Skila kynjakvótar jafnrétti?

In Fréttir by Auður Albertsdóttir

Ungar athafnakonur stóðu fyrir panelumræðunum „Skila kynjakvótar jafnrétti?” þriðjudagskvöldið 1. október og fóru þær fram í höfuðstöðvum Íslandsbanka. Þátttakendur í panelnum voru þau Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Linda Íris Emilsdóttir, lögfræðingur hjá Arion banka, Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri RÚV og Ragnheiður Elín Árnadóttir, verkefnastjóri Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Reykjavík 2020 og fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Panel-stýra var Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka. Myndir tók Hjördís Jónsdóttir.

Í upphafi umræðunnar var rifjað upp að lög um kynjakvóta hafi verið til umræðu á Alþingi 2010 og síðar samþykkt. Ragnheiður var þá þingmaður í stjórnarandstöðu og var á móti lögunum. Ragnheiður talaði um að hún hafi verið að lesa umræðurnar sem áttu sér stað það ár og að þar hafi hún séð „rosalega reiða konu”. Benti Ragnheiður á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi á þeim tíma verið að mótmæla aðferðarfræðinni á bakvið lögin en ekki þeirri staðreynd að konur og karlar eigi að vera bæði við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar í samfélaginu. 

Árið 2013 stóð til að samþykkja lögin og þá var Ragnheiður orðin ráðherra málaflokksins og hún áttaði sig á því að nú bæri hún á byrgð á því sem hún var brjáluð á móti þremur árum áður. „Ég hafði tækifæri til að kippa gildistökunni út en sem betur fer gerði ég það ekki heldur notaði ég sumarið til að kanna hug atvinnulífsins.”
Nefndi Ragnheiður að á þeim tíma hafi verið birt frétt í Fréttablaðinu þar sem fram komu þær röngu staðhæfingar að hún hefði í hyggju að afnema lögin. Sagði Ragnheiður að hún hefði aldrei á sínum árum í stjórnmálum fengið eins sterk viðbrögð við neinu. „Ég fékk bara hate mail og allt var brjálað. Ég áttaði mig þá á því að einhver viðhorfsbreyting hefði orðið.”
Sagði Ragnheiður að hún hafi boðað viðskiptalífið til sín á lokaðan fund þar sem fólk gat talað opinskátt. „Þar kom klárt fram að stemmningin hafði breyst. Þegar við vorum að vinna þetta í þinginu var ég að endurróma hvað SA, VÍ og FKA voru að tala um. Þau vildu fá að klára þetta sjálf án kvótanna þá en það viðhorf hafði breyst.”

Halldór Benjamín sagði að mikilvægt væri að velta fyrir sér hvort að markmiði lagasetningarnar frá árinu 2013 hafi verið náð. Talaði hann um að hlutfall stjórnarmeðlima hjá skráðum félögum væri á bilinu 40% konur og 60% karlar og að meðaltalið væri 44%. Sagði hann að það væri komið nánast jafnvægi í þeim stjórnum og liti hann því svo á að markmiði laganna frá 2013 hafi verið náð. 
Hann benti þó á að hlutfall kvenstjórnarformanna í skráðum fyrirtækjum væri 19% en varaformanna 55%. Sagði hann að það sem eftir stæði væri sú viðhorfsbreyting sem þyrfti að eiga sér áfram stað, ekki aðeins í samfélaginu heldur inni á vinnustöðum landsins. 


Magnús Geir sagðist í grunninn ekki hafa ofurtrú á þvingandi aðgerðum en var þó sammála því að setja kynjakvóta í stjórnir fyrirtækja á sínum tíma. Benti hann á að við hefðum í gegnum tíðina státað okkur af Kvennalistanum, Vigdísi Finnbogadóttur og fleiri hlutum en værum þrátt fyrir það enn í þeim sporum að ná ekki jafnrétti á öllum póstum. 

„Hvað varðar RÚV þá kem ég að þessum almannafjölmiðli þjóðarinnar og þetta er stofnun með gríðarmikil áhrif á hvernig við sjáum samfélagið og við speglum okkur í því hvað við sjáum þar. Þegar ég kom að RÚV blasti við mér mynd sem var mjög fjarri því sem við viljum sjá á Íslandi yfir höfuð,” sagði Magnús og nefndi sem dæmi ójafnvægi í þáttastjórnendum, viðmælendum og hvaða sögur voru sagðar. Lagði hann megináherslu á að breyta þessu mjög hratt. 

Magnús sagði upp framkvæmdastjórninni í heild sinni og réð upp á nýtt og þá jafn margar konur og karla. Svo var farið í að jafna út kynjahlutfallið hjá millistjórnendum og svo á umsjónarmönnum þátta. Nefndi hann sem dæmi að þegar farið var í þessar aðgerðir voru aðeins 25% umsjónarmanna Rásar 2 konur. Sett var skýr regla að viðmælendur í dagskrágerð væru jafnmargir karlar og konur en að fréttum undanskildum. Bætti hann þó við að á síðustu þremur árum hafi hlutfallið kvenviðmælenda í fréttum breyst úr 28% í 40%. 

