Næst síðasti viðburður starfsárs Ungra athafnakvenna var haldinn fimmtudagskvöldið 2. maí en yfirskrift viðburðarins var Staða kvenna í pólitík.
Gestir viðburðarins voru stjórnmálakonurnar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Eitt helsta markmið viðburðarins var að skapa öruggan vettvang fyrir bæði gesti og félagskonur til að tjá sig og má með sanni segja að ákveðin „trúnó” stemning hafi skapast í sal Norræna hússins þetta kvöldið.
Á viðburðinum var allri umræðu um flokka og pólitíkina sleppt. Þess í stað deildu stjórnmálakonur reynslu sinni á því hvernig það er að vera kona í pólitík á Íslandi ásamt þeim áskorunum og tækifærum sem því starfi fylgir.
Að loknum erindum gafst félagskonum tækifæri á að spyrja þessar reynslumiklu konur spjörunum úr og sköpuðust afar áhugaverðar umræður í lok viðburðarins. Kvöldið var einstakt að því leyti að gestir hans töluðu á afar persónulegum nótum og gáfu félagskonum innsýn inn í líf og starf stjórnmálakvenna á Íslandi.