Mind the gap // Brúum bilið

In Fréttir by Elísabet Erlendsdóttir

Ungar athafnakonur í samstarfi við W.O.M.E.N., Samtök kvenna af erlendum uppruna, héldu vinnustofu 25. apríl sl. að fyrirmynd Barbershop verkfærakistu UN Women. Við leituðum leiða fyrir konur af fjölbreyttum uppruna til að brúa bilið milli ólíkra menningarheima og byggja þannig upp sterkara samfélag. Við tókum höndum saman og sköpuðum valdeflandi umræðuvettvang þar sem raddir allra fengu að heyrast, óháð uppruna.

Laura Cervera, ein stjórnarkvenna W.O.M.E.N. kynnti fyrirkomulag vinnustofunnar og flutti Eliza Jean Reid hugvekju um hvernig er að vera innflytjandi á Íslandi – sem seinna varð forsetafrú. Að auki var Alice Bower, fyndnasti háskólaneminn 2018, með virkilega gott uppistand. 

Þátttakendum var skipt í hópa eftir uppruna, þ.e. konur af íslenskum uppruna og konur af erlendum uppruna. Ræddu þeir sín á milli eigin skoðanir, vangaveltur og persónulega reynslu út frá fyrirfram ákveðnum spurningum. Svo var hópunum blandað, konur af íslenskum uppruna og konur af erlendum uppruna, og aðrar fyrirfram ákveðnar spurningar lagðar fyrir hópana.

Í meginatriðum eru niðurstöður umræðanna þær að fólki er mismunað eftir uppruna, t.d. hvernig hörundslitur getur skipt máli, bæði í umræðu og framkomu Íslendinga við innflytjendur, eða hvernig vel menntaðar konur af erlendum uppruna fá ekki vinnu við hæfi. Þá upplifa konur af erlendum uppruna oft félagslega einangrun og það að þær tali litla eða enga íslensku sé oft hindrun. Þeim líður oft illa og eru reiðar og sárar yfir aðstæðunum.

Viðbrögð þeirra sem átta sig á þessum fordómum og mismunun eru á þann veg að þeim bregður og þær lýstu því hvernig þær eiga oft í erfiðleikum með að segja eitthvað. En besta leiðin til að sporna við ofangreindum vandamálum og brúa bilið sé að bæta eigið viðhorf og vera meðvituð um aðstæðurnar. Ef við verðum vitni að fordómum skulum við vera óhrædd við að benda á það sem er ekki í lagi og segja eitthvað, konur af íslenskum uppruna geta notað röddina sem þær hafa til að styðja við þær sem verða fyrir fordómum. Við erum hrædd og óörugg við eitthvað sem við þekkjum ekki svo það þarf að opna umræðuna, t.d. á vettvangi sem þessum.

Lykilatriði í þessari hópavinnu var að hafa jafnt hlutfall milli þátttakenda með tilliti til uppruna, sem var raunin en hátt í 60 konur sáu sér fært að mæta. Við þökkum stjórn W.O.M.E.N. kærlega fyrir gott samstarf og öllum þeim konum sem tóku þátt.