Markmiðið að lögin tækju aldrei gildi

Linda benti á að þó svo að skráð fyrirtæki í Kauphöll væru kannski komin langt eins og Halldór Benjamín nefndi gildu lögin um öll fyrirtæki með yfir 50 starfsmenn. Sagði hún að tölurnar þar væru töluvert lægri að meðaltali. Sagði hún að hlutfallið hefði náð hámarki árið 2014 þar sem voru 33% stjórnarmeðlima í fyrirtækjum konur en hefði farið lækkandi síðan sem væri að hennar mati áhyggjuefni. 
„Kynjakvótar er sértæk aðferð til að ná jafnrétt kynjanna og á að vera tímabundin aðgerð en ætti að vera í gildi þangað til við náum þessu markmiði,” sagði Linda. 


Ragnheiður nefndi að þegar talað var um lögin 2010 var markmiðið að þau tæku yfir höfuð ekki gildi 2013. „Því við yrðum komin á réttan stað. Það væri betra ef það þyrfti ekki að gera þetta, ég er orðin svo þreytt á þessu. En við þurfum að hafa einhver tæki ef við erum að horfa á þá stöðu að minni fyrirtækin séu orðin löt við þetta. Kannski hefur ekki verið sama eftirfylgni.” Bætti hún jafnframt við þeirri staðreynd að það voru engin viðurlög sett við setningu lagana. „Maður spyr sig ef það væru engin viðurlög við að keyra of hratt, værum við ekki í meira mæli aðeins að gera það?” 

Blandaður hópur nær meiri árangri

Halldór Benjamín sagði að stjórnendur þyrftu að líta til fjölbreytni innan vinnustaða.  „Það að búa til blandaðan hóp nær fram meiri árangri, það þjónar engum tilgangi að vera með einsleitan hóp stjórnenda sem er með sömu skoðun á öllum málum,” sagði Halldór Benjamín. „Snjallir stjórnendur reyna að ná fram blöndu.” Bætti hann við að þeir stjórnendur fyrirtækja sem geri það ekki eigi í hættu á að tapa markaðhlutdeild og jafnvel „visna upp og deyja.”

Sagði hann þó þurfa líta til þess þegar það kemur að lagasetningum að það sé eðlilegt að gera ríkari kröfur á fyrirtæki sem geta tekist á við þvingandi aðgerðir en minni fyrirtækið. Var hann á því að viðmiðið í lögunum um 50 starfsmenn og fleiri væri oft lágt, þyrfti að hafa viðmiðið hærra og fókusinn á stærri fyrirtæki. 

Bætti hann við þeim vinkli að aldursdreifing stjórnarfólks væri líka vandamál. „Ef þið horfið inn í skráð fyrirtæki get ég lofað ykkur því að lungi allra stjórnarmanna eru á fimmtugs og sextugs aldri. Samt hefur engin umræða farin fram um aldursdreifingu stjórnarmanna.” Spurður hvort hann haldi að fyrirtæki á Íslandi hefðu getað gert betur til að setja konur í framkvæmdastjórnir sagði Halldór: „Góður stjórnandi á að finna það hjá sjálfum sér að framkalla þessa breytingu. Ekki af manngæsku heldur því hann nær meira úr sínu teymi. Ég trúi ekki á lagasetningu sem leggur kvaðir á fyrirtæki að stjórnir séu mannaðar með ákveðnum hætti.” 

Magnús Geir sagði að það væri klárlega aukin umræða og vitund um hlutföll kynja innan fyrirtækja og að það setji pressu á fyrirtækin. „Ég held að enginn almennilegur stjórnandi sé ekki meðvitaður um þetta. Ég held að breytingin sé að eiga sér stað svo lengi sem við höldum pressunni með umræðunni áfram.”


Hefðu meiri áhrif ef það væru viðurlög

Viðurlög við brotum á lögunum bárust aftur í tal. Sagði Linda að lögin myndu líklega hafa töluvert meiri áhrif ef það væru viðurlög.

„Lögin tóku gildi 2013 en við ekki búin að ná jafnrétti, ekki jöfnum hlutföllum í stjórnum fyrirtækja sem falla undir lögin,” sagði Linda og bætti við að í Noregi væri það þannig að fyrirtæki hefðu ákveðið mörg ár til að ná ákveðnu lágmarki og ef þau næðu því ekki fengu þau dagsektir. „Refsingin að lokum er sú að það er hægt að leysa félagið þitt upp. Því hefur aldrei verið beitt í Noregi – það hefur ekki komið til þess því fyrirtækin fylgdu lögunum. Við erum ennþá ekki jöfn og við nennum held ég ekkert að bíða lengur. Ég nenni allavega ekki að bíða í einhverja áratugi að það verði jafnt í stjórnum.”

