Notaðu röddina til að koma þér á framfæri

In Fréttir by Árný Lára Sigurðardóttir

Þriðjudaginn 2. nóvember stóð UAK að vel heppnuðum örfyrirlestraviðburði undir yfirskriftinni ,,Notaðu röddina þína”. Markmið viðburðarins var að kynna fyrir félagskonum hinar ýmsu leiðir að því að nota eigin rödd, láta í sér heyra og koma sjálfri sér á framfæri. Að viðburðinum kom öflugur hópur kvenna sem á það sameiginlegt að vera áberandi á sínu sviði. Fyrirlesarar voru þær Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Eva Mattadóttir, hlaðvarpsstjórnandi Normsins og Dale Carnegie þjálfari og María Rut Kristinsdóttir, baráttukona og hlaðvarpsstjórnandi Raunveruleikans. Góður andi var á viðburðinum og létt yfir gestum.

Umræður voru líflegar og fyrirlestrar hver öðrum fróðlegri. Framsögukonur fóru um víðan völl í erindum sínum og meðal þess sem rætt var voru tækifæri á samfélagsmiðlum og aktívismi, skriffærni við pistlaskrif og sjálfstraust til þess að stíga inn í ólíkar aðstæður. Möguleikarnir til að nota röddina eru því óneitanlega margir og færnin til þess að láta í sér heyra ákaflega dýrmæt. Gulli betra var að fá tækifæri til umræðu í svo fjölbreyttum og kraftmiklum hópi kvenna og má með sanni segja að framtíðin sé björt.