Opnunarviðburður UAK 2019

In Fréttir by valarun1

Fyrsti viðburður starfsárs UAK 2019-2020 var Opnunarviðburðurinn sem var haldinn á Nauthól, miðvikudaginn 4.september. Viðburðurinn var opinn öllum og um 100 manns mættu. Auður Albertsdóttir, kynningarfulltrúi UAK, var fundarstjóri.

Snæfríður Jónsdóttir, formaður UAK, opnaði viðburðinn og talaði um að jafnrétti kæmi öllum við – ábyrgðin væri ekki einungis ungra kvenna.
„Jafn réttur kynjanna býður nefnilega upp á tækifæri fyrir samfélagið og hefur bein jákvæð áhrif á efnahagslífið. Hjálpumst að, tökum ábyrgð og höldum áfram að berjast fyrir jafnrétti. Baráttunni er nefnilega hvergi nærri lokið“.

Í kjölfarið var dagskrá vetrarins var kynnt, ásamt nýrri stjórn UAK.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, steig fyrst gesta í pontu. Hún fjallaði einkum um hverju hún persónulega stæði fyrir og mikilvægi þess að vera maður sjálfur. Jafnframt tók hún undir fræg orð Mary Robinsson: „Be active and agressive“. Katrín lýsti því hvernig viðbrögð karlmanna þegar Katrín talar um jafnréttismál hefðu í gegnum tíðina verið lítil og að í kjölfarið hefði hún byrjað að nota orðið fjölbreytileiki, og lagði þá áherslu á fjölbreytileiki innan fyrirtækja væri þeim á endanum alltaf til góða.  Katrín fór yfir sínar lífsreglur sem voru m.a. að vera óþekk, hlægja og þá hlægja hátt og sagði Önnu Wintour vera fyrirmynd sína – hún mætir bara í 10 mínútur í hvert partý.
Hún hefði viljað sjá betri stöðu eftir hennar fjögur ár sem formaður Viðskiptaráðsins.
„Það er dropi sem holar steininn en mikið andskoti tekur langan tíma að hola þennan stein. Þrátt fyrir að okkur takist að brjóta þessi glerþök þá einhvernveginn held ég að þau lími sig bara sjálf saman aftur“.
Enn eru konur ekki áberandi í viðskiptalífinu og það er klárlega eitthvað sem þarf að breytast. “Við erum ofsalega einar, þó við séum orðnar mjög margar”.

Næst á sviðið var Fida Abu Libdeh sem sagði áhrifaríka sögu sína. Hún er uppalin í Palestínu, en flutti með systur sinni og mömmu til Íslands þegar hún var 16 ára. Menntakerfið hér heima reyndist henni erfitt, hún þurfti að læra bæði íslensku og dönsku og oft gat hún ekki greint þau tungumál frá hvor öðru. Henni var kastað fram og til baka á milli skólastjórnenda og menntamálaráðherra þegar hún reyndi að fá arabísku metna sem móðurmál og þá íslensku sem annað tungumál. Í þrígang reyndi hún að sækja um Háskóla Íslands með undantekningu því hún var búin með alla áfanga upp í stúdentspróf, nema íslenskuna, en fékk alltaf höfnun. Næst prófaði hún að sækja um í Keili og kláraði stúdentsprófið, fór í orku-og tæknifræði í HR og loks MBA í sama skóla.“Ég fór úr því að vera mállaust barn í að vera hámenntuð kona.”
Hún stofnaði fyrirtækið sitt GeoSilica út frá lokaverkefni úr orku-og tæknifræði.
“Ég hef farið í heimsóknir í önnur fyrirtæki vegna vinnu og labbað inná kaffistofu og verið spurð hvort ég sé að koma og þrífa.”
Fida hefur upplifað það að hún sé ekki tekin nógu alvarlega vegna þess hún er kona, og af erlendum uppruna.
“Við þurfum að taka fleiri skref en karlmenn til þess að komast á sama stað.”
Hún sagði að henni fannst mikilvægt að eiga kvenkynsfyrirmyndir sem hvöttu hana áfram þegar slæmar raddir læddust að henni og efuðust um fyrirtækið hennar og spurðu hvort hún ætlaði ekki að fá sér almennilega vinnu.
“Enginn sem getur sagt okkur hvað við getum gert og hvað við getum ekki gert, við vitum það sjálfar”.

Þóra Helgadóttir, fyrrum landsliðsmarkvörður sem starfar nú hjá Seðlabanka Íslands lokaði viðburðinum. Hún sagði sína sögu, fjallaði um mismun kynjanna í fótboltanum og hvernig hennar viðhorf hefur hjálpað henni í atvinnulífinu.
”Ég vissi ekki af ójafnrétti fyrr en ég varð fullorðin”. Henni var kennt að ef þú leggur til þá vinnu sem þarf þá getur maður allt sem maður ætlar sér.
Fótboltaheiminum lýsir hún þannig að hann hafi verið að taka skrefið frá steinöld yfir á bronsöld í kvennafótbolta. Í viðskiptaheiminum er hins vegar búið að opna dyrnar, konurnar eru mættar. Þóra hefur alltaf verið full af sjálfstrausti sem hefur hjálpað henni að rísa upp metorðastigann í störfum hennar. Hluti af þessu sjálfstrausti felst í því að kunna að taka ábyrgð, læra af mistökum, sýna hugrekki og vita sín mörk.
Hún sagði félagskonum frá Imposter syndrome sem hún upplifði reglulega í starfinu. ”Ég fékk meira að segja imposter syndrome rétt áðan, áður en ég kom hingað að tala við ykkur”. Viðbrögð salarins bentu til þess að Þóra væri sannarlega ekki ein um slíka upplifun. 
Hún talaði um að erfitt væri að finna fólk sem væri til í að taka að sér öll verkefni, sama hversu krefjandi þau væru, og leysa þau. Hvatti félagskonur til að vera hugrakkar og djarfar við að taka að sér verkefni sem þær væru ekki endilega bestar í, heldur bara finna út úr hlutunum. ”Við sem heild eigum ekki að sætta okkur við núverandi stöðu. Það mikilvægasta sem við gerum er að sætta okkur aldrei við minna en það sem er nógu gott”.

Stjórn UAK þakkar þeim Katrínu, Fidu og Þóru fyrir komuna og öllum gestunum sem mættu.
Dagskrá vetrarins má sjá hér að neðan og við vonum að sjá sem flestar félagskonur á viðburðum vetrarins.

Dagskrá 2019:
– 20/9 Tengslakvöld
– 1/10 Panelumræða um kynjakvóta (opinn viðburður)
– 17/10 5 ára afmæli UAK
– 30/10 Heimsókn í NOVA
– 5/11 Örfyrirlestrakvöld um konur í iðngreinum
– 28/11 Námskeið í samningatækni
– 11/12 Heimsókn í Össur