Miðvikudaginn 18. nóvember sl. stóð UAK fyrir vinnustofunni Forysta framtíðarinnar. Viðburðurinn var sérstaklega hugsaður fyrir þær sem eru að stíga sín fyrstu skref sem stjórnendur eða vilja efla sig í stjórnendahlutverkinu. Ketill Berg Magnússon sá um vinnustofuna en hann er mannauðsstjóri Marel á Íslandi og stjórnendamarkþjálfi ásamt því að kenna sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík. Hann hélt stafrænt erindi fyrir félagskonur UAK ásamt því að leggja fyrir hópinn verkefni og stýra áhugaverðum umræðum.
Ketill fjallaði m.a. um stjórnandann út frá sjálfstrausti, framsetningu skilaboða og upplýsingaflæði og mikilvægi þess að hvetja starfsfólk og hrósa því. Farið var yfir hvað einkennir framúrskarandi leiðtoga og mismunandi stjórnunaraðferðir skoðaðar. Farið var yfir þá þætti sem skipta starfsfólk máli í starfi. Einnig kom hann inn á fyrirtækjamenningu, aðlögun og innleiðingu breytinga ásamt markmiðasetningu.
Hann talaði um hvað það er mikilvægt að fyrirtæki hugi að samfélagslegri ábyrgð m.a. vegna þess að ungt fólk leggur meiri áherslu á að fyrirtækið sem það vinnur hjá hafi gildi sem samræmast þeirra eigin. „Stjórnendur gera hlutina rétt en leiðtogar gera réttu hlutina” sagði Ketill og lagði áherslu á að fólk í forystu þyrfti að geta gert bæði. Hann lagði mikla áherslu á að við fæðumst ekki leiðtogar, það að vera leiðtogi samanstendur af mörgum eiginleikum sem hægt er að þjálfa og rækta hjá sjálfum sér.
Stjórn UAK þakkar Katli fyrir frábæra vinnustofu og félagskonum fyrir sýndan áhuga og virka þátttöku.