Ný stjórn UAK kjörin

In Fréttir by Helena Rós Sturludóttir

Aðalfundur Ungra athafnakvenna fór fram í gærkvöldi, fimmtudaginn 1. júní í húsnæði MINØR Coworking á Fiskislóð. Rúmlega 50 félagskonur mættu á fundinn þar sem Margrét Berg formaður félagsins fór m.a. yfir starfsárið og skýrslu fráfarandi stjórnar. Margrét renndi stuttlega yfir þá viðburði sem haldnir hafa verið í vetur og eru þeir eftirfarandi:

Haustönn

      • Heimsókn frá frú Vigdísi Finnbogadóttur og Krístinu Friðgeirsdóttur
      • Tengslakvöld
      • Heimsókn til Icelandic Startups
      • Námskeið í framkomu og ræðumennsku
      • Heimsókn til Össurar
      • “Vísó” til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Vorönn

      • Imposter syndrome
      • Námskeið í samningatækni
      • Erum við Forystuþjóð? – Umræðu og tengslakvöld
      • Heimsókn til Þórdísar Kolbrúnar ráðherra
      • Karllægar atvinnugreinar – Panelumræður
      • Aðalfundur

Farið var yfir ýmsar staðreyndir og tölulegar upplýsingar um félagið. Til gamans má geta að mikil aukning varð á félagskonum á milli starfsáranna 2015-2016 og 2016-2017, en alls voru 255 félagskonur skráðar í félagið í ár og vonar fráfarandi stjórn að félagið haldi áfram að vaxa og dafna og geri gott betur á næsta starfsári.

Eftir yfirferð á málum félagsins tóku framboðsræður við. Níu gríðarlega flottar og frambærilegar konur buðu sig fram í næstu stjórn UAK í stað þeirra þriggja kvenna sem nú kveðja stjórnina eftir ýmist eins eða tveggja ára stjórnarsetu. Það eru þær Margrét Berg Sverrisdóttir formaður félagsins, Guðbjörg Lára Másdóttir gjaldkeri félagsins og Dagný Engilbertsdóttir sem láta af störfum.

Þrjár stjórnarkonur félagsins, Andrea Gunnarsdóttir, Elísabet Erlendsdóttir og Helena Rós Sturludóttir halda áfram í stjórninni ásamt þremur nýjum stjórnarkonum sem kjörnar voru í gærkvöldi. Nýju stjórnarmeðlimir félagsins eru þær Anna Berglind Jónsdóttir, Ásbjörg Einarsdóttir og Sigyn Jónsdóttir og bjóðum við þær hjartanlega velkomnar um leið og við kveðjum fráfarandi stjórn með söknuði og þökkum fyrir frábært samstarf.

Við fengum einnig góða gesti á fundinn en Helga Valfells, stofnandi sjóðsins Crowberry Capital og fyrrum framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins kom og hélt frábært erindi fyrir félagskonur og á eftir henni kom engin önnur en Bylgja Babýlons uppistandari til að hrista upp í hópnum!

Fundurinn var afar vel heppnaður og hlakkar ný stjórn til að hefja næsta starfsár í september. Við þökkum fráfarandi stjórn fyrir frábær störf og félagskonum fyrir frábæra þátttöku í vetur. Eins viljum við þakka öllum þeim sem komu að starfi UAK í vetur fyrir okkur. Þá viljum við þakka Vífilfelli sérstaklega fyrir en þeir voru styrkaraðili UAK og sáu til þess að enginn fór þyrstur heim.

Við vonum að þið njótið sumarsins vel og við hlökkum til að sjá ykkur á nýju starfsári strax í september!