Um fjörtíu konur mættu á örfyrirlestrakvöld UAK um fjölskylduréttindi sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík miðvikudagskvöldið 3. október. Kvöldið var einstaklega vel heppnað og sköpuðust áhugaverðar umræður eftir öll erindi kvöldsins.
Fyrst á svið var Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögmaður hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands. Dagný fræddi félagskonur um réttindi mæðra og foreldra á vinnumarkaði, réttinn til fæðingarorlofs, greiðslur, uppsagnarvernd, réttindi foreldra á vinnumarkaði þegar það kemur að veikindum barna og fleira sem þessu fylgir. Fyrirlestur Dagnýjar var virkilega fræðandi og voru félagskonur áhugasamar og spurðu hana mikið út í þessi mál eins og um uppsagnarvernd, og þakið á greiðslum í fæðingarorlofssjóði.
Sagði Dagný m.a. það nauðsynlegt að laga dagvistunarkerfið á Íslandi og benti á að konur þyrftu margar hverjar að hætta að vinna þar sem þær eru ekki með dagvistun. Einnig taka þær oft á tíðum lengra orlof en feður.
„Ekki vera með samviskubit“
Næst á svið var Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel á Íslandi. Það er óhætt að segja að saga Guðbjargar sé einstök en um áratug eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn með þáverandi eiginmanni sínum fór hún einstæð í glasafrjóvgun og varð ólétt. Á sama tíma fékk hún nýja krefjandi stöðu innan Marel og lýsti hún því m.a. hvernig hún tók aðeins sex vikur í fæðingarorlof en lét það virka.
Guðbjörg er líka frábær fyrirmynd sem stjórnandi þegar það kemur að fjölskyldumálum og talaði hún um samviskubitið sem mæður eru oft með þegar það kemur að samspili atvinnu og fjölskyldulífi. Gaf hún félagskonum það ráð að aldrei telja gæði þeirra sem mæður í mínútum. „Ekki halda að þið séuð verri mæður þó þið þurfið stundum pössun af því þið eruð í vinnunni.”
Einnig talaði hún um hvernig dagvistunarkerfið virkar ekki fyrir þá sem þurfa að vinna til 17 og talaði um að það þurfi að koma til móts við þá sem þurfa að hætta fyrr til að sækja í dagvistun. Sagði hún að reglulega kæmu til hennar konur sem vildu minnka starfshlutfall sitt til þess að geta sótt börnin. Í öllum þeim tilvikum hefur Guðbjörg sagt þeim að halda sinni fullu stöðu þó þær þurfi að fara og sækja börnin sín. Bætti hún við að aldrei hefði karlmaður komið til hennar með sambærilega ósk.
„Hvort þú sért að fara úr vinnunni til að ná á leikskólann eða þannig skiptir ekki máli, það skiptir bara máli hvernig þú ert að vinna verkefnin þín. Ekki vera með samviskubit,“ sagði Guðbjörg.
Mikilvægt að hækka launaþakið
Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar og fyrrverandi Umhverfis- og auðlindaráðherra, var þriðji gestur kvöldsins. Björt er þriggja barna móðir og lýsti hvernig það hafi verið að vera fyrst á þingi en svo ráðherra með ung börn á heimilinu. Sagði Björt að það hafi gengið almennt séð vel en bætti við að hún hefði ekki séð mikið af manninum sínum á þessum árum og þau hefðu aðallega hist í útidyrahurðinni.
Björt sagði það vissulega erfitt að skipuleggja nákvæmar tímasetningar þegar það kemur að barneignum og starfsframa:
„Ekki flýta ykkur of mikið. Þið hafið nægan tíma. Manni langar að gera svo ótrúlega mikið á tveimur árum en svo bara gerist eitthvað og þá gengur „excel” skjalið ekki upp.”
Spurð hvað hægt væri að gera á þinginu, hennar gamla vinnustað, til að bæta aðstæður fjölskyldufólks sagði Björt að það þyrfti að
hækka launaþakið í fæðingarorlof. Sagði hún það vissulega hægt og að það myndi líklega leiða til þess að karlar tækju frekar fæðingarorlof.
Stimpilklukkan mælir ekki árangur
Síðasti gestur kvöldsins var Helen Breiðfjörð, mannauðsstjóri Sýn. Hún fór yfir málin frá sjónarhorni vinnustaðarins og mannauðsstjórans. Helen hefur beitt sér fyrir jafnrétti í stöðu sinni og Sýn er með áhugaverða stefnu í gangi þegar það kemur að vinnuumhverfi, sveigjanleika og fjölskyldulífi.
Talaði hún sérstaklega mikið um þann sveigjanleika sem stjórnendur Sýnar reyna að veita starfsmönnum til þess að sameina starf og fjölskyldulíf.
„Það að skila inn vinnunni skiptir aðalmáli en ekki að notast við „stimpilklukkuna”. Stimpilklukka er lélegasti mælikvarði á árangri í vinnu,“ sagði Helen.
Stjórn UAK þakkar Dagnýju, Guðbjörgu, Björtu og Helen kærlega fyrir sín fræðandi en hvetjandi erindi og jafnframt öllum þeim félagskonum sem mættu og tóku þátt í bæði skemmtilegum og mikilvægum umræðum.