Opnunarviðburður vorannar 2024 – Forysta í breyttum heimi

In Fréttir, Opnunarviðburður by Aðalheiður Júlírós

UAK hóf vorönn 2024 með opnunarviðburði 24. janúar sl. í Grósku. Markmið opnunarviðburðar er ávallt að vekja athygli á starfi félagsins og er opinn öllum þeim sem hafa áhuga.

Að þessu sinni var yfirheiti opnunarviðburðarins Forysta í breyttum heimi og var tilgangur viðburðarins að rýna í næstu kynslóð leiðtoga og hvað verður mikilvægt að hafa í huga í breyttum heimi.

María Kristín, formaður UAK 2023-2024 opnaði viðburðinn og kynnti dagskrá vorannar 2024. Ásamt því benti hún á að árið 2024 er ár kosninga, þ.e. 64 lönd efna til kosninga á árinu þar sem næsti leiðtogi þeirra landa verður kosinn. Þá er áhugavert að velta fyrir sér hvað við vijum sjá í leiðtogum okkar, hvað finnst okkur góður leiðtogi og hvernig komum við fleiri konum í þessar stöður?

Einnig vakti hún athygli á því að eftir opnunarviðburð haustannar 2023, þar sem spurningunni Hvað er athafnakona var varpað fram, hefur orðanetið hjá Árnastofnun verið uppfært eftir áskorun frá UAK, sjá frétt hér.

María Kristín Guðjónsdóttir

Rebekka Rún Jóhannesdóttir, yfirverkefnastjóri í Fjármálaráðgjöf Deloitte og ISO gæðavottaður Dale Carnegie þjálfari var með hugvekju kvöldsins þar sem hún tók sérstaklega fyrir það að fara í gegnum breytingar, afhverju þær geta verið óþæginlegar og hvernig við getum tekist á við þær.

Rebekka Rún Jóhannesdóttir

Einnig fór hún yfir markmiðasetningu, hvernig það tengist breytingum og SMART aðferðafræðina þar sem hún lagði áherslu á A-ið (Aðlaðandi) en markmið verða að vera aðlaðandi fyrir okkur sjálf, ekki einhvern annan. Að lokum benti hún á að innsæið segir okkur hvað við eigum að gera, ekki hvernig eða hvenær. Við verðum að hlusta á það og framkvæma.

Þar á eftir tók við sófaspjall á milli Álfheiðar Ágústsdóttur, forstjóra Elkem Ísland og Berglindar Ásgeirsdóttur, fyrrum sendiherra sem Rebekka Rún stýrði.

Segja má að þrjár kynslóðir hafi setið saman í sófaspjallinu og var því áhugavert að hlusta á hvað þær ættu sameiginlegt og hvað ekki. Þegar þær voru spurðar hvaða eiginleika framtíðar leiðtogi mun þurfa að búa yfir voru þær sammála um að hann verður að geta hlustað á nærumhverfi sitt og að viðkomandi þarf ekki að vera með öll svörin. Á sama tíma verður viðkomandi að geta staðið með sinni ákvörðunartöku.

Þegar spurðar hvaða ráð þær væru með til ungra athafnakvenna voru þær sammála um að lykilatriðið er að vera óhræddar við að læra og vaxa, alltaf að vera tilbúnar til að öðlast nýja þekkingu og vera með markmið sem eru aðlaðandi fyrir okkur sjálfar.

Rebekka Rún, Berglind og Álfheiður í sófaspjalli

Að lokum gafst tækifæri til tengslamyndunar með veitingum frá INNES og CCEP.

Stjórn UAK 2023-2024

Stjórn UAK þakkar Rebekku Rún, Berglindi og Álfheiði kærlega fyrir þátttökuna á viðburðinum. Einnig þakkar félagið Deloitte, Innes og CCEP fyrir að styrkja viðburðinn.