Þann 4. október síðast liðinn var bjöllum Nasdaq kauphallanna á Norðurlöndunum og í Eystrarsaltsríkjunum hringt víða um heim í tilefni af Alþjóðlegri fjárfestaviku, World Investor Week 3-7. október. Tilefnið er að vekja athygli á mikilvægi fjárfestaverndar og fræðslu fyrir fjárfesta.

Opnunarbjöllu Nasdaq kauphallarinnar á Íslandi var hringt af þessu tilefni, af fulltrúa Kauphallarinnar, fulltrúa Ungra athafnakvenna (UAK) og fulltrúa Ungra fjárfesta. Viðburðurinn var haldinn til þess að vekja athygli á nauðsyn aukins fjármálalæsis, fjárhagslegri valdeflingu, fjárfestavernd og fjölbreytileika á hlutabréfamarkaðnum.

Nasdaq Iceland, Ungar athafnakonur og Ungir fjárfestar hafa, eitt eða saman, staðið að vel sóttum viðburðum sem taka til þess að efla þekkingu á fjármálum og hlutabréfamörkuðum, með því að markmiði að veita almenningi tæki og tól til að taka upplýstar ákvarðanir um sparnað sinn og fjárfestingar.
Þann 1. nóvember næst komandi munu þessir aðilar standa saman að opnum viðburði sem ber heitið Ný kynslóð fjárfesta þar sem einblínt verður á ungt fólk og fjárfestingar, persónulegum sparnaði og fjárfestingum og nauðsyn þess að efla þátttöku kvenna þegar kemur að fjárfestingum. Viðburðurinn verður auglýstur síðar.
Alþjóðleg vika fjárfesta (WIW) sem Alþjóðasamtök kauphalla (World Federation of Exchanges) standa að ásamt Alþjóðasamtökum eftirlitsaðila með verðbréfaviðskiptum (International Organization of Seccurities Commission (IOSCO) er núna haldin í sjöunda sinn á heimsvísu, en kauphallir um allan heim taka þátt í honum með bjölluhringingu og fræðsluviðburðum af ýmsum toga.