Fimmtudagskvöldið 16. janúar s.l. hófu Ungar athafnakonur nýtt ár af krafti. Viðburðurinn var haldinn á KEX hostel og tileinkaður umræðu um hvað hefur áhrif á ákvarðanir kynjanna þegar kemur að námi og starfi. Í panel sátu Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Landspítala, Eyrún Jónsdóttir, markaðsstjóri CCP, Steinunn Gestsdóttir, prófessor í sálfræði og aðstoðarrektor kennslumála og þróunar við Háskóla Íslands og Þórdís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar. Panelstýra var Björgheiður Margrét Helgadóttir, fjármálastýra UAK.
„Fyrsta vitund okkar eftir að við fæðumst er vitund um kyn“ sagði Þórdís eftirminnilega í upphafi kvöldsins og bætti við að til þess að vinna gegn þeim hefðbundnu kynjahlutverkum sem við erum sett í þá vinni Hjallastefnan að því að aðskilja kynin til að aðstoða þau við að rækta ákveðna eiginleika. Hún nefndi sem dæmi að stelpur eigi oft erfiðara með kjark á meðan strákar þurfi frekar að æfa vináttu. Þórdís segir mikilvægt að vinna með þetta en líka að styrkja kynin og þá eiginleika sem þau hafa. Steinunn nefndi að konur eru fjölmennari í háskólum en karlar. Í Háskóla Íslands eru nemendur til að mynda 66% konur og 34% karlar, sem er sláandi. Stærsta ástæðan fyrir þessum mun er mótun ungs fólks eftir framhaldsskóla, en sem dæmi eru konur um 80-95% nemenda sem sækja í hefðbundin kvennastörf og menntunina sem þeim fylgja. Ungir karlmenn sækja ekki jafn mikið í hefðbundin kvennastörf á meðan ungar konur sækja meira í karllæga geira, t.d. tæknigreinar. Steinunn segir ástæðuna vera fyrirmyndir og að það sé ekki hægt að ofmeta vægi fyrirmynda. „Vandinn myndast ekki þegar við komumst á háskólastigið heldur byrjar hann mörgum árum áður, en hann breytist ekki án þess að við breytum viðhorfunum til þessara stétta“ segir Steinunn og bætir við að það sé ekki jafn mikill kynjamunur hjá nemendum í grunnnámi, en þar eru um 60% konur á móti 40% körlum, á meðan að á meistarastigi séu konur um 77% nemenda. Ásta tekur í svipaðan streng og segir heilbrigðiskerfið vera mjög kynjaskiptan markað og að í hjúkrun á Íslandi sé kynjabilið breiðara en þekkist í öðrum löndum. Hún segir almennu læknastörfin þó nokkuð jöfn, sem er jákvætt.
Umræðan snerti einnig á mikilvægi fyrirmynda en Eyrún tók sem dæmi að CCP væri skipulega að leita lausna. Hún nefndi sem dæmi starfsnám CCP og að konur væru óhræddari við að sækja um starfsnám heldur en starf og að það væri góð leið fyrir konur til að kynnast fyrirtækinu. Eyrún ræddi mikilvægi þess að hafa fyrirmyndir inni á vinnustaðnum og nefndi einnig kostina fyrir fyrirtækið að hafa jafnari kynjahlutföll, en sem dæmi þá nær þróun tölvuleikja til breiðari hóps ef kynjahlutföllin eru jafnari. Steinunn, Þórdís og Ásta tóku í sama streng en það er ekki nóg að hafa fyrirmyndir í háskólanámi þar sem nemendur eru nú þegar byrjaðir að taka ákvarðanir til framtíðar í framhaldsskóla. Ungir einstaklingar þurfa fyrirmyndir snemma á lífsleiðinni.
Enn og aftur fór umræðan inná það þekkta misrétti hvernig konur eru ítrekað dæmdar harðar en karlmenn. Steinunn benti sem dæmi á hvernig kvenkyns kennarar á háskólastigi eru dæmdar mikið harðar en karlkyns kennarar, bæði af kvenkyns- og karlkyns nemendum. Á sama tíma þekkjum við það flestar hvernig konur í fundarherberginu geta verið álitnar æstar eða frekar þegar þær taka til máls á meðan karlkyns samstarfsmaður er talinn sýna hugrekki og leiðtogahæfileika við samskonar aðstæður. Þetta er slæm birtingarmynd kynjamisréttis og við verðum að tryggja að konur fái jafn mikið pláss og karlar.
En hvernig styðja þessar flottu konur við aðrar konur? Ásta, Eyrún, Steinunn og Þórdís voru allar sammála um mikilvægi þess að konur styðji við aðrar konur, að stjórnendur þurfi að axla ábyrgð og vera vakandi yfir misrétti á vinnustað á grundvelli kyns, að við megum ekki gefast upp þó á móti blási heldur verðum að halda ótrauðar áfram – en síðast en ekki síst að samfélagið þurfi að taka ábyrgð. Það er ekki ásættanlegt að hefðbundin kvennastörf séu almennt verr borguð en hefðbundin karlmannsstörf. Grunnstoðir samfélagsins geta ekki verið flokkuð sem mjúk mál og greidd illa ef við viljum búa í samfélagi sem greiðir sanngjörn laun fyrir unna vinna.
Karlmenn eru yfirleitt framsæknari eru konur. Þeir eru líklegri til að biðja oftar um launahækkun og stöðuhækkun, eru almennt með meiri kröfur og vilja vita skýrt hver þeirra stefna er innan vinnustaðar. Enn á ný erum við minntar á að við megum gera kröfur og fara þangað sem við viljum fara. Á sama tíma og karlmenn eru almennt framsæknari en konur þá verða þeir líka að taka ábyrgð og gefa konum pláss.
Það skiptir máli að hafa fjölbreytni í atvinnulífinu. Samkeppni milli kynjanna hefur í gegnum tíðina ekki verið mikil, en of oft höfum við séð eina konu á toppnum og einhvern vegin virðist ekki pláss fyrir fleiri. Sagan sýnir okkur ekki margar konur á toppnum en samkeppni kvenna á ekki að vera um eina stöðu. Við þurfum fjölbreytni allsstaðar, líka á toppnum. Fjölbreytni snýst þó ekki einungis um kyn heldur líka aldur, reynslu, bakgrunn og margt annað. Sem einstaklingar þurfum við öll að fá að taka þátt í atvinnulífinu á okkar forsendum og blómstra í starfi, en þá fyrst getum við almennilega gefið af okkur. Stjórn UAK þakkar gestum fyrir góðan opnunarviðburð og hlakkar til vorsins.