Stjórn Ungra athafnakvenna finnst mikilvægt að félagskonur okkar myndi sér upplýsta skoðun um hvaða flokki þær vilji veita sitt atkvæði í komandi Alþingiskosningum. Stjórnin ákvað því að senda neðangreindar spurningar á þá stjórnmálaflokka sem mælast með yfir 5% í skoðanakönnunum. Ekki höfðu allir flokkar tök á að svara okkur fyrir tilsettan tíma en við birtum þau svör sem bárust.
Hvað ætlar þinn flokkur að gera til að beita sér gegn launamuni kynjanna?
Björt framtíð
Launaupplýsingar þurfa að vera opinberar og greindar eftir kyni. Aukin krafa á birtingu kyngreindra launagagna skapar aðhald á að lögum og því að samningum sé framfylgt. Jafnlaunastaðall er mikilvægt tæki í baráttunni gegn kynbundnum launamun, en einnig þarf að draga úr kynskiptingu vinnumarkaðarins. Stefna í kjarasamningum þarf að endurspegla vilja til að eyða kynbundnum launamun. Launaskrið verður sjaldan í hefðbundum kvennastörfum milli samninga og taka þyrfti tillit til þess í samningagerð. Aðgerðir sem draga úr kynjaskiptingu vinnumarkaðar eru því mikilvægar. Mat á menntun til launa hefur líka áhrif á kynin með óbeinum hætti, aukið verðmat menntunar er því til þess fallið að draga úr kynbundnum launamun. Almenn umræða um jafnlaunastefnu er mikilvæg, það þarf að vakta þessi mál náið, birta gögn og skapa aðhald.
Framsókn
Kynbundinn launamunur er ein versta birtingarmynd kynjamismunar og honum verður að eyða. Framsóknarflokkurinn vill fara í markvisst kynningarstarf á faggildri vottun jafnlaunakerfa, bæði í fyrirtækjum og stofnunum. Við viljum safna upplýsingum um þau fyrirtæki og stofnanir sem hafa farið í gegnum jafnlaunakerfið og gera þær upplýsingar opinberar til að gefa skýrari mynd um þróun jafnréttismála á Íslandi. Þá vill flokkurinn að ríkisstjórnin haldi árlegan jafnlaunadag sem nýttur verði til vitundarvakningar um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Flokkurinn vill enn fremur brjóta upp kynbundið náms- og starfsval, meðal annars með því að fjölga konum í iðngreinum, verk- og raunvísindum og körlum í ummönunar- og kennslustörfum.
Píratar
Við viljum stuðla að gagnsæi og sanngirni í launamálum með því að skylda fyrirtæki og stofnanir til að gera öllu starfsfólki aðgengilegar nákvæmar og réttar upplýsingar um launakjör alls starfsfólks.
Við viljum einnig að unnið verði að breytingum á kjarasamningum til að tryggja launajafnrétti óháð kyni, að vinnuveitendum verði gert skylt að upplýsa starfsfólk um lagaleg réttindi þess og skyldur við ráðningu og að séð verði til þess að eftirlitsaðili hafi heimild til þess að rannsaka launamál fyrirtækja til að leita skýringa á óútskýrðum launamun.
Samfylkingin
Við eigum góða sögu í jafnréttismálum. Jafnlaunavottun og jafnlaunaátak meðal kvennastétta voru okkar verkefni á síðasta kjörtímabili. Hjá Reykjavíkurborg hefur kynbundinn launamunur lækkað á þessu kjörtímabili undir okkar stjórn og er nú lægri en hjá ríkinu og öðrum sveitarfélögum. Við viljum hvetja fyrirtæki og stofnanir til að útrýma launamuni kynjanna með beinum aðgerðum og ríkisstofnanir geta gert sitt, til dæmis með lækkun opinberra gjalda til fyrirtækja sem standa sig vel eða áminningum til opinberra stofnanna. Það verður að fara í jafnlaunaátak og styðja við viðhorfsbreytingu gagnvart konum á vinnumarkaði sem skilar þeim í stjórnunar og ábyrgðarstöður til jafns við karla og á sömu launum og karlar.
Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja jöfn tækifæri allra. Laun eiga að endurspegla hæfni, ábyrgð, vinnuframlag og frammistöðu launþega. Kynbundinn launamunur er ólíðandi. Fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga er grundvöllur jafnréttis. Sjálfstæðisflokkurinn telur það grundvallaratriði að tryggja jafna stöðu og jöfn tækifæri kvenna og karla. Rétturinn til fæðingarorlofs beggja kynja stuðlar að þessu. Ljóst er að til að hægt sé að byggja upp frjálst og réttlátt þjóðfélag skuli einstaklingar metnir að verðleikum sínum og þeim ekki mismunað.
