Opnunarviðburður haust 2022

In Fréttir, Opnunarviðburður by Aðalheiður Júlírós

UAK hóf sitt áttunda starfsár með opnunarviðburði fimmtudaginn 8. september 2022 í veislusal Ráðhúss Reykjavíkur. Viðburðurinn var opinn öllum og mættu um rúmlega 130 manns.

Lísa Rán, formaður UAK opnaði viðburðinn með kynningu á nýrri stjórn félagsins og drögum að dagskrá vetrarins sem er þéttskipuð fjölbreyttum og spennandi viðburðum. Dagskráin verður birt í heild sinni síðar. Að því loknu bauð Lísa Rán velkomna fyrsta gest kvöldsins en það var Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna (RB) sem var með hugvekju.

Myndir: Gunnhildur Lind

Ragnhildur var fyrsta konan til þess að vera forstjóri fyrirtækis í kauphöllinni og starfaði um tíma hjá flugleiðum. Ragnhildur lagði áherslu á mikilvægi þess að sýna dirfsku og áræðni en að maður eigi ekki að þykjast að kunna eitthvað.

Þar á eftir fengu gestir tíu mínútna trúnó með Sigríði Theódóru, framkvæmdastjóra Brandenburgar. Sigríður Theódóra fór yfir vegferð sína frá því að hún var í námi og þar til dagsins í dag, hvaða áskoranir hún hefur mætt og hvernig hún mætti þeim. Hún lagði áherslu á að hlusta á aðra, læra af þeim sem reyndari eru, setja sér markmið og hið fornkveðna að þegar ein dyr lokast opnast aðrar.

Að lokum var komið að Önnu Steinsen, eiganda og þjálfara hjá Kvan. Hún sagði skemmtilega frá þeim tækifærum sem hún hefur fengið og benti á mikilvægi þess að vera opinn fyrir því að segja já þegar tækifærin gefast. Í lokin lagði hún áherslu á mikilvægi þess að vera með sjálfstraust og sýna heiðarleika. Ekki síst að vera góð við hvert annað en gott orðspor getur komið manni langt.

Erindin þrjú voru ólík og þær með ólíkan bakgrunn en gestir voru sammála um að erindi þeirra Ragnhildar, Sigríðar Theódóru og Önnu voru áhugaverð og fylltu alla af innblæstri. Eftir erindin var tækifæri til þess að spjalla saman og var góður andi í hópnum.

Stjórn UAK þakkar þeim Ragnhildi, Sigríði Theódóru og Önnu kærlega fyrir þeirra framlag og öllum gestum sem mættu. Stjórnin er full tilhlökkunar fyrir komandi starfsári og tækifærum til þess að hitta félagskonur. Enn er opið fyrir nýskráningar, hægt er að gerast félagskona hér.