Örfyrirlestrar: Andleg heilsa á vinnumarkaði

In Fréttir by Árný Lára Sigurðardóttir

Þriðjudagskvöldið 17. maí stóð UAK fyrir örfyrirlestrakvöldinu Vellíðan á vinnumarkaði: Hvernig náum við árangri án þess að tapa heilsunni? í Hinu Húsinu. Ákveðið var að hafa viðburðinn opinn fyrir öllum enda um einstaklega mikilvægt málefni að ræða.

Markmið viðburðarins var að skapa opnari umræðu um andlega heilsu á vinnumarkaði ásamt því að vekja athygli á hinum ýmsu leiðum til að sporna við starfstengdri kulnun og álagi. Til okkar komu þær Elfa Þöll Grétarsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun og starfsmaður Verkefnastofu Landspítalans, Guðlaug Ólafsdóttir, vinnusálfræðingur ásamt Gunni Líf Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Mannauðssviðs hjá Samkaup. Lögðu þær allar mikla áherslu á helgun í starfi og áherslu á að litið sé á starfsfólk sem auðlind sem nauðsynlegt er að rækta.

Við fögnum því að heyra að félagsstarf sé litið sem einn af þeim þáttum sem dregur úr líkum á kulnun. UAK leggur mikið kapp í að veita viðburði sem skapa tækifæri, tengsl og góða þekkingu hjá okkar félagskonum. Lagt er upp með að skapa umhverfi sem er nærandi og til þess gert að allir geti notið þess að koma. Við munum halda áfram að leggja okkar að mörkum að sterkum grunni andlegrar heilsu um ókomna framtíð.