Starfsárið hófst af krafti

In Fréttir by Andrea Gunnarsdóttir

Nýtt starfsár Ungra athafnakvenna hófst á fimmtudaginn 3. september sl. með opnunarviðburði í Gamla Bíó. Mikil aðsókn var á viðburðinn og vegna fjöldatakmarkanna komust færri að en vildu sem undirstrikar þörfina fyrir félagið.

Andrea Gunnarsdóttir, varaformaður og viðskiptastjóri UAK, opnaði viðburðinn og fjallaði um mikilvægi UAK þegar kemur að því að efla stöðu kvenna í atvinnulífinu. „Það er ekki nóg að brjóta glerþakið, við þurfum að brjóta upp kerfið þar sem jafnrétti kynjanna er ekki sjálfsagður hlutur”, sagði Andrea.

Dagskrá félagins fram að áramótum var kynnt og sömuleiðis dagsetning UAK dagsins en ráðstefnan mun fara fram í Hörpu 27. febrúar 2021.

Fjölmiðlakonan Fanney Birna Jónsdóttir tók viðtöl við gesti kvöldsins sem deildu heilráðum og hvöttu ungar konur til þess að þora að taka pláss. „Ég var óhrædd við að sýna að ég væri fullfær um að sinna stöðu ráðherra 28 ára gömul” sagði Áslaug Arna, dómsmálaráðherra, en hún er yngsti kvenráðherra í sögu lýðveldisins. Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri, lyfjafyrirtækisins Alvotech lagði ríka áherslu á mikilvægi tengslanets. „Ekki láta segja ykkur að tengslanet kvenna skipti ekki máli, ég hefði aldrei stofnað Auði Capital ef það væri ekki fyrir tengslanetið”, sagði Tanya.

Viðburðurinn heppnaðist einstaklega vel og hlakkar stjórnin til starfsársins framundan.