Þann 1. febrúar stóð UAK fyrir viðburði með yfirheitið Stýra hormónar starfsferlinum? þar sem markmiðið var að vekja athygli á mikilvægi þess að hlúa að eigin líðan og heilsu, stuðla að vitundarvakningu um kvenheilsu og gera grein fyrir hvernig málefnið snertir allt samfélagið með einum eða öðrum hætti. Skráning á viðburðinn fór vonum framar og segja má að metskráning hafi verið sem gefur tilkynna að áhugi sé fyrir efninu og að gefa þurfi umræðunni meira pláss í samfélaginu.
Á viðburðinum voru fjögur ólík erindi en Hanna Lilja Oddgeirsdóttir sérnámslæknir í kvensjúkdóma- og fæðingalækningum og stofnandi og framkvæmdastjóri lækninga hjá GynaMedica opnaði viðburðinn og fræddi félagskonur um hvernig hormónar hafa áhrif á okkur út frá tíðarhringnum.

Lilja Guðmundsdóttir formaður Samtaka um endómetríósu fræddi félagskonur um endómetríósu og hvaða hagsmunum samtökin eru að berjast fyrir. Mikil vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu um sjúkdóminn og hafa samtökin náð í gegn mikilvægum skrefum að betri aðstæðum fyrir einstaklinga sem eru með endómetríósu

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ræddi meðal annars um hans sýn á mikilvægi vitundarvakningar til breytinga í atvinnulífinu sem og samfélaginu öllu. Mikilvægt er að fyrirtæki og stofnanir stuðli að vinnustaðamenningu þar sem hægt er að tala saman og ræða líðan sína.

Erla Björnsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns fjallaði um samspil svefns og tíðarhringsins og kom með áhugaverðar samlíkingu á fösunum fjórum og árstíðum sem útskýrði ferlið svo skemmtilega. Allir fasarnir eru með sína fegurð og benti Erla á mikilvægi þess að geta séð kostina við hvert tímabil.

Að því loknu tóku þau þátt í pallborði sem Andrea Eyland, athafnakona stýrði. Góðar og áhugaverðar spurningar komu úr sal til þeirra í pallborðinu.


Kristín Sverrisdóttir, ráðstefnustjóri UAK var fundarstjóri á viðburðinum

Stjórn UAK þakkar Hönnu Lilju, Lilju, Halldóri og Erlu kærlega fyrir þeirra framlag á viðburðinum og öllum félagskonum sem mættu.
