Námskeið í Skapandi hugsun

In Fréttir by Björgheiður Margrét Helgadóttir

Mánudaginn 10. maí stóð UAK fyrir námskeiði í Skapandi hugsun. Markmið námskeiðsins var að að gefa félagskonum tól til þess að skapa þekkingu, færni og leikni til þess að stýra verkefnum innan fyrirtækja og stofnana með því að nýta aðferðafræði skapandi hugsunar við hugmyndavinnu og lausnir á vandamálum. Svava María Atladóttir leiddi námskeiðið en hún starfar sem verkefnastjóri hjá Landspítalanum. Hún hefur stýrt fjölda verkefna þar sem hönnunarhugsun hefur verið leiðandi aðferðafræði við að finna lausnir fyrir fyrirtæki og stofnanir. Svava María er meðhöfundur bókarinnar Discovery Design: Charting New Directions in Healthcare Improvement og fengu félagskonur eintak af bókinni. 

Við veltum fyrir okkur með hvaða leiðum væri hægt að fá innblástur og hvaða áhrif það hefur að vinna að hlutum sem skipta bæði mann sjálfan máli og hafa áhrif á samfélagið. Svava María deildi sinni reynslu og talaði meðal annars um hvernig hún fær innblástur með því að lesa um það sem er fyrir utan hennar áhugasvið. Þá tók hún dæmi um hvernig upplifun og hönnun á listasöfnum nýttist hennar vinnu í heilbrigðisgeiranum. Einnig mælti hún með að skoða hvernig vandamál eru leyst í ótengdum iðnaði og þannig fá hugmyndir til þess að leysa vandamál sem við stöndum fyrir.

Félagskonur fengu tækifæri til að vinna saman tvær og tvær örverkefni sem voru ætluð til að gefa innsýn í hvernig hægt er að beita skapandi hugsun til að hanna lausn og/eða vöru og sýna hversu mikilvægt það er að hönnunin komi út frá þörfum notenda. Í því fólst að taka bæði stutt viðtal og svo ítarlegra við hvor aðra og hanna síðan út frá því prótótýpu úr ýmisskonar efnivið sem var í boði.

UAK styrkti Ljósið fyrir vinnu Svövu Maríu og vonumst við til að geta styrkt önnur félagasamtök oftar með þessum hætti.