Pressan: Viðtal við Margréti Berg formann UAK

In Fréttir by Helena Rós Sturludóttir

Blaðamaður Pressunnar fékk Margréti Berg formann UAK til að svara nokkrum spurningum um starfsemi félagsins, hér má finna viðtalið í heild sinni.

Félagið Ungar athafnakonur var stofnað i maí 2014 og eru nú félagskonur 250 talsins. Félagið stendur fyrir ýmiss konar viðburðum þar sem leitast er við að efla ungar konur og styrkja stöðu og framtíð þeirra sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Um þessar mundir vinnur UAK að spennandi dagskrá fyrir næsta ár og eru allar áhugasamar ungar konur hvattar til að skrá sig í félagið.

Leitast við að efla ungar konur

Ungar athafnakonur standa að ýmiss konar viðburðum eins og námskeiðum, fyrirtækjaheimsóknum og áhugaverðum fundum.

„Með viðburðunum erum við að leitast við að efla ungar konur og styrkja stöðu og framtíð þeirra sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Allir okkar viðburðir eru með þessa hugsjón að leiðarljósi og við reynum okkar allra besta í að efla og hvetja félagskonur okkar til dáða.“

Enn hallar á konur ef litið er til fjölda kvenna í stjórnum á Íslandi

Margrét segir að henni finnst þörfin á slíku félagi mikil og nefnir dæmi að í dag er engin kona sem stýrir skráðu félagi í Kauphöll Íslands og enn hallar á konur ef litið er til fjölda kvenna í stjórnum á Íslandi, þrátt fyrir kynjakvóta.

„UAK vill leggja sitt af mörkum til að auka sjálfstraust ungra kvenna, þekkingu og færni þeirra til þess að stíga óhræddar fram og sækjast eftir krefjandi verkefnum.“

Margrét segir að með þeirri opinni umræðu, fræðslu og viðburðum sem félagið býður upp á getur félagið styrkt stöðu og framtíð ungra kvenna í atvinnulífinu.

„Slíkt mun vonandi leiða til þess að við munum sjá fleiri konur í stjórnum og stjórnendastöðum í framtíðinni.“

Oft haldið fram að konur séu smeykari að sækja um launahækkanir

Aðspurð af hverju ungar athafnakonur segir Margrét að ungt fólk standi frammi fyrir alls konar krefjandi áskorunum þegar það stígur sín fyrstu skref á atvinnumarkaðinum. En þar til betra jafnvægi kynja á atvinnumarkaði næst mun UAK starfa sem Ungar athafnakonur. „En við hlökkum auðvitað mikið til þegar félagið Ungt athafnafólk getur tekið við því.“

„Það er oft á tíðum haldið fram að konur séu smeykari við að sækja um launahækkanir en karlar. UAK hefur því lagt áherslu á að auka sjálfstraust ungra kvenna og beinlínis verið með viðburði sem miða að því að leiðbeina og hvetja þær í að sækjast eftir launahækkunum. Við erum mjög spenntar að sjá hvaða áhrif það kemur til með að hafa.“

Mikilvægt að fá strákana með í umræðuna

UAK er þó einnig með opna viðburði þar sem ungir karlmenn eru sérstaklega hvattir til að mæta. Félagið fær einnig áhugaverða og framsækna karlmenn til að mæta í pallborðsumræður eða flytja þeim erindi.

„Okkur finnst gríðarlega mikilvægt að fá strákana með okkur í umræðuna, því þetta er tvíhliða samtal sem varðar alla.“

Félagskonur 250 talsins

UAK var stofnað í maí 2014 af Lilju Gylfadóttur og var þá undirfélag Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA). Ári síðar var ákveðið að starfsemi UAK væri betur háttað ef félagið væri sjálfstætt starfandi og hefur verið starfandi sem slíkt frá 2014.

„Frá stofnfundi félagsins árið 2014 hefur félagið stækkað með hverju starfsári og telja félagskonur félagsins nú um 250 talsins.“

Spennandi dagskrá í smíðum fyrir næsta ár

Það er nóg að gerast framundan hjá ungum athafnakonum og eru þær við þessar mundir að setja niður ótrúlega spennandi dagskrá fyrir næsta ár sem mun vera auglýst síðar. „Við lofum góðri samblöndu af skemmtun, fræðslu, heimsóknum og fundum.“

Ómetanlegt tengslanet milli kvenna

Það eru ekki inngönguskilyrði né aldurstakmark í félagið.

„Við höfum gjarnan sagt svo lengi sem þú finnur þig í félaginu þá ertu velkomin. Félagskonur UAK eru með fjölbreyttan bakgrunn, ýmist komnar með reynslu af atvinnumarkaði eða að ljúka námi.“

Félagið er opið fyrir nýskráningum allan ársins hring og segir Margrét að allar áhugasamar ungar konur eru hvattar til að skrá sig. Félagsaðildin felst fyrst og fremst í viðburðum á vegum UAK. Þeir viðburðir eru einungis opnir félagskonum.

„Það eru þó ekki einungis mæting á viðburði sem felst í félagsaðild heldur fylgir henni ómetanlegt tengslanet milli kvenna sem stefna að sams konar markmiðum á hinum ýmsu sviðum.“

Á heimasíðu UAK er hægt að finna fréttir, viðtöl og upplýsingar um komandi viðburði. Á síðunni fara fram skráningar á viðburði félagsins og þar er einnig hægt að skrá sig í félagið. UAK eru líka virkar á Facebook, Instagram og Twitter.

„Við hvetjum allar þær sem áhugasamar eru um félagið að hafa samband við okkur á Facebook eða senda okkur tölvupóst á uak@uak.is.“