Opnunarviðburður haust 2023 – Hugrekki til að hafa áhrif

In Fréttir, Opnunarviðburður by Aðalheiður Júlírós

UAK stóð fyrir opnum viðburði þann 7. september s.l. í Grósku hugmyndahúsi. Viðburðurinn markaði upphaf nýs starfsárs 2023-2024. Tæplega 250 konur mættu og var því húsfylli á viðburðinum.

Heiti viðburðarins var vísun í nýútgefna bók Höllu Tómasdóttur, Hugrekki til að hafa áhrif en hún var heiðursgestur kvöldins. Ásamt henni var Eva Mattadóttir með hugvekju.

María Kristín Guðjónsdóttir opnaði kvöldið með kynningu á nýrri stjórn UAK, viðburðum haustins hjá félaginu ásamt því að varpa fram spurningunni Hvað er athafnakona. Svo virðist sem orðið athafnamaður sé vel skilgreint í íslensku en hið sama á ekki við um orðið athafnakona.

Þar á eftir var Eva Mattadóttir með hugvekju þar sem hún velti upp m.a. spurningunum Afhverju er ég ekki að leyfa mér að stækka og nota röddina, Hvenær lærðum við að fela okkur og Hvað þýðir að vera séð. Í þessu samhengi er mikilvægt að velta fyrir sér hver það er sem segir við okkur að við megum ekki stækka og hvenær við lærum að fela okkur. Er einhver einn einstaklingur sem hefur haft þau áhrif á okkur eða samfélagið í heild.

Lokaorð Evu voru: Elsku hjartans athafnakonur ruggið eins mörgum bátum og þið getið, fylgið hjartanum – Það vill að þið upplifið!

Að lokum var komið að sófaspjalli með Hugrúnu Elvarsdóttur, varaformanni og fræðslu- og verkefnastjóra UAK og Höllu Tómasdóttur forstjóra B-team.

Hugrún opnaði á spjallið með spurningunni Hvað var það sem gerði það að verkum að þú vildir leiða breytingar. Halla rifjaði upp fyrsta kvennafrídaginn árið 1975 þegar hún spyr móðursystur sína afhverju þær væru allar í verkfalli. Það var svarið sem snerti við Höllu: Af því að við viljum skipta máli Hún fann innra með sér að hún vildi líka skipta máli.

Þennan dag lærði hún að fara í hjartað, þar býr hugrekkið – Sjálfstraustið býr í hugsunum okkar.

Halla benti á mikilvægi þess að hlusta á ráð frá eins mörgum og við getum en á sama tíma fylgja sínum áttavita. Við getum svindlað á innsæinu okkar en það getur aldrei svindlað á okkur.

Þegar samtalið barst að tengslanetinu benti Halla á mikilvægi þess að vera með einhvern í kringum sig sem þorir að segja satt, á þann einstakling getum við treyst til þess að vera með okkur í liði. Í því samhengi benti hún einnig á einlægni og hugrekki til að berskjalda sig.

Gestum gafst tækifæri til að senda inn spurningar til Höllu í gegnum forritið Slido og voru margar og góðar spurningar sem bárust. Áhugaverð umræða spratt upp og hefðu þær getað staðið langt fram eftir kvöldi.

Að lokum gafst tækifæri fyrir gesti til tengslamyndunar sem var kærkomið eftir gott sumarfrí.

Stjórn UAK þakkar Höllu og Evu kærlega fyrir þeirra þátttöku í kvöldinu og öllum þeim sem mættu. Við erum fullar tilhlökkunar fyrir komandi starfsári og fleiri tækifærum til þess að kynnast félagskonum betur.

Sjáumst á næsta viðburði!