Opnunarviðburður 2022

In Fréttir by Árný Lára Sigurðardóttir

Opnunarviðburður nýs ár varð með kunnuglegu sniði á Covid tímum en ákveðið var að halda úti beinu streymi þann 25. janúar undir yfirskriftinni „Fjárhagsleg valdefling: Konur fjárfesta“.
Markmið viðburðarins var að ýta undir fjárhagslega valdeflingu kvenna sem er ómissandi liður í að uppræta kynjamisrétti. Mikilvægt er að ungar konur hafi þekkingu, tæki og tól til að taka upplýstar ákvarðanir um eigin fjármagn. Til okkar komu framúrskarandi gestir til að fræða félagskonur og veita þeim aukin innblástur og hvatningu til þess að taka réttar ákvarðanir um eigin hag.

Kvöldið hóf Hrönn Margrét Magnúsardóttir, framkvæmdastýra og meðstofnanda Feel Iceland með hugvekju og frásöng frá ævintýralegri vegferð Collab. Í framhaldinu tóku við pallboðsumræður þar sem Marta Birna Baldursdóttir, verkefnisstýra kynjaðrar fjárlagagerðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Svana Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri og meðeigandi Frumtak Ventures og Kristín Hildur Ragnarsdóttir, sérfræðingur í viðskiptalausnum hjá Deloitte og meðlimur Fortuna Invest fóru yfir hin helstu mál. Þessari miklu og þörfu umræðu og fræðslu stýrði Rut Kristjánsdóttir.

Meðal helstu áherslumála var mikilvægi fjárhagslegar valdeflingar en þær Marta, Svana og Kristín ræddu vel stöðu kvenna og mikilvægi þessa þáttar í baráttunni að jafnrétti. Rætt var ítarlega um innleiðingu og ferli kynjaðrar fjárlagagerðar hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem einblínir á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á öllum stigum slíkrar vinnu. Þá þróuðust umræður einnig út í vinnu Fortuna Invest, sem hefur notið sívaxandi vinsælda á síðustu árum ásamt því að ræða almennar fjárfestingar og fræðslu tengda slíku.

Ljóst er að mikið vægi liggur í því að líta á fjárhagslegt öryggi með kynjagleraugunum og þar er í mörg horn að líta. Fjárhagsleg valdefling kvenna er gríðarlega mikilvægt og umfangsmikið verkefni sem nauðsynlegt er að sinna vel.