Björg­heiður Mar­grét Helga­dótt­ir, fjár­mála­stjóri UAK, Karlotta Hall­dórs­dótt­ir, verk­efna­stjóri for­varna hjá Sjóvá, Snæfríður Jóns­dótt­ir, formaður UAK, og Auður Daní­els­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri sölu- og ráðgjafa­sviðs hjá Sjóvá við und­ir­rit­un sam­starfs­samn­ings UAK og Sjóvá á dög­un­um.

Sjóvá verður aðalstyrktaraðili UAK dagsins

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

Sjóvá verður aðalstyrktaraðili ráðstefnunnar UAK dagsins sem Ungar athafnakonur (UAK) standa fyrir í þriðja sinn þann 7. mars næstkomandi í Gamla bíói.

UAK dagurinn 2020 verður helgaður samfélagslegri ábyrgð; hvað felst í henni, hvaða máli hún skiptir og hvaða tækifæri eru til staðar fyrir einstaklinga og fyrirtækja á því sviði. Markmið ráðstefnunnar er að taka umræðuna um samfélagslega ábyrgð lengra og greina möguleikana til aðgerða sem eru til staðar hérlendis með stjórnendum fyrirtækja, stjórnmálamönnum og ungu fólki í atvinnulífinu. Áhersla verður lögð á jafnrétti og umhverfismál og hvernig málaflokkarnir spila saman. Á ráðstefnunni mun UAK fá til liðs við sig áhrifafólk úr íslensku atvinnulífi og aðra góða gesti en UAK dagurinn er stærsti viðburður félagsins ár hvert.

„Þar sem UAK er aðeins rekið á félagsgjöldum og ekki í hagnaðarskyni skipta styrkir eins og þessi frá Sjóvá miklu máli fyrir okkur. Þá skiptir okkur einnig máli hvaða fyrirtæki standa á bakvið okkur, en við leitumst eftir samstarfi við fyrirtæki með skýra jafnréttisstefnu og sterkar kvenfyrirmyndir innanhúss. Sjóvá er til fyrirmyndar í þeim málum og erum við virkilega spenntar fyrir samstarfinu,” segir Snæfríður Jónsdóttir, formaður UAK.

Sjóvá hefur lengi látið sig jafnrétti varða. Félagið var styrktaraðili Jafnvægisvogar FKA á þessu ári, hlaut jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins 2017 og jafnframt jafnlaunavottun árið 2014. Þá varð það nýlega fyrsta íslenska skráða félagið til þess að ná einkunni 10 á kynjakvarðanum GEMMAQ. Stjórn Sjóvá samanstendur nú af 60% konum og er stjórnarformaðurinn félagsins kona. Þá er jafnt hlutfall kvenna og karla í framkvæmdastjórn félagsins.

„Það er virkilega ánægjulegt fyrir okkur að taka þátt í UAK deginum og styrkja UAK enda rímar mikilvæg starfsemi félagsins vel við gildi Sjóvá. Jafnrétti er okkur ofarlega í huga og höfum við undanfarin ár unnið ötullega að því að jafna hlut kynjanna hjá okkur. Það hefur gengið vel og sést það m.a. í einkuninni okkar hjá GEMMAQ,“ segir Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafarsviðs hjá Sjóvá.