Seinna tengslakvöld

In Fréttir by Auður Albertsdóttir

Um 40 félagskonur mættu á tengslakvöld UAK sem fór fram föstudagskvöldið 31.janúar síðastliðinn í Mengi. Hugmyndin með kvöldinu var að leggja áherslu á mikilvægi tengslaneta og kosti félagsstarfa ásamt því að velta upp áskorunum og tækifærum í þeim efnum. Þá var einnig markmið, eins og áður á tengslakvöldum UAK, að félagskonur fengu tækifæri til að efla tengslanetið og skemmta sér saman. Að þessu sinni fengum við frábæra gesti en Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups opnaði kvöldið og fjallaði um mikilvægi tengslanets og reynslu sinni og áhrif félagsstarfa í atvinnulífinu. 

Salóme talaði um árin sem hún var í Háskólanum í Reykjavík þar sem hún fór “all in” í félagslífi. Sagði Salóme það hafa verið einn besta tíma lífs síns enda hafi hún alltaf sóst eftir því að vera í kringum fólk. Hún talaði um að með því að vera tilbúin að fórna tímum og fjármunum í félagslíf læri maður og vex. „Þannig fær maður oft tækifæri. Ef okkur er treyst fyrir setu í nefnd eða ráði er það tækifæri,” sagði Salóme. Salóme varð forstöðumaður Opna háskólans í HR 27 ára og starfaði þar í tíu ár. Þegar hún fann að hún vildi breyta til sótti hún um sem framkvæmdastjóri Icelandic Startups og hefur verið þar síðan. Hún sagði starfið ofboðslega skemmtilegt og gefandi og sagði ástríðu smita út frá sér og að fólk tæki eftir henni.

Salóme er í stjórnum og nefndum innan atvinnulífsins en nefndi að þetta væri fín lína í þessum efnum því það væri ekki hægt að vera allstaðar. Mikilvægt væri að hugsa vel af hverju þú ert í hverju og einu og hvað þú færð út úr því. 

Þegar það kom að tengslaneti sagði hún nauðsynlegt að efla það enda væri það oft mikilvægt þegar á reynir í starfi. Hjálpar það við að koma sér á framfæri og að vera „á radar” þegar tækifærin koma. Lagði hún þó áherslu á að tengslanet þurfi að vera einlægt og að það þyrfti að rækta tengslin. Leiðir til þess að stækka tengslanetið væri t.d. að skoða tækifæri í umhverfinu og hvort þú gætir miðlað þekkingu þinni þar. Það væri strategískt en ekki falskt. Þá mældi hún með því að þeir sem vilji stækka tengslanetið hafi samband við fyrirmyndir sínar og biðja þau um að hitta sig. „Með því að sýna ástríðu og vanda ykkur í samskiptum verðið þið meira aðlaðandi.”

Þá stigu þrjár fyrrverandi stjórnarkonur UAK á stokk, þær Andrea Gunnarsdóttir, Rakel Guðmundsdóttir og Sigyn Jónsdóttir og voru með stutt erindi um reynslu þeirra á stjórnarsetu í félaginu og á félagsneti, frama og tengslaneti. Andrea sagðist hafa fengið „brjálæðislega góð tækifæri” með því að sitja í stjórn UAK. Sagði hún að þetta væri reynsla sem ekki væri hægt að fá í skóla og stökkpallur til þess að koma sinni sýn á framfæri. Með stjórnarsetunni í UAK öðlaðist hún meiri drifkraft og eldmóð en ekki síst meiri trú á sjálfri sér og framtíðinni. 

Rakel var í fyrstu stjórn UAK og sagði það hafa verið ótrúlega skemmtilegt tækifæri að byggja félagið upp frá grunni. Kallaði hún tímann í UAK dýrmæta og víða reynslu og líkti því við að reka lítið fyrirtæki. „Þetta er reynsla sem nýtist öllum hvar sem er.”

Sigyn steig út fyrir þægindarammann með því að fara í framboð í UAK og sagðist vera mjög þakklát sjálfri sér fyrir það. Sagði hún tímann í stjórn hafa gefið sér mikið, bæði persónulega og fyrir ferilinn. Talaði hún um að stjórnirnar sem hún starfaði í hefðu verið frábær teymi og með þeim hafi hún t.d. öðlast reynslu í viðburðastjórnun og samningagerð. „Með þessu var ég búin að fá fimm ára starfsreynslu á einu bretti. Þú færð þetta ekki annarsstaðar.”


Kvöldinu lauk síðan á kynningu á dagskrá UAK dagsins en hana má nálgast hér. 


Stjórn UAK þakkar félagskonum fyrir komuna og jafnframt Salóme, Andreu, Rakel og Sigyn fyrir komuna og þeirra ómetanlegu erindi, ráð og innblástur.