Opnunarviðburður vor 2023 – Hæfni til framtíðar

In Fréttir, Opnunarviðburður by Aðalheiður Júlírós

Þann 19. janúar var fyrsti viðburður 2023 haldinn í Háteig á Hótel Reykjavík Grand. Lísa Rán, formaður UAK opnaði viðburðinn og kynnti vordagskrá félagsins sem er þéttsetin af flottum og áhugaverðum viðburðum.

Við fengum til okkar á viðburðinn kraftmikla og áhugaverða einstaklinga úr atvinnulífinu sem voru með erindi en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra opnaði viðburðinn með hugvekju. Áslaug kom inn á hvernig kynslóðamunur er orðinn hvað varðar atvinnulífið og þær kröfur sem gerðar eru um hæfni og menntun.

Myndir: LIND Gunnhildur Photography

Þar á eftir sagði Safa Jemai frá sínum uppruna og hennar reynslu úr tæknigeiranum. Mikilvægt er að byrja snemma með því að opna augun fyrir öllum þeim tækifærum sem í boði eru fyrir ungum nemendum.

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um sjálfbærni talaði um nýja heimsmynd og var með ákall um hvernig hægt sé að vera drifkraftur breytinga. Hrund fræddi einnig félagskonur og gesti um sína vegferð að þeim stað sem hún er á í dag. Mikilvægt er að hlusta á innsæið og ekki vera fastur í kassanum.

Að lokum var Magnús Árnason, fráfarandi framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar og markaðsmála hjá Nova með erindi þar sem hann fjallaði um AI og hvaða áhrif gervigreind getur haft til framtíðar.

Eftir erindin settust allir fyrirlesarar í pallborð sem Katrín Sigríður, markaðsstjóri og varaformaður UAK stýrði þar sem áhugaverð og skemmtileg umræða skapaðist. Félagskonur og aðrir gestir fengu tækifæri til að senda inn spurningar til þeirra.

Stjórn UAK þakkar fyrirlesurum og öllum þeim sem mættu kærlega fyrir góða kvöldstund saman.

Næsti viðburður UAK verður 1. febrúar með yfirheitið „Stýra hormónar starfsferlinum?“. Markmiðið með viðburðinum verður að vekja athygli á mikilvægi þess að hlúa að eigin heilsu og líðan ásamt því að vera með vitundarvakningu um kvenheilsu. Hlökkum til að sjá ykkur!