Hvort eru sebrahestar hvítir með svörtum röndum eða svartir með hvítum röndum?

In Fréttir by Helena Rós Sturludóttir

Fimmtudaginn þann 16. febrúar stóð UAK fyrir námskeiði í samningatækni fyrir félagskonur sínar. Mikill áhugi var fyrir námskeiðinu en hátt í 70 félagskonur mættu í Háskólann í Reykjavík til að hlusta á Aldísi Guðnýju Sigurðardóttur, doktorsnema og stundakennara í HR, fara yfir mikilvæg atriði í samningatækni. Aldís býr yfir áralangri reynslu sem samningakona, þjálfari og kennari í samningatækni. Hún hefur m.a. kennt samningatækni og tengd fög við fjölda háskóla víðs vegar um Evrópu, m.a. á Íslandi, í Póllandi, Austurríki, Þýskalandi og Hollandi. Þá hefur Aldís einnig starfað inni í fyrirtækjum sem ráðgjafi bæði á Íslandi í Póllandi og í Danmörku þar sem stjórnendur fengu langtímaþjálfun í samningatækni sem stuðlaði að aukinni framlegð fyrirtækjanna.

Á námskeiðinu fjallaði Aldís um nokkur grundvallaratriði í samningatækni. Samningatækni er afar mikilvæg því samningaviðræður eiga sér víða stað í okkar daglega lífi, ekki síst við okkar nánustu. Aldís fjallaði m.a. um mikilvægi undirbúnings við samningaviðræður, hvernig eigi að bera sig við samningaborðið, mikilvægi þess að spyrja spurning, launaviðræður og margt fleira.
Félagskonur fengu svo að spyrja Aldísi spjörunum úr varðandi samningatækni og fengu margar mjög góð ráð. Margar spurningar um launaviðræður brunnu á viðstöddum og ræddi Aldís um mikilvægi þess að taka ekki alltaf fyrsta tilboði heldur koma ávallt með gagntilboð. Einnig lagði hún mikla áherslu á að mæta vel undirbúinn í launaviðtal og benti m.a. á að hægt væri að nýta sér hinar ýmsu launakannanir stéttarfélaganna til þess. Það er þó ekki aðeins hægt að semja um laun við vinnuveitendur heldur einnig ýmis fríðindi.

Þá fjallaði Aldís einnig stuttlega um mun kynjanna við samningaborðið og virðast niðurstöðurnar vera svo að karlar ná betri samningum en konur þegar þeir eru að semja fyrir sjálfa sig en konur ná oft jafngóðum eða jafnvel betri samningum þegar þær semja fyrir aðra. Það er klárlega eitthvað sem þarf að breyta!

Stjórn UAK þakkar félagskonum kærlega fyrir frábæra þátttöku og Aldísi fyrir mjög góðan og fræðandi fyrirlestur.