Kim Wall. Birna Brjánsdóttir. Jyoti Singh.
Svíi, Íslendingur og Indverji sem eiga í raun ekkert sameiginlegt nema það að vera manneskjur sem lifðu á þessari jörðu. Og jú, örlög þeirra voru ráðin á þann hátt sem fellur undir skilgreininguna um kynbundið ofbeldi.
„Ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi,“ segir í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum.
Ofbeldi gegn konum er með útbreiddustu og alvarlegustu mannréttindabrotum í heiminum og hefur verið það í aldanna rás. Kynbundið ofbeldi viðgengst í öllum menningarsamfélögum. Það er ekki einskorðað við ákveðna þjóðfélagshópa eða stéttir og þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi á lífsleiðinni kyns síns vegna. Það hefur hindrað framsókn kvenna og er einn af þeim grundvallarþáttum í samfélaginu sem leiðir til þess að konur eru settar skör lægra en karlmenn. Þá eru einkum konur í minnihlutahópum, flóttakonur, konur sem búa í einangruðum samfélögum, konur á stofnunum eða í fangelsum og konur í stríðshrjáðum löndum beittar ofbeldi.
Óásættanlegt ástand
Kynferðislegt ofbeldi getur tekið á sig margvíslegar myndir, bæði andlegar og líkamlegar, og er oft þaggað niður á grundvelli þess að það teljist „eðlilegt” eða ,,hefðbundið”. Yfir 600 milljónir kvenna og stúlkna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki refsivert og helsta dánarorsök kvenna á aldrinum 16-44 ára í Evrópu er heimilisofbeldi. Svo virðist sem heimilisofbeldi sé gjarnan best varðveitta leyndarmál fjölskyldunnar.
Ein af hverjum fimm konum verður þolandi nauðgunar eða nauðgunartilraunar á lífsleiðinni. Nauðgun er ofbeldisfyllsta form kynferðisglæpa og henni fylgir jafnframt hætta á ótímabærri þungun og/eða mögulegri smitun af kynsjúkdómum, þar á meðal HIV og eyðni. Þá hefur fjöldanauðgunum verið beitt kerfisbundið sem stríðsvopni í aldanna rás og konur þvingaðar líkamlega eða efnahagslega út í vændi á stríðstímum, stundum sem eina leið þeirra til að framfleyta fjölskyldu sinni.
Mansal er ein alvarlegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis en árlega eru þúsundir ungra kvenna og barna seld mansali og neydd í kynlífsþrælkun, vændi eða aðra nauðungarvinnu. Þessi þrælasala nútímans er mikið vandamál í Evrópu og að mati Europol er mansal þriðja ábatasamasta starfsemi alþjóðlegra glæpahringja á eftir fíkniefnasölu og vopnaviðskiptum. Skemmst er að minnast þess að tugþúsundir ungra kvenna voru seldar mansali til Þýskalands til kynlífsþrælkunar á meðan heimsmeistaramót karla í knattspyrnu stóð yfir sumarið 2006. Stjórn KSÍ barst ályktun Prestastefnu 2006 og 14 kvennasamtaka þar sem vændi í tengslum við HM var mótmælt. Svar KSÍ var á þá leið að stjórn KSÍ myndi koma ályktunum ofangreindra samtaka á framfæri við FIFA en bar fyrir sig að vera eitt af 207 aðildarlöndum FIFA og bæri sem slíkt að virða ákvarðanir þess. „Eðlilegt?”, ha?
Þá er hefð fyrir barnabrúðkaupum, heiðursmorðum og limlestingu á kynfærum kvenna í hinum ýmsu löndum. Stúlkubörn eru almennt frekar borin út heldur en drengir og samkvæmt Amnesty International „vantar“ að minnsta kosti 60 milljónir stúlkna í ýmsar íbúatölur vegna kynbundinnar fóstureyðinga eða vanrækslu því stúlkur teljast minna virði en drengir. Konur eru látnar ganga með börn gegn vilja sínumog einhvern veginn geta gerendur réttlætt fyrir sér sýruárásir og heiðursmorð. Trans fólk, sérstaklega trans konur sem eru ekki hvítar, verða fyrir gríðarlegum fordómum um allan heim vegna kynvitundar sinnar. Þar spila saman sexismi og rasismi sem stendur fyrir miklu ofbeldi, fjölda morða undanfarin ár og hárri sjálfsvígstíðni – svo fátt eitt sé talið.
Mér fallast hendur.
Hvernig við bregðumst þolendum
Það er ótti við mikla skömm, félagslega útskúfun, hefndaraðgerðir af einhverju tagi og aðgerðarleysi stjórnvalda sem hamla því að þolendur segi frá. Enn eru 79 ríki í heiminum sem hafa enga eða óþekkta löggjöf gegn heimilisofbeldi en til dæmis er nauðgun innan hjónabands einungis skilgreind sérstakur glæpur í 51 ríki.