Halldór ítrekaði þá skoðun sína að gengið hafi verið of langt í stærð fyrirtækja í lögunum. „Ef maður ætlar að borða fíl gerir maður það einn bita í einu,” sagði Halldór og bætti hann við að hann væri hlynntur því að taka smærri jafnari og ákveðnari skref og klára þessi skref frekar en að taka stærri skref. Þá var hann ekki á því að dagsektir væru endilega rétt leið þar sem þær gætu auðvelda skaðað lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru jafnvel með aðeins  einn hluthafa.

Eitt dæmi um kynjakvóta sem vakti mikla athygli á sínum tíma var þegar ákveðið var að hafa kynjakvóta í liðum Gettu betur á RÚV. „Gettu betur var strákakeppni og okkur fannst ekki stætt annað en að setja þessa reglu,” sagði Magnús Geir. „Það voru skiptar skoðanir þegar við fórum af stað með þetta en svo breyttist umræðan. Nú þykir sjálfsagt að sjá stelpur eins og stráka í þessum liðum. Keppnin miklu skemmtilegri en hún var þá.” 


Sveigjanleiki á vinnumarkaði stórt jafnréttimál

Sveigjanleiki á vinnumarkaði barst einnig tal. Sagði Halldór að stóra áskorunin framundan væri að aðlaga vinnuumhverfi allra landsmanna þannig að vinnutími sé sveigjanlegri. 

„Ég held að eitt stærsta málið hjá okkur er að brúa þetta umönnunarbil, börnin fæðast og það er allt í messi á heimilinu í eitt ár, barnið kemst ekki á leikskóla. Kerfið hefur þarna mjög hamlandi áhrif og því miður er það þannig en þessi umönnunarskylda lendir í miklum meirihluta á ungum mæðrum þessa lands og dregur þær út af vinnumarkaði á þessum aldri og jafnvel oft,” sagði Halldór. Benti hann á að þó að ágætur árangur hafi náðst í að feður taki feðraorlof vitum við að byrðin á heimilunum skiptist ekki jafnt og að það sé kerfislegur vandi að hluta til. 

„Ég held við séum betra samfélag en svo að halda fólki frá vinnumarkaði því við getum ekki skaffað dagforeldri eða leikskóla. Þetta þarf að vera svo miklu ofar á forgangsröðuninni en kemst í opinberri umræðu og er eitt af okkar stærstu jafnréttismálum.”

Fjölbreytni og jöfn tækifæri „góður bissness”

Þegar það leið að lokum kvöldsins voru þátttakendur spurðir hvernig þeir sjái fyrir sér stöðuna eftir 5-10 ár. Ragnheiður sagðist vera raunsæ. „Þetta er langhlaup þó ég vilji taka sprettinn. En ég held að við höfum núna tækifæri því við erum með óþolinmæði á mikilli uppleið,” sagði hún og bætti við að hún væri „bjartsýnismanneskja með áhyggjur.”

Linda sagðist vona það besta en væri enn ansi hrædd um að lítið muni breytast. „En auknar umræður um kynjajafnrétti eru af hinu góða og hafa þær aukist mikið undanfarið.”  Bætti hún við þeim punkti að umræðurnar væru að breytast. „Útaf við erum að tala um kynjakvóta – jafna stöðu karla og kvenna – það eru ekki tvö kyn í heiminum í dag. Það er mál sem þarf að skoða betur – ég sé fyrir mér aukna umræðu um það mögulega þarf að fara að endurskoða þessa kynjakvótapælingu útfrá því.”

Magnús Geir sagðist ætla að leyfa sér að vera mjög bjartsýnn. „Það hefur verið mikill árangur og ég sé fyrir mér að hann muni vaxa – þetta gerist á nokkrum árum ég trúi því að stjórnir á næstu fimm árum þegar þær ráða forstjóra, horfi meira til kynjasjónarmiða og forstjórarnir geri það þegar þeir ráða sinn hóp í kringum sig og hlutföll muni jafnast. Bætti hann við að samþætting vinnu og einkalífs væri alls ekki nógu góð. 

„Það að vera með börn á skólaaldri og vera í vinnu, fyrir bæði karla  og konur, það þarf að brúa bilið, sumarfríin í skólunum og allt þetta. Þetta fer ekki saman og þar verður að horfa til stjórnmálamanna. Eitt brýnasta verkefnið á Íslandi í dag er að gera fjölskyldum þessa lands kleift að komast í gegnum daginn og árið á þægilegan hátt og fólk geti blómstrað í vinnu á sama hátt.”

Halldór sagði að sín skoðun væri sú að fjölbreytni annars vegar og jöfn tækifæri yfir langan tíma væri „góður bissness”.  „Þeir sem ýta undir það ná fram, ekki bara í stjórnendahóp, heldur meðal starfsmanna fjölbreytileika sem er góður bissness til langs tíma. Ég er vongóður að þetta element sé öflugri drifkraftur yfir lengri tíma en lagasetning.”