Stjórn UAK 2018-2019 kjörin

In Fréttir by Sigyn

Aðalfundur Ungra athafnakvenna fór fram föstudagskvöldið 1. júní, í veislusalnum Hæðinni. Um 40 félagskonur mættu á fundinn þar sem Sigyn Jónsdóttir, formaður félagsins fór meðal annars yfir starfsárið og skýrslu fráfarandi stjórnar. Sigyn benti á að fjölgun hefði orðið á félagskonum en skráðar voru 280 konur í félagið í ár, sem er um 10% aukning frá því í fyrra.

Ein lagabreyting var samþykkt á fundinum en hún varðar 6. gr. laga UAK og má finna breytta útgáfu á síðu félagsins.

Eftir yfirferð á málum félagsins tóku við framboðsræður frá níu konum sem gáfu kost á sér til stjórnar UAK 2018-2019. Þrjár konur kveðja nú stjórnina eftir tveggja ára setu, þær Andrea Gunnarsdóttir, Elísabet Erlendsdóttir og Helena Sturludóttir. UAK þakkar þeim fyrir sitt framlag og mikinn metnað í þágu félagsins.

Nýir stjórnarmeðlimir félagsins eru þær Auður Albertsdóttir, Kolfinna Tómasdóttir og Snæfríður Jónsdóttir. Bjóðum við þær hjartanlega velkomnar!

Eins og vanalega á viðburðum félagsins fengu Ungar athafnakonur til sín góða gesti. Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent hélt frábært erindi um hvernig nýta má óvænt atvik og hindranir í lífinu til góðs, og hvatti allar til að vera óhræddar við að gera mistök því eitthvað gott kæmi yfirleitt út úr erfiðum aðstæðum. Því næst fór Indíana Rós Ægisdóttir, kynfræðingur, yfir ýmis áhugaverð atriði tengd kynfræðslu og jafnrétti í því samhengi.

Leynigestur kvöldsins var engin önnur en Hildur, tónlistarkona, sem flutti nokkur lög við mikinn fögnuð félagskvenna sem áttu saman frábæra kvöldstund eftir magnað starfsár. Við þökkum félagskonum fyrir frábæra mætingu í vetur og fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf.

Gleðilegt sumar og sjáumst í haust!