Næstu skref í rétta átt

In Fréttir by Árný Lára Sigurðardóttir

Þann 29. september síðastliðinn fór fram tengslakvöld meðal félagskvenna UAK undir yfirskriftinni ,,Næstu skref á ferlinum”. Um var að ræða tengslakvöld í formi svokallaðs Fishbowl fyrirbæris þar sem öllum gafst færi á að leggja orð í belg og taka virkan þátt í umræðum kvöldsins. Markmið þessa viðburðar var að koma félagskonum inn í umræðuna, kynnast, deila reynslu og ráðum varðandi frama og störf. Tengslakvöld UAK eiga sér stóran sess í starfi félagsins en án hvatningar og þátttöku okkar félagskvenna í umræðum væri litlum framförum náðum í átt að jafnrétti.

Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann, markaðsstjóri UAK stjórnaði umræðum kvöldsins en það voru þær Rebekka Gísladóttir, þróunarstjóri á mannauðssviði hjá Courtyard Hotel Keflavík, Karen Ósk Gylfadóttir, sviðsstjóri stafrænna lausna og markaðsmála hjá Lyfju og Anna Berglind Jónsdóttir, hugbúnaðarsérfræðingur hjá Lucinity, sem stóðu að örkynningum og innleggi í fjölbreytta og skemmtilegar umræður. Í umræðum var meðal annars rætt um ímynd, metnað, að vera skapandi og finna sína leið að þeim markmiðum og störfum sem við viljum gegna. Mikilvægt er að hugsa opið og vera tilbúinn til að grípa tækifærin sem gefast á leiðinni.

Tengslanet er auðlind samskipta og sú hvatningin sem felst í að heyra sögur félagskvenna er ómetanleg. Við þökkum frábæra þátttöku á viðburðinum en það eru forréttindi að fá að taka þátt í slíkum umræðum.