Nýir og spennandi tímar fram undan hjá Ungum athafnakonum

In Fréttir by Árný Lára Sigurðardóttir

Fimmtudaginn 9. september stóðu Ungar athafnakonur að opnunarviðburði nýs starfsárs í Tjarnarsal í Ráðhúsi Reykjavíkur. Vel var mætt og mikill áhugi var meðal gesta fyrir spennandi verkefnum og viðburðum sem fram undan eru. Þá markaði viðburðurinn tímamót í sögu félagsins en hann er sá fyrsti undir nýju merki og var það formlega kynnt í gær. Hönnun og umsýslu á nýju merki var unnin af markaðsfyrirtækinu Aton.JL og eigum við þeim mikla hjálp að þakka. Grunnur hönnunar og hugmynd að nýju merki spratt úr frá starfi félagsins sem vinnur af ástríðu og krafti að auknu jafnrétti og jöfnum tækifærum á vinnumarkaði.

Drög að dagskrá vetrarins var kynnt en hún er full af fjölbreyttum og spennandi viðburðum. Dagskrána verður birt í heils sinni síðar. Stefanía Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Eyris Vaxtar flutti hugvekju og þá ræddi fjölmiðlakonan Eva Laufey við Höllu Hrund Logadóttur, orkumálastjóra. Með hugvekju sinni lagði Stefanía til breytinga á hugarfari og boðaði nýja tíma. Þá hvatti hún til vitundarvakningar á verkum og störfum kvenna. ,,Við verðum að hafa það hugfast að sjá konur sem eru að gera góða hluti”. Samtal Evu Laufeyjar og Höllu Hrundar var eigi ósvipað en þar bar helst á góma mikilvægi loftslagsmála og ,,lánað hugrekki” til framfara. Erindi gesta gáfu aukinn kraft og innblástur í umræður um jafnrétti og jöfn tækifæri til frambúðar. 

Sérstaka athygli vakti innkoma Majken Gilmartin, framkvæmdastjóra EIR Org og meðstofnandi GGWCUP, þar sem tilkynnt var um samstarf Ungra athafnakvenna við Global Goals World CUP (GGWCUP). Global Goals World Cup er fótboltamót sem hefur verið brautryðjandi í íþróttaheiminum frá árinu 2015 með það markmið  að veita öllum konum og stúlkum aðgang að íþróttum. Dagana 8. – 10. nóvember næstkomandi verða úrslit GGWCUP haldin á Íslandi þar sem lið keppa undir merkjum Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Með mótinu er ætlað að vekja athygli á þeim hindrunum sem eru til staðar, leita leiða að sjálfbærni ásamt því að efla aðgerðir tengt heimsmarkmiðunum. 

Ungar athafnakonur fagna samstarfinu og þátttöku okkar að auknu jafnrétti á öllum sviðum. Við erum einnig stoltar af því að Global Goals World Cup er haldið samhliða árlegu Heimsþingi kvenleiðtoga í Hörpu (Reykjavík Global Forum), þar sem kvenleiðtogar hvaðanæva að úr heiminum koma saman í þeim tilgangi að ræða jafnréttismál. GGWCUP er einnig eitt af rúmlega hundrað samstarfsaðilum Heimsmarkmiða vikunnar sem fer fram í kringum allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna (UNGA) en úrslit mótsins hafa farið fram samhliða þinginu frá árinu 2016. 

Ljóst er að af nógu er að taka á sviði jafnréttis og er því tilvalið að vitna í orð Stefaníu Halldórsdóttur frá opnunarviðburðinum þar sem hún sagði; ,,ég vil boða nýja tíma” og það viljum við svo sannarlega gera líka.