Ný kynslóð fjárfesta

In Fréttir by Aðalheiður Júlírós

Þann 22. desember 2021 tilkynnti Nasdaq Iceland um nýtt verkefni sem snýr að því að efla fjármálalæsi og fjölbreytni á hlutabréfamarkaðnum í samstarfi við UAK (Ungar athafnakonur) og Ungra fjárfesta.

Síðan þá hafa þessir aðilar, eitt eða saman, staðið að vel sóttum viðburðum sem taka til þess að efla þekkingu á fjármálum og hlutabréfamörkuðum, með að markmiði að veita almenningi tæki og tól til að taka upplýstar ákvarðanir um sparnað sinn og fjárfestingar.

Þann 1. nóvember s.l. tóku félögin þrjú höndum saman og héldu viðburðinn Ný kynslóð fjárfesta sem haldinn var í Grósku hugmyndahúsi. Einblínt var á ungt fólk og fjárfestingar, persónulegan sparnað og nauðsyn þess að efla þátttöku kvenna þegar kemur að fjárfestingum.

“Ungt fólk hefur mikið látið til sín taka á hlutabréfamarkaði undanfarin ár” segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland sem opnaði viðburðinn. “Ný kynslóð fólks í atvinnulífinu og á fjármálamarkaði kallar eftir aukinni upplýsingu og aukinni þátttöku kvenna í efri lögum atvinnulífsins og við fjárfestingar. Þannig hefur fjöldi einstaklinga á hlutabréfamarkaði þre- til fjórfaldast frá árinu 2018, en aukningin hefur verið hvað mest hjá fólki undir þrítugu, þar sem fjöldinn hefur sex- til sjöfaldast. Það er lítill vafi á því að þessi aukna þátttaka einstaklinga hefur afar jákvæð áhrif á markaðinn og stuðlar að auknum tækifærum fyrir bæði þá og fyrirtæki.”

Helstu einstaklingar úr fjármálaheiminum voru með erindi en þau voru Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri bankasviðs Arion Banka, Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland, Rósa Kristinsdóttir ein af stofnendum Fortuna Invest og Kristbjörg M. Kristinsdóttir fjármálastjóri Stefnis hf. og stjórnarformaður IcelandSIF.

Einnig var pallborð með áhugaverðum umræðum með Kristínu Unni Mathiesen forstöðumanni alþjóðlegra markaða hjá Fossum, Má Wolfgang Mixa lektor í fjármálum við Háskóla Íslands og Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur framkvæmdastjóra og stofnanda Köru Connect.

myndir: @vittosol

Viðburðurinn var vel sóttur og greinilegt er að ungt fólk vill láta til sín taka og hafa áhrif í fjárfestingum.