Jafnvel þar sem lagasetning er nægilega góð bregðast mörg ríki þeirri skyldu sinni að framfylgja lögum með fullnægjandi hætti. Séu ársskýrslur Stígamóta frá árunum 1992-2014 skoðaðar kemur fram að eingöngu 4-17% mála ár hvert hafa verið kærð til lögreglu. Hryllingssögur af lélegri meðferð kynferðisbrota hjá lögreglu gætu mögulega skýrt þessa lágu tíðni að hluta en einnig gæti verið að þolendur treysti sér ekki í gegnum yfirheyrslur og hafi ekki trú á að það nái fram rétti sínum fyrir dómstólum.
Í alvörunni talað, hvernig má þetta vera? Hér á landi eru greinilega til lög og verkferlar til að sporna við öllu ofangreindu en ekkert land virðist vera laust við að rótgrónar hefðir, menning og uppeldi fái oft að eiga síðasta orðið.
Talað fyrir daufum eyrum
Enn ein birtingarmynd kynbundins ofbeldi er kynferðisleg áreitni en niðurstöður könnunar á vegum Gallup sýna að 45% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Hlutfallið er hæst í yngri aldurshópum en 55% kvenna á aldrinum 18-24 ára hafa upplifað slíka áreitni í starfi. Sért þú í óvissu um hvað kynferðisleg áreitni er mæli ég til dæmis með þessu myndbandi en annars má finna ýmislegt gagnlegt í gegnum leitarvél google.
Engin starfsstétt virðist vera óhult og hafa meðal annars konur í stjórnmálum og sviðslistum, bæði hérlendis og erlendis, rofið þögnina undanfarnar vikur um kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni sem þær hafa upplifað í starfi. Forystu- og leiðtogahlutverk í stjórnmálum eiga ekki að falla í skaut eins kyns frekar en annars en því miður eru völd og áhrif kvenna á vettvangi stjórnmála takmörkuð um allan heim. Kerfislæg mismunun í bland við óréttlát lög erfiða leið kvenna til áhrifa en of fáar konur eru leiðtogar og fylla forystusæti kjörinna fulltrúa í ríkis- og sveitastjórnum. Auk þess er kjörsókn kvenna lakari en karla víða um heim. Það er ekki skrítið að ferill kvenna í stjórnmálum sé styttri en karla ef starfsumhverfið er ekki hvetjandi vegna ömurlegs viðhorfs samstarfsfélaga í þeirra garð. Svo, hvernig eiga raddir þessarar einu af hverjum þremur konum sem verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni að heyrast?
Ofangreind tölfræði er svo sláandi að hún er hætt að vera áþreifanleg og við sem neitum að búa við þetta ástand leitum logandi ljósi að lausnum. Við umturnum seint íhaldssömum menningarheimum þar sem ofbeldismenningin þrífst í skugga valdsins og þolendur bera harm sinn í hljóði. Það sem við getum gert er að horfa inn á við og skoðað eigin hegðun og þeirra í kringum okkur.
Hvað er til ráða?
Ekki gera lítið úr stríðni við börn, segja þeim að það sé eðlileg hegðun og að stríðnispúkinn sé bara skotin/n í viðkomandi. Þolandi elst upp í þeirri trú að ónotafilfinningin sem fylgir sé eðlileg og stríðnispúkinn heldur að hann megi haga sér svona. Öllu gríni fylgir nokkur alvara.
Strákar verða alltaf strákar, rétt? Rangt. Við þurfum að breyta þeirri skilgreiningu á karlmennsku sem hefur leitt til ríkjandi ástands. Það gerist ekki nema með róttækri vitundarvakningu hjá sjálfum okkur og upplýstri umræðu innan heimila, vinahópa, vinnustaða og í samfélaginu öllu.
Því næst er hægt að styrkja samtök á borð við UN Women, Kvennaathvarfið, Stígamót og Chime For Change ásamt því að taka þátt í einhverjum af þeim fjölmörgu verkefnum sem til þess eru fallin að berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Milljarður rís, 16 dagar átak Mannréttindastofu Íslands, Fokk ofbeldi, HeForShe og átak Reykjavíkurborgar og lögreglunnar eru frábær verkefni sem auðvelt er að leggja sitt af mörkum til.
Eins og kom eftirminnilega fram í siguratriði Hagaskóla í Skrekk 2015 þá höfum við barist svo lengi fyrir ótal sjálfsögðum hlutum að baráttan í sjálfu sér er orðin sjálfsagður hlutur. Kynbundið ofbeldi er heilsufarslegt og félagslegt vandamál sem grefur undan friði og öryggi í heiminum. Jafnrétti kynjanna er stærsta orusta okkar tíma þó undirrituð sé orðin ansi hrædd um að við verðum búin að eyðileggja þessa plánetu áður en henni lýkur.
Svo hættum að taka baráttunni sem sjálfsögðum hlut. Ofbeldismenning á ekki að vera okkar menning, rísum upp og höfum hátt öll sem eitt. Látum í okkur heyra þar til við getum lifað í heimi þar sem stúlkubörn, ungar konur og konur fái frelsi til að ganga hér um óáreittar.
Heimildir
Amnesty International
Gallup
Knuz.is
Mannréttindaskrifstofa Íslands
Skrekkur 2015
Stígamót
Vísir
UN Women