Stjórn UAK 2019-2020 kjörin

In Fréttir by Kolfinna Tomasdottir

Aðalfundur Ungra athafnakvenna 2019 fór fram þriðjudagskvöldið 28. maí, í veislusalnum Mengi. Á fundinum fór formaður félagsins, Sigyn Jónsdóttir, yfir starfsárið og kynnti skýrslu fráfarandi stjórnar. Tvær lagabreytingar voru samþykktar á aðalfundinum, en þær varða 5. gr. og 6. gr. laga UAK og má finna uppfærða útgáfu á síðu félagsins.

Eftir yfirferð ársskýrslu tóku við framboðsræður þeirra kvenna er gáfu kost á sér til stjórnar UAK 2019-2020. Þrjár konur kveðja nú stjórnina eftir tveggja ára setu, þær Anna Berglind Jónsdóttir, Ásbjörg Einarsdóttir og Sigyn Jónsdóttir. UAK þakkar þeim fyrir sitt framlag í þágu félagins.

Nýir stjórnarmeðlimir félagsins eru þær Amna Hasecic, Björgheiður Margrét Helgadóttir og Vala Rún Magnúsdóttir. Ásamt nýkjörnum stjórnarmeðlimum skipar stjórn UAK 2019-2020 þær Auði Albertsdóttur, Kolfinnu Tómasdóttur og Snæfríði Jónsdóttur, sem nú þegar hafa setið í eitt ár.

Á aðalfundinum fengu Ungar athafnakonur til sín góða gesti. Edda Hermannsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka, hélt erindi um framtíðarleiðtogann og Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona og handritshöfundur, hélt erindi um hindranir, vilja og metnað.

Við þökkum félagskonum fyrir frábært starfsár og hlökkum til haustsins.

Gleðilegt sumar!