Námskeið í samningatækni

In Fréttir, Uncategorized by admin

Fimmtudaginn 28. nóvember stóð UAK fyrir námskeiði í samningatækni fyrir félagskonur. Kennari kvöldsins var Dr. Aldís Guðný Sigurðardóttir, lektor við tækniháskólann í Twente í Hollandi. Aldís hefur kennt samningatækni um árabil bæði hér á landi og erlendis. Hún býr einnig yfir talsverði reynslu af stjórnendaþjálfun og hefur starfað fyrir ýmis fyrirtæki og stéttarfélög, bæði sem ráðgjafi og sem formaður samninganefndar. Aldís rekur jafnframt félagið House of Consulting í Hollandi sem einblínir á stjórnendaþjálfun og þjálfun starfsmanna almennt í samskiptum og samningagerð.

Á námskeiðinu fór Aldís yfir helstu hugtök samningatækni og lagði áherslu á að samningatækni væri eins og hver önnur íþrótt. Æfingin skapi meistarann og því hvatti Aldís félagskonur til að innleiða samningatækni inn í daglegt líf, hvort sem það sé heima fyrir eða í verslunum. Aldís fjallaði m.a. annars um mikilvægi undirbúnings fyrir samningaviðræður, gagnvirka hlustun, launaviðræður og margt fleira.

Aldís fjallaði einnig um mun kynjanna í samningaviðræðum. Karlar virðast ná betri samningum en konur þegar þeir eru að semja um laun. Það var áhugavert að heyra að konur ná hins vegar oft jafngóðum eða betri samningum þegar þær semja fyrir aðra en þegar þær semja fyrir sjálfa sig.

Áhugi félagskvenna leyndi sér ekki og komu margar áhugaverðar pælingar fram. T.d. hvernig eigi að bera sig við samningaborðið þegar kemur að launum eftir kjarasamningum, fjölbreyttar aðferðir, að endursemja um laun og hvernig best væri að svara gagntilboðum. 

Stjórn UAK þakkar félagskonum kærlega fyrir þátttökuna á námskeiðinu og Aldísi fyrir skemmtilegan og hagnýttan fyrirlestur.