Ungar athafnakonur fjölmenntu í fyrirtækjaheimsókn til Hagvangs miðvikudaginn 31. janúar síðastliðinn. Félagskonur fengu að fræðast um starfsemi Hagvangs, hvernig sé best að ná draumastarfinu ásamt ýmsu öðru.

Ljósmyndari: Bernhard Kristinn Photography
Það var hún Gyða Kristjánsdóttir, ráðgjafi hjá Hagvangi sem opnaði kvöldið og lét félagskonur stíga út fyrir þægindaramman með nokkrum æfingum þar sem rætt var við næsta mann. Gyða fór yfir það að gott væri að hugsa um hvert við stefnum og hvað við viljum gera í lífinu. Þegar við höfum komist að því hvert við stefnum þá er mikilvægt að koma því á framfæri sem mestu máli skiptir fyrir starfið sem sótt er um upp á að koma ferilskrá okkar efst í bunkann. Ef maður kemst í atvinnuviðtal þá er mikilvægt að selja sjálfa sig, gefa góð dæmi um hæfileika sem við höfum fyrir starfið.

Ljósmyndari: Bernhard Kristinn Photography – Gyða Kristjánsdóttir
Síðan var það hún Geirlaug Jóhannsdóttir sem tók við en hún kynnti Hagvang og starfsemi þeirra. Hún fór yfir hagnýtar upplýsingar sem koma fram á heimasíðu Hagvangs sem snúa að gerð ferilskrár og kynningarbréfs. Á heimasíðu þeirra má svo einnig finna auglýsingar um laus störf, persónuleikapróf og ráðningakerfið.
Það var svo engin önnur en Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs sem lokaði kvöldinu með nokkrum áhugaverðum punktum. Katrín hefur starfað við stjórnendaráðningar á Íslandi í yfir 30 ár og komið að helstu ráðningum æðstu stjórnend á Íslandi fyrir öll helstu fyrirtæki og stofnanir landsins. Hún var formaður FKA, félags kvenna í atvinnulífinu og hefur jafnframt sterk tengsl inn í viðskiptalífið á þeim vettvangi. Katrín byrjaði á að hrósa nafni félagsins og undirstrikaði hversu margt orðið athafnakona getur þýtt. ,,Ég veit ekki hversu margar konur ég hef ráðið og fylgst með þeim eflast með hverju árinu. Á þeim tíma frá því Hagvangur var stofnaður hafa orðið ótrúlegar breytingar. Það var einsleitur hópur kvenna á vinnumarkaði, sérstaklega í viðskiptalífinu. Þar voru konur yfirleitt aðstoðarkonur á skrifstofum. Þegar konur fóru að sækja sér háskólanám og urðu jafn gjaldgengar og karlar á vinnumarkaðnum fóru fyrirtækin að biðja um hæfasta einstaklinginn, kyn skiptir ekki máli, segir Katrín.” Hún segir of fáar konur stýra stórum fyrirtækjum en að þeim fari fjölgandi. Þá fullyrti hún að eftir tíu ár munum við sjá mun jafnari skiptingu. ,,Ég heyri ekki lengur: Finndu fyrir okkur karl í þetta. Nú skiptir aldur, kyn eða bakgrunnur ekki öllu máli heldur einstaklingurinn og hvað viðkomandi stendur fyrir, segir Katrín. ” Hún segir konur orðnar kjarkaðri en áður og það sem þær þurfa að passa er að þora að stíga inn í umræðu og hafa skoðanir á hlutum. ,,Brýnið kjarkinn, finnið styrkleikana ykkar og verið tilbúnar að taka ábyrgðina, sagði Katrín að lokum.”
UAK þakkar Hagvangi og þessum frábæru fyrirmyndum fyrir móttökuna.