Opnunarviðburður 2018

In Fréttir by asbjorge

Miðvikudagskvöldið 5. september síðastliðinn var starfsári UAK 2018-2019 hrundið af stað. Opnunarviðburðurinn var haldinn á Nauthóli og var opinn öllum. Áhuginn á félaginu leyndi sér ekki en í kringum 170 manns mættu til að hlusta á erindi þriggja kvenna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var fyrsti gestur kvöldsins. Katrín fór yfir víðan völl og talaði út frá eigin reynslu um hvernig femínisminn hefur breyst á undanförnum áratugum. Hún byrjaði á því að segja að í raun hefði femínistinn í henni sjálfri stækkað og breikkað eftir því sem hún eltist. Í dag þegar mörgum stórum réttindabaráttumálum hefur verið komið í gegn hér á landi fer Katrín, eins og svo margir aðrir, að beina sjónum sínum að rótgrónum menningarvandamálum sem eru afleiðing margra alda af óréttlæti. „Og smám saman fer maður að kynnast því að svo margt í tungumálinu og samfélaginu er mótað og byggt upp af körlum. Það setur okkur konurnar á annan stað,” sagði hún meðal annars og fór þar inn á þá staðreynd að í dag þurfa konur oft að reyna að passa inn í karlaheiminn til að ná langt, í stað þess að gert sé pláss fyrir kvenheiminn í stjórnum fyrirtækja, stjórnmálum og á öðrum svipuðum vettavangi. „Það skiptir máli að hafa fleiri konur við borðið, sýna samstöðu og muna að maður þarf ekkert að ganga inn í eitthvað kerfi sem karlar bjuggu til.“

Katrín hrósaði því einnig hversu langt við erum í raun komin á Íslandi, þó að baráttunni sé hvergi nærri lokið. Nefndi hún þar meðal annars að nýlega spurði rússneskur blaðamaður hana hvernig það væri hægt að vera forsætisráðherra og eiga þrjú börn. „Tja, þú ættir að spyrja fjármálaráðherra, hann á fjögur!“ svaraði hin stórglæsilega Katrín.

Eftir að Katrín hafði lokið máli sínu steig Ingileif Friðriksdóttir, fjölmiðlakona, í pontu. Hún fyllti félagskonur og aðra gesti eldmóði með umfjöllun sinni um hið svokallaða imposter-syndrom. Ingileif hefur undanfarið unnið í sjálfri sér við að reyna að stökkva á tækifærin sem gefast en í stað þess að kýla á hlutina þegar hún er beðin um að taka að sér verkefni vegna hæfileika sinna hefur hún oft byrjað að efast um sjálfa sig. „Maður er svo ótrúlega duglegur að downgrade-a sjálfan sig og festist í þessu imposter-syndromi,“ sagði hún um tilfinninguna sem hún fékk þegar hún var beðin um að stýra kosningaþættinum „Hvað í fjandanum á ég að kjósa?” á RÚV. „En það er ótrúlega mikilvægt að setja sig þarna út þegar maður fær svona góð tækifæri,“ bætti hún við en ég efast ekki um að mjög margar okkar megi tileinka sér þá lífsreglu að stökkva á tækifærin og trúa því frá upphafi að við höfum getuna og hæfileikana sem aðrir eru vissir um að við höfum.

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks á RÚV, lokaði þessu frábæra kvöldi. Hún gerði jafnrétti á vinnumarkaðnum og óraunhæfar kröfur kvenna til sjálfra sín að umfjöllunarefni sínu. Hún sagði að það hafi tekið langan tíma að koma sér að ofarlega í fjölmiðlabransanum en það að vera ung, ljóshærð fréttakona hafi verið langt frá því að koma henni efst í pýramídann. „Það eru aðeins örfáar konur sem halda út innan fjölmiðla. Við sjáum einstaka konur en engan veginn nógu margar. Þær geta ekki varið það heima fyrir að vera með skítakaup og vinna á vöktum en karlarnir geta það einhverra hluta vegna,“ sagði Þóra og bætti því við að við yrðum að hafa það í huga að yfirmenn nýttu sér oft samviskubit og samviskusemi kvenna.

Glansmynd samfélagsmiðlanna hefur komið óþægilega við Þóru en hún telur að hún leiði til þess að konur finni til minnimáttarkenndar en einnig að þær hætti að láta mikilvæg málefni sig varða. „Það er ekki allt satt sem þú sérð á þessum myndum. Börnin eru ekki alltaf strokin og hrein, glansandi skápar og allir á jógamottunni.“ Hún bætti því við að ungar konur sem ætla að hafa áhrif á umræðuna verða að láta í sér heyra, taka þátt, fylgjast með og vita hvað er í gangi. „Ef þið gerið það ekki eru aðrir sem taka stjórnina og þið vaknið upp einn daginn gríðarlega zen eftir alla jógaiðkunina, algerlega ósáttar við það hvernig landið ykkar er.“

Stjórn UAK þakkar þeim Katrínu, Ingileif og Þóru kærlega fyrir frábær og hvetjandi erindi.

Dagskrá haustannar var einnig afhjúpuð á opnunarviðburðinum en hana má sjá hér að neðan. Stjórnin hlakkar mikið til komandi viðburða og vonar að félagskonur finni ýmislegt sér við hæfi.

  • 05/09: Opnunarviðburður
  • 21/09: Tengslakvöld
  • 03/10: En hvar eru börnin þín? Örfyrirlestrakvöld um starfsframa og fjölskyldulíf
  • 18/10: Heimsókn í Borgarleikhúsið
  • 30/10: Eru konur auðveldara skotmark? Panelumræður um konur í fjölmiðlum
  • 15/11: Frumkvöðlakonur
  • 27/11: Framkomu- og ræðunámskeið
  • 05/12: Heimsókn í Advania