriðjudaginn 6. október sl. hélt UAK viðburðinn ,,Meðvirkni á vinnustaðnum”.
Þær Sigríður Indriðadóttir, mannauðsstjóri Póstsins, og Sandra Dögg Einarsdóttir, sérfræðingur í mannauði hjá Póstinum, héldu frábær erindi en þær hafa báðar víðtæka reynslu af mannauðsmálum og stjórnun. 

Sigríður byrjaði á að fjalla um hvernig meðvirkni getur birst á vinnustöðum. Meðvirkni getur verið grafin djúpt í fyrirtækjamenninguna sjálfa en hún stuðlar að vanlíðan á vinnustað og hamlar þannig árangur á allan mögulegan hátt. Oft er hún falin og starfsfólk á erfitt með að koma auga á vandann. Meðvirkur starfsmaður reynir að stjórna hegðun annara, fer yfir eigin mörk og annara ásamt því að taka ekki ábyrgð. Mikilvægt er að stjórnendur fyrirtækja séu meðvitaðir um þennan vanda og þekki merkin til þess að koma í veg fyrir að meðvirknin viðhaldist. Sigríður ræddi einnig mikilvægi þess að bera ábyrgð á sjálfum sér með því að sýna samstarfsfólki sínu traust og finna sína styrkleika. Stundum geta styrkleikar manns orðið af veikleika, ef við ýkjum þá. t.d. getur styrkleikurinn vandvirkni orðið að skuggahliðinni fullkomnunaráráttu. 

Sandra Dögg deildi á einlægan hátt sinni sögu um glímuna við meðvirkni. Hún ítrekaði mikilvægi þess að koma auga á sína styrkleika og skuggahliðar. Einnig greindi hún frá topphegðun og botnhegðun sem gott væri að skilgreina til þess að hafa einhverja stefnu þegar gengið er inn í krefjandi aðstæður. Topphegðun er þá sú hegðun sem sýnir styrkleikana þína en botnhegðun þar sem skuggahliðarnar eru við völd, ómeðvitað. Sandra kynnti fleiri tól til þess að nýta í tengslum við meðvirkni og nefndi þar heiðarleika og hreinskilni í samskiptum, setja skýr mörk gagnvart sjálfum sér og öðrum. Þá lagði hún áherslu á mikilvægi þess að  segja ,,já” á réttum forsendum en algengt er að fólk taki á sig verkefni en sér svo eftir því. 

Þær lögðu ríka áherslu á að meðvirkni er ekki eitthvað sem lagast á einum degi heldur er þetta langtímaverkefni sem oft er mismunandi eftir aðstæðum. 

Viðburðurinn var haldinn rafrænt vegna ástandsins en það gekk fram úr vonum þar sem hindranir breyttust í tækifæri. 

Stjórn UAK þakkar Sigríði og Söndru fyrir frábær erindi og að sjálfsögðu öllum þeim félagskonum sem fylgdust með. Næsti viðburður er Ofurkonan þú í samstarfi við Hugrúnu, nánari upplýsingar hér: https://www.facebook.com/events/372821027412050