Viðreisn
Viðreisn er flokkur sem byggir á frjálslyndi og jafnrétti. Í stefnuskrá okkar segir að útrýma beri kynbundnum launamun. Í því skyni höfum við kynnt drög að lagafrumvarpi um jafnlaunavottun en í því felst að öll fyrirtæki sem telja 25 starfsmenn eða fleiri verði skyldug til að láta framkvæma jafnlaunaúttekt samkvæmt jafnlaunastaðli og skila niðurstöðum inn til fyrirtækjaskrár ásamt ársreikningi. Jafnlaunavottun geti þannig verið tæki fyrir stjórnendur til að vinna á kynbundnum launamun en hér er einnig um að ræða mikilvægar upplýsingar fyrir starfsmenn.
Vinstri græn
Vinstri græn telja að afnám launaleyndar sé mikilvægt skref sem þurfi að stíga í baráttunni gegn launamun kynjanna. Auk þess þarf að tryggja gagnsæja og hlutlæga ákvarðanatöku í launamálum. Störf karla og kvenna verður að meta að verðleikum og án þess að halli á konur.
Hefur þinn flokkur hug á að gera breytingar á núverandi fæðingarorlofs- og dagvistunarkerfi, t.d. til þess að reyna að hvetja karlmenn í fæðingarorlof eða til þess að brúa umönnunartímabil frá því að fæðingarorlofi lýkur og fram að því að leikskólar hefjast?
Björt framtíð
Já, það þarf að hækka hágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi, ekki síst vegna kynjasjónarmiða. Því miður eru karlar enn með hærri meðallaun en konur og lágar greiðslur í fæðingarorlofinu virka letjandi á að karlar taki þátt. Hækkun greiðsluþaksins er nauðsynleg forsenda fyrir lengingu orlofsins, tekjuskerðing í fæðingarorlofi dregur úr líkum á að lenging sé raunverulegur kostur fyrir ungar fjölskyldur. Lög um fæðingarorlof eiga að tryggja barni jafnar samvistir við báða foreldra og auka jafnrétti kynja á vinnumarkaði. Til að kerfið uppfylli lögin þarf það því að gera báðum foreldrum raunverulega kleift að nýta fullan rétt sinn. Þannig er réttur barna best tryggður, sem og jafnrétti á vinnumarkaði. Það er mikilvægt að brúa bil frá fæðingarorlofi að leikskólabyrjun, ríkið þarf þar að koma til móts við sveitarfélög svo öll bæjarfélög geti tekið skref í átt að lækkuðum inntökualdri í leikskóla.
Framsókn
Mikilvægt er að stuðla að því að sveitarfélögin geti boðið upp á leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi þannig að samfella verði tryggð í umönnun barna. Framsóknarmenn vilja að foreldrar sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingaorlofssjóði til að mæta þeim tíma þannig að fæðingaorlof sé nýtt í þágu barns að lokinni fæðingu. Framsóknarflokkurinn vill að samanlagt fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði verði lengt úr níu mánuðum í tólf. Þegar lengingin á fæðingarorlofi er að fullu komin til framkvæmda er miðað við að hvort foreldri um sig geti átt rétt til fimm mánaða fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks en að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir.
Píratar
Við viljum berjast gegn mismunun einstaklinga, hvort sem er á grundvelli kyns, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, trúarbragða, þjóðernis, uppruna eða fötlunar. Við leggjum áherslu á upplýstar ákvarðanir byggðar á bestu mögulegu upplýsingum og það hefur einfaldlega sýnt sig að fæðingarorlof karla og dagvistunarúrræði séu kröftug tæki til að styðja við jafnrétti og því viljum við gjarnan auka nýtingu þeirra til þess að koma á meira jafnrétti, til dæmis með smábarnaleikskólum og lengingu á feðraorlofi. Þegar kemur að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskólagöngu teljum við nauðsynlegt að sveitarfélög fái aukin fjárframlög til að standa undir þeirri sjálfsögðu þjónustu.
Samfylkingin
Samfylkingin vill að þak á hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi verði 600 þúsund krónur og að fæðingarorlof verði 12 mánðir. Við viljum að sitthvort foreldrið fái fimm mánuði í fæðingarorlof og að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir. Báðar þessar aðgerðir eru mikilvægar til þess að auka jafnrétti og eru líklegar til að leiða til þess að fleiri karlmenn taki fæðingarorlof. Samfylkining vill brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Til þess þurfa sveitarfélög að geta tekið á móti börnum þegar fæðingarorlofi lýkur. Við erum tilbúin til að færa fjármuna frá ríki til sveitarfélag til að hægt sé að stíga þessi skref.
Sjálfstæðisflokkurinn
Nýleg breyting á fæðingarorlofi þar sem hámark greiðslu hækkar í 500 þúsund krónur styður við og ætti að stuðla að því að fleiri nýti sér fæðingarorlofið. Sjálfstæðisflokkurinn treystir hins vegar fjölskyldunum sjálfum til þess að haga sínu lífi eins og henni best hentar. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa skilyrði fyrir ákvörðunum hvers og eins en ekki að taka ákvörðun fyrir fólk. Vinna þarf markvisst að því að tryggja börnum leikskóla eða dagvistun þegar fæðingarorlofi sleppir. Leikskólarnir, sem eru fyrsta skólastigið, eru á forræði sveitarfélaganna. Fækkun leikskólakennara er áhyggjuefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt á það áherslu að fjölbreyttari rekstrarform á þessu skólastigi eins og öðrum skapi fleiri tækifæri fyrir starfsfólk og fjölskyldur nemenda.
Viðreisn
Viðreisn telur að endureisa verði fæðingarorlofskerfið til að það geti náð markmiðum sínum, þ.e. að tryggja rétt barna til samvista við báða foreldra í frumbernsku og jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Hvað fæðingarorlofið varðar teljum við rétt að leggja fyrst áherslu á að hækka greiðsluþak enda hefur reynslan sýnt að feður eru síður líklegri til að taka fæðingarorlof eftir að greiðslur lækkuðu. Viðreisn telur líka nauðsynlegt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla þegar til lengri tíma er litið. Þar myndum við bæði líta til þess að lengja fæðingarorlof en einnig að færa skyldunám til 5 ára aldurs og búa þannig til svigrúm fyrir leikskóla til að taka börn inn fyrr.
Vinstri græn
Já, Vinstri græn telja að breytinga sé þörf á núverandi fæðingarorlofs- og dagvistunarkerfi til þess að stuðja að jafnrétti kynjanna. Það er forgangsatriði hjá VG að bæta kjör ungs fólks og fjölskyldufólks. Þakið á greiðslum í fæðingarorlofi var nýlega hækkað en brýnt er einnig að lengja orlofið úr níu mánuðum í 12 mánuði. Tryggja þarf að fæðingarorlof skiptist sem jafnast, en þó með sanngjörnum hætti á milli foreldra. Hvetja þarf karla til töku orlofs, jafna foreldraábyrgð og þar með stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Jafnframt er mikilvægt að tryggja í samstarfi við sveitarfélögin að leikskólarnir taki við börnum strax að afloknu lengdu fæðingarorlofi.
Hvaða umbætur þarf íslenskt atvinnulíf að ráðast í?
Björt framtíð
Íslenskt atvinnulíf þarf á því að halda að hinn svokallaði alþjóðlegi geiri, sem byggir á þekkingu frekar en náttúruauðlindum, verði efldur með markvissum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun. Björt framtíð átti frumkvæði að fjárfestingaráætlun sem var lögð fram árið 2012 og átti að vinna að frá árinu 2013 – 2015 en var svo felld úr gildi í upphafi á því kjörtímabili sem tók enda á dögunum. Í henni var meðal annars markvisst stefnt að auknum stuðningi við nýsköpun. Skoðun á lengd vinnuviku er tímabær á íslenskum vinnumarkaði, enda framleiðni ekki í samræmi við unna tíma. Björt framtíð vill hverfa frá stóriðjustefnu fyrri tíma og horfa til menntunar og hugvits sem okkar eigin stóriðju. Þar sem ungar konur vilja búa dafnar byggð. Atvinnulíf þarf að halda í ungt fólk. Fæðingarorlof og dagvistun er forsenda fyrir að ungu fólki líði vel.
Framsókn
Framleiðni hér á landi er lægri en í nágrannalöndum okkar. Hana þarf að auka og þar með eykst hagkvæmni hagkerfisins. Fyrirtæki eru hluti af samfélaginu og þurfa að sýna samfélagslega ábyrgð. Flokkurinn telur að lág tekjuskattsprósenta rekstraraðila sé mun líklegri til að bæta samkeppnishæfni, draga að erlenda fjárfesta, auka innlendar fjárfestingar, draga úr undanskotum og auka skatttekjur. Mikilvægt er að gefa sem flestum tækifæri á að nýta starfskrafta sína með viðeigandi hætti. Samfélagslegur ávinningur er mikill þar sem félagsleg vandamál eru minni við eðlilega atvinnuþátttöku. Tryggja þarf tengsl skóla við atvinnulífið strax á fyrri stigum grunnskólans og byggja brú á milli skóla og atvinnulífsins meðan á námi stendur.
Píratar
Píratar vilja stuðla að þekkingarsamfélagi og uppbyggingu nýrra greina sem henta ungu, vel menntuðu fólki. Nýsköpun og samstarf þvert á geira eru lykilatriði í færslunni frá samfélagi sem byggir á náttúruauðlindum og til þess sem byggir á þekkingu. Unga fólkið menntar sig sem aldrei fyrr og því vantar störf fyrir vel menntað fólk. Með menntun sinni hefur unga fólkið þegar kosið aðra atvinnustefnu en flestir stjórnmálaflokkar á Íslandi bjóða upp á. Það er ekki nóg að byggja eina nýja áburðarverksmiðju til að mæta þessari þörf, það þarf að hugsa stærra, þróa nýtt og bregðast við breyttum tímum.
Samfylkingin
Við leggjum áherslu á að hér verði til fjölbreytt og vellaunuð störf. Við viljum auðvelda starfsumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og þeirra sem nýta hugvit með því að lækka tryggingargjald. Við viljum taka upp evru samhliða inngöngu í Evrópusambandið til að lækka vexti og styðja betur við fyriræki í nýsköpun og í alþjóðageiranum til að auðvelda þeim fjármögnun erlendis og gera þeim kleift að borga eftisóttu starfsfólki laun í stöðugum gjaldmiðli. Grunnstoð hinnar norrænu samfélagsgerðar er þríhliða samstarf aðila vinnumarkaðarins og ríkisvalds. Það er lykill að sátt á vinnumarkaði, kaupmáttaraukningu og stöðugleika, að því mun Samfylkingin vinna.
Sjálfstæðisflokkurinn
Þörf er á samstiltum aðgerðum stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins hafa skilað félags- og húsnæðismálaráðherra ítarlegum tillögum að framtíðarstefnu stjórnvalda um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Sjálfstæðisflokkurinn mun kynna sér þessar tillögur og vinna með þær áfram því á meðan ekki eru greidd sömu laun fyrir sambærileg störf þá getum við ekki leyft okkur að vera ánægð einn einasta dag. Vinna þarf að útbreiðslu jafnlaunastaðalsins enda á það að vera metnaður stofnana og fyrirtækja að státa að jafnrétti kynjanna.
Viðreisn
Viðreisn telur lykilatriði að útrýma kynbundnum launamun og jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði. Rétta þarf hlut kvenna að því er varðar ábyrgðarstöður bæði hjá ríki og einkafyrirtækjum. Þá þarf sérstaklega að gera átak varðandi kynbundið starfsval einkum vegna áhrifa á laun og kjör á vinnumarkaði. Að öðru leyti telur Viðreisn að helsti vandi íslensks atvinnulífs sé óstöðugt efnahagsumhverfi og sérstaklega óstöðugur gjaldmiðill. Viðreisn vill freista þess að koma á stöðugleika með því að festa gengi krónunnar með svokölluðu myntráði. Til þess að það sé unnt þarf hins vegar að skapast víðtæk samstaða hjá hinu opinbera og aðilum vinnumarkaðarins.
Vinstri græn
Atvinnustefna VG byggir m.a. á sjálfbærni, umhverfissjónarmiðum, jöfnuði og félagslegu réttlæti. Framtíð byggða landsins, atvinnu og efnahags byggist á jöfnum tækifærum óháð búsetu, virðingu fyrir náttúrunni og gróskunni sem þrífst í fjölbreytninni. Að mati VG þarf að tryggja að allar atvinnugreinar byggist á sjálfbærni og fjárfestingar taki mið af umhverfissjónarmiðum, þannig að ekki sé gengið á náttúruna. Sérstaklega mikilvægt er einnig að tryggja jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu, því fjölga þarf konum sem gegna áhrifastöðum í samfélaginu. Stærstu tækifærin í íslensku atvinnulífi liggja í nýsköpun, þróun og hugviti. Til grundvallar liggur að efla háskólastigið með því að framlög til þess verði sambærileg við